Beðið fyrir kvótakerfinu og fleiru

DSC_0189 

Eitt af því sem gerir tilveru mannsins skemmtilega, spennandi og ögrandi er það ástand hennar, að fólk hefur mismundandi lífsskoðanir og viðhorf. Okkur gengur misvel að umgangast eða þola þann fjölbreytileika. Nú heyri ég til dæmis fólk amast allhressilega við fyrirbænarefnum á kristilegri samkomu í Reykjavík.

Mér skilst að þar hafi menn m. a. unnið sér það til óhelgi að hafa ætlað að biðja fyrir kvótakerfinu og breyttum viðhorfum til fóstureyðinga.

Hafi fólk áhyggjur af kvótakerfinu og viðhorfum til fóstureyðinga finnst mér ekki nema sjálfsagt að það fái að fela almættinu þann kvíða í bæn. Ég treysti Guði fyllilega til að bregðast skynsamlega við þeim bænum - eða bregðast ekki við þeim finnist honum ekki ástæða til annars.

Og mér finnst fráleitt að gera kröfu um að allir hafi sömu áhyggjurnar eða biðji sömu bænirnar.

Sumum finnst kvótakerfið ranglátt og hafa af því sverar áhyggjur. Þá er ekki nema eðlilegt að tala um þær áhyggjur sínar við Guð sé maður á annað borð trúaður.

Öðrum finnst kvótakerfið frábært. Þeir gætu þakkað Guði fyrir blessun þess í bænum sínum.

Ég gæti reyndar gert hvort tveggja. Mér finnst nauðsynlegt að takmarka aðganginn að auðlind sjávar til að ekki verði of mikið veitt af fiskum. Þess vegna gæti ég þakkað Guði kvótakerfið. En það eru líka gallar á því fyrirkomulagi sem við Íslendingar höfum á stjórn fiskveiða. Þess vegna er kvótakerfið alls ekki svo galið fyrirbænarefni.

Ég aðhyllist þá skoðun að fóstureyðingar eigi rétt á sér innan ákveðinna marka og með vissum skilyrðum. Ég þekki fólk sem er annarrar skoðunar og er nánast alfarið á móti fóstureyðingum. Aðrir vilja leyfa fóstureyðingar þótt ég hafi enn ekki hitt manneskju sem vill heimila þær án skilyrða. Fóstureyðingar eru siðfræðilegt álitmál.  Um þær hefur verið deilt og enn eru þær umdeildar. Til að takast á við það álitamál þarf að svara ýmsum spurningum. Í hverju er rétturinn til lífsins fólginn? Hver er munurinn á fóstri og ófæddu barni? Hvernig skiljum við sjálfsákvörðunarrétt kvenna?

Ég geri ekki ráð fyrir að allir svari þessum spurningum eins og þess vegna hefur fólk mismunandi skoðanir á fóstureyðingum. Spurningunum sem þeim tengjast hefur ekki verið svarað í eitt skipti fyrir öll. Þær eru enn þess virði að velt sé vöngum yfir þeim og skipst á skoðunum um þær. Þess vegna er umræðunni um fóstureyðingar ekki lokið.

Telji einhver að ekki mega ræða fóstureyðingar lengur vegna þess að þær séu útrætt mál finnst mér full þörf á að biðja fyrir breyttum viðhorfum til þeirra.

Hvaða skoðun sem fólk hefur á málinu held ég að konur geri sér grein fyrir því að öllu frelsi fylgir ábyrgð, líka því að geta tekið ákvörðun um fóstureyðingu. Fóstureyðingar kosta oft erfið tilfinningaleg átök. Konur sem fara í fóstureyðingu þurfa því sérstakan stuðning samfélagsins. Samfélagið sýnir ábyrgð með því að veita þeim þann stuðning og þar gæti það held ég breytt sér og bætt sig.

Myndin er af haustlaufi í velflestum heimsins litum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband