22.10.2014 | 09:04
Byssuglamur
Í gær fluttu íslenskir fjölmiðlar þær fréttir að lögregla landsins væri að vígbúast stórkostlega og hefði í því skyni fest kaup á 200 hríðskotabyssum. Hefði töluverðum fjármunum verið varið til kaupanna og heyrðust nefndar upphæðir allt að hálfum milljarði íslenskra króna. Var málið samstundis tekið upp á Alþingi þar sem talað var um sömu peningaupphæðir og stjórnvöld gagnrýnd harðlega fyrir að kaupa byssur á meðan skorið væri niður í skólum og á spítölum.
Eðlilega urðu mikil viðbrögð við þessum tíðindum og snjóboltinn fitnaði eftir því sem hann rann lengra niður fjallið. Fólk sá fyrir sér laganna verði í Skagafirði vopnaða hríðskotabyssum stoppa stressaða Akureyringa á ólöglegum ökuhraða. Sú saga fékk fætur á samfélagsmiðlum að stjórnvöld væru að byssuvæða lögregluna til að hún gæti skotið á mótmælendur á Austurvelli eða aðra sem henni væri illa við.
Þegar forsætisráðherra landsins leyfði sér að beita kaldhæðni á sömu miðlum og benda fólki á að spyrja fyrst og skjóta svo, ekki síst þegar um hríðskotabyssur væri að ræða, áttu margir ekki til orð til að lýsa því smekkleysi.
Fljótlega eftir að fréttirnar birtust komu aðrar sem drógu þær fyrri í efa. Byssurnar væru ekki 200 heldur 150. Þær hefðu ekki verið keyptar fyrir hálfan milljarð króna heldur væru vopnin gjöf frá norsku lögreglunni sem væri að endurnýja byssueign sína. Lögreglumenn á Íslandi ættu ekki að vera vopnaðir við störf sín og hvorki væri verið að breyta reglum um vopnaeign lögreglunnar né auka heimildir lögreglumanna til að beita skotvopnum. Lögreglan hefði áður átt sambærileg vopn sem væru nú úrelt. Vopnabúr lögreglunnar hefði reyndar oft verið stærra.
Auðvitað á það ekki að ganga þegjandi og hljóðalaust fyrir sig ef breyta á fyrirkomulagi löggæslu á Íslandi. Á táningsárum mínum man ég vel eftir því þegar keflvískur frændi minn bauð mér og sex ára systur minni í bíltúr upp á Völl. Þar vorum við stöðvuð af herlögreglumanni og hafði sá skammbyssu dinglandi í hulstri við læri. Þegar systir mín sá herlögguna varð hún skelfingu lostin og brast í grát því hún hafði aldrei séð manneskju með skotvopn áður. Á Akureyri sem annars staðar á Íslandi þess tíma voru hvítmálaðar lögreglukylfurnar einu vopnin sem fólk sá í fórum laganna varða. Þær veittu ekki þyngri högg en kökukeflin sem finna má í eldhúsum flestra heimila.
Þannig var Ísland þá. Ég sakna þess en sennilega er það þjóðfélag endanlega horfið. Hinn íslenski veruleiki er núna annar og á margan hátt nöturlegri. Því miður hefur Ísland glatað þessu sakleysi sínu ef við höfum einhvern tíma átt það. Íslendingar geta verið þakklátir fyrir margt. Þó erum við ekki best í heimi. Hér eru glæpir eins og í öðrum löndum og hér geta menn verið hættulegir sér sjálfum og umhverfi sínu. Ég er ekkert viss um að íslenskir lögreglumenn sinni síður hættulegum verkefnum en starfssystkini þeirra í útlöndum þótt umfangið sé vonandi minna hér en hjá fjölmennari þjóðum.
Langstærstan hluta verkefna sinna getur lögreglan þó unnið án vopna. Þannig viljum við held ég flest hafa þessa þjóna okkar. Umræða um vopnaburð lögreglunnar er þörf. Hana þarf þó að byggja á öðru en sögusögnum, dylgjum eða hreinum ósannindum. Umræðan verður aldrei til gagns nema þátttakendur í henni séu vel upplýstir.
Stundum finnst manni sumt í fjölmiðlun og umræðumenningu hér á landi sýna, að við Íslendingar þurfum alla vega ekki byssurnar til að búa til hávaða.
Myndin: Veturinn kemur í Skíðadal.
Athugasemdir
Þú ert að meina, að Íslenska lögreglan er að vopna sig ef svo skildi fara að Rússneskar "spetsnak" sveitir, komi upp úr kafbátum og ráðist á landið.
Sko, góurinn ... ef "slíkt" skildi gerast, væri verr en enginn not af þessum hríðskotabyssum. Svo það er lítið annað að vopna sig gegn, en sauðum og stressuðum Akureyringum.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 22.10.2014 kl. 10:51
Þetta er náttúrlega rangt hjá Bjarna Erni Hansen (einu sinni enn!).
Það kom fram í fréttum í vor eða sumar, að hér á landi er 80% byssueign. Íslendingar gætu í krafti vopnaeignar vel tekið á móti liðssveitum sem smyglað væri hingað í kafbátum, væri það ekki alvarlegra en svo (og þarna geri ég ráð fyrir, að ekki komist hundruð manna fyrir í kafbátunum). En vitaskuld þyrfti lögreglan, Landhelgisgæzlan, Almannavarnir o.fl. aðilar að skipuleggja mótspyrnu. Þá væri kannski einhver hjálp í 150 hríðskotabyssum lögreglunnar, en langtum betra væri að hafa þær tíu sinnum fleiri (ca. tvær á hvern lögreglumann).
Auðvitað er fyrir löngu kominn tími til að stofna hér íslenzkan her, jafnvel árin 1843 og 1857 þegar landsmenn voru a.m.k. fimmfalt færri en nú, vildi Jón Sigurðsson (forseti) að við hefðum "varnarskyldu hér á landi líkt og enn er á Borgundarhólmi; þeir hafa þar sitt eigið lið og heræfingar, og þar með fullnægja þeir varnarskyldu sinni." Jón vildi, að bændur hefðu vopnaðar þjóðvarnarsveitir og að 120 ungir menn yrðu ár hvert sendir á herskip Dana hér við land, til herþjálfunar, herþjónustu og landvarna.
Ræfilsgangur okkar kemur mikið til af andstöðu vinstri manna við varnir landsins. En eftir brotthvarf Bandaríkjahers af landinu er full ástæða til að gæta betur að landvörnum hér, þrátt fyrir alla NATO-aðild.
Þið tókuð eftir, að það var ekki norska lögreglan, sem gaf byssurnar, heldur norski herinn. Sannarlega eru þeir, sem annast norskar landvarnir, nú sem fyrr áhyggjufullir yfir því, að Ísland sé illa til varna búið. Einar Gerhardsen, lengi forsætisráðherra þeirra, og fleiri ráðherrar þar höfðu viðrað áhyggjur sínar í þeim efnum og vildu vitaskuld fá okkur með í Norður-Atlantshafsbandalagið.
Svo þakka ég vel skrifaðan pistilinn, séra minn.
Jón Valur Jensson, 22.10.2014 kl. 23:43
Eftir höfðinu dansa limirnir. Það er ekki skrýtið að umræðan sé heit, jafnvel ómálefnaleg á stundum, þegar þær þrjár stjórnsýslustofnanir (og ég er ekki byrjaður að tala um ráðherra og/eða aðstoðarmann hans) tala út og suður, norður og niður um málið og hafa orðið uppvísar að ósannindum.
Já ég er sammála Alfreð. Tökum umræðuna og það ÁÐUR en lögreglan hefur ákveðið upp á sitt eindæmi að vopna hinn almenna löggæslumann án þess að það sé borið undir þing og þjóð.
Guðmundur St Ragnarsson, 24.10.2014 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.