Stríðið gegn svefninum

P1020290

 

Á nýafstöðnum dömulegum dekurdögum í höfuðstað Norðurlands stóð dömum bæjarins til boða allskonar góss á dekurverði, m. a. hægindastólar, skór, listmunir, nærbuxur, snyrtivörur, veitingahúsamáltíðir, tertur, fatnaður og skartgripir. Í Dagskránni, helsta auglýsingamiðli Akureyrar og nágrennis, kemur aukinheldur fram að á dekurdögunum gefist akureyskum kvenpeningi kostur á ýmsum viðburðum, svo sem konukvöldi, hár- og tískusýningu, happy hour og jafnvel utanlandsferðum. Langflestum auglýsinganna í þessu tölublaði var  beint til kvenna – nema kannski síst þeirri frá Meindýravörnum Axels.

 

Á netútgáfu annars fjölmiðils gagnrýndi lektor við Háskólann á Akureyri dekurdagana. Eitt aðfinnsluefnið er að dagarnir séu of neyslumiðaðir. Skilaboðin sem þeir sendi séu, að konur láti stjórnast af neyslu og hugsi fyrst og fremst um útlit sitt. Í fréttinni er haft eftir bæjarstjóranum á Akureyri að áhyggjuefni sé ef þetta framtak fari að snúast um eitthvað annað en upphaflega var ætlað.

 

Það gæti reyndar átt við um fleiri framtök og atburði og hátíðir, að þau séu farin að snúast um eitthvað allt annað en meiningin var í byrjun. Oft hefur því t. d. verið haldið fram um jólin, að þau séu löngu hætt að snúast um það sem maður hélt að ætti að vera kjarni þeirra. Jólin eru einhver almesta neysluhátíð ársins – sem er töluverð kaldhæðni í ljósi þess að kristnir menn halda þau í minningu barns sem fæddist í allsleysi.

 

Sama gagnrýni heyrist á fermingarnar og fermingarbörn landsins (a. m. k. þau sem fermast í kirkju) eru sökuð um að þau séu bara að fermast gjafanna vegna. Það hvernig við höldum upp á hátíðir og tímamót er að mörgu leyti aðfinnsluvert. Mér finnst samt alltaf dálítið undarlegt þegar fermingarbörnin verða helstu skotmörkin í þeirri gagnrýni. Það eru ekki fermingarbörnin sem semja allar auglýsingarnar um fermingargóssið eða flytja inn öll þau ósköp sem þarf að kaupa til að geta fermt barnið sitt almennilega – trúi maður öllum auglýsingunum. Það eru heldur ekki fermingarbörnin sem kaupa allan þennan varning og fermingarbörnin hafa heldur ekki skapað þennan mikla neyslu- og sölukúltur í kringum þessi tímamót.

 

Árið eftir Hrun var ég að hlýða fermingardreng yfir boðorðin. Þau runnu upp úr honum viðstöðulítið. Við spjölluðum saman um merkingu boðorðanna. Ég spurði drenginn hvað það þýddi til dæmis að halda hvíldardaginn heilagan.

 

Eftir stanslaust hruntal næstliðinna mánaða svaraði stráksi sprakri röddu, að fólk hefði hvort eð er ekki efni á öðru en að halda hann heilagan.

 

Ég fyllist alltaf dísætri nostalgíu þegar ég rifja upp sunnudagana í gamla daga. Þeir hófust með hreyfisöngvum og skuggamyndum frá Afríku í sunnudagaskólanum í Zíon, síðan snæddi ég stundum verkamannasteik eða hrossagúllas og ávaxtagraut með rjómablandi hjá ömmu og afa niðri á Eyri. Þá gaf amma mér stundum pening í þrjú bíó. Í þá daga var maður alltaf klæddur í heldur betri föt á sunnudögum og þeir voru í eðli sínu öðruvísi en aðrir dagar vikunnar.

 

Þegar ég bjó í Ólafsfirði heyrði ég að fyrr á tíð hefði tíðkast, að borgarar klæddu sig í sparifötin og fengju sér labbitúr fram og aftur í Ósbrekkusandinum ef veður var hagstætt

 

Nú hafa sunnudagarnir allt annan svip og ef einhver sést í Ósbrekkusandinum er hann sennilega í flíspeysu. Sunnudagarnir eru ekki lengur jafn frábrugðnir öðrum dögum og þeir voru. Þeir eru ekki lengur sömu hvíldardagarnir, til dæmis hvorki fyrir starfsfólk verslana né viðskiptavini þeirra. Þvert á móti eru skipulagðir sérstakir viðburðir og hámessur í öllum helgidómum neyslunnar til að tryggja að henni sloti helst aldrei.

 

Í bók sinni, 24/7 fjallar Jonathan Crary, háskólaprófessor í New York, um stríðið sem hann segir háð gegn svefninum og hvíldinni. Hann segir frá því að nú rannsaki vísindamenn bandaríska hersins hvernig fuglategund geti á haustin flogið alla leið frá Alaska til Mexíkó. Flugið tekur sjö daga og allan þann tíma halda  fuglarnir sér vakandi. Draumur vísindamannanna sé að gera hermönnum kleift að halda sér vakandi svona lengi í einu. Crary segir að sagan sýni, að framfarir í stríðsrekstri birtist gjarnan síðar á öðrum sviðum mannlífsins. Þannig gæti hinn sívakandi hermaður verið undanfari hins sívakandi neytanda eða verkamanns.

 

Hvorki í kristni né gyðingdómi er hvíldardagurinn bara hugsaður út frá forsendum hversdagsins. Hugsunin er ekki sú að hvíldardaga eigi menn að nota til að vera betur í stakk búnir til að takast á við verkefni vikunnar, vinnu og neyslu. Hvíldardagurinn felst ekki í því að safna kröftum fyrir næsta sprett lífsgæðakapphlaupsins. Hvíldardagurinn er þvert á móti til að minna okkur á að við erum ekki bara neytendur eða vinnuþrælar. Við erum menn og mennska okkar felst í því að við erum fær um að njóta lífsins, rækta tengslin við Guð, okkur sjálf og okkar nánustu. Í mennsku okkar eigum við að geta upplifað hina margháttuðu blessun þess að vera til. Hvíldardagurinn var skapaður til þess að gera okkur það kleift. Hvíldardagurinn er til að minna okkur á af hverju við lifum hér á þessari jörðu og hvað er okkur raunverulega mikilvægt og dýrmætt.

 

Stanslaust er verið að hvetja okkur til að slá aldrei slöku við. Þótt dömulegir dekurdagar auðgi svo sannarlega tilveruna og von mín sé sú að sem flestar dömur, ungar sem aldnar, leyfi sér að dekra og dúlla við sig á þeim dögum sem öðrum, þá er heilmikið til í því, að samfélag okkar sé í sívaxandi mæli neysludrifið. Oft er eins og ekkert annað skipti máli en að tryggja með öllum ráðum aukna neyslu. Okkur er talin trú um að við megum helst aldrei slaka neitt á því þá gætum við verið að missa af einhverju stóru. Við megum hvorki lina tökin né hægja á.

 

Kannski er svefninn eitt síðasta vígið sem markaðsöflin hafa ekki unnið?

 

Þegar við lokum augunum og sofnum, gleymum við okkur sjálfum, felum okkur svefninum á vald og getum sofnað sætt þó að við höfum ekki lengur meðvitaða stjórn á okkur sjálfum - og kannski einmitt vegna þess. Í svefninum linum við tökin, slökum á og gleymum okkur.

 

Tilgangur hvíldarinnar og þess að slaka á er ekki síst fólginn í því að láta okkur finna, að það er ekki allt undir okkur sjálfum komið. Við megum gleyma okkur og treysta einhverju öðru.

 

Í hvert sinn sem við lokum augunum og hverfum inn í heim draumanna  megum við treysta því að yfir okkur er vakað.

 

Myndina tók ég í sumar í Val di Cecina í Toskana á Ítalíu skömmu áður en ég tók á mig náðir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband