7.11.2014 | 08:58
Landsmæður og landsfeður
Nýlega horfði ég á tveggja ára gamlan viðtalsþátt í þýska sjónvarpinu með þarlendum stjórnmálamönnum, þeim Joachim Gauck, forseta Þýskalands, og Helmut Schmidt, fyrrverandi leiðtoga þýskra sósíaldemókrata og kanslara um átta ára skeið.
Schmidt fæddist árið 1918 og upplifði Weimarlýðveldið, valdatíma nasista, heimsstyrjöldina, kalda stríðið og hrun kommúnismans.
Gauck kom í heiminn árið 1940. Hann var prestur í gamla Austur-Þýskalandi og tók virkan þátt í starfi friðarhreyfinganna þar áður en það alræðisríki leið undir lok.
Mikið var gefandi að hlusta á þessa menn. Þeir bjuggu yfir ótrúlegri lífsreynslu og djúpri lífsvisku. Báðir voru þeir gætnir í orðum en jafnframt beinskeyttir og höfðu hvort tveggja víða sýn og skýra. Málflutningur þeirra var laus við óvild, hefndarhug eða heift. Þeir voru það sem hægt er að kalla landsföðurlegir, virðulegir, vel máli farnir, skrumlausir, skynsamir og velviljaðir.
Eftir þáttinn fór ég að hugsa um hvar svona menn væri að finna í heimi íslenskra stjórnmála. Vilhjálmur Hjálmarsson og Matti Bjarna eru í minningunni af þeirri gerð og ekki síður einn af mínum uppáhaldsstjórnmálamönnm íslenskum, kjarnakonan Málmfríður Sigurðardóttir.
Vigdís Finnbogadóttir er sennilega landsföðurlegasti núlifandi Íslendingurinn.
Í hópi núverandi leiðtoga í íslenskum stjórnmálum finnst mér fátt um djúpvitra öldunga en Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson gætu orðið það með árunum. Mér finnst þau bæði vera að þróast í góðar áttir sem stjórnmálamenn.
Myndina tók ég í sumar í friðarsafninu í Remagen-brúnni við Rínarfljót í Þýskalandi. Á henni eru númeraspjöld af þýskum hermönnum sem dóu í heimsstyrjöldinni síðari.
Athugasemdir
Ég er sammála þessu. Hins vegar fannst mér Kristján Eldjárn alltaf mjög landsföðurlegurm meðan hann var forseti, rólegur og yfirvegaður, og sömuleiðis Ólafur Jóhannesson, fv. forsætisráðherra. Það mættu fleiri vera þeim líkir, hvað það snertir.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2014 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.