Landflótti vegna leiðinda

P1010364

 

Nú um helgina komst rithöfundurinn Einar Kárason heldur betur á milli tanna fólks vegna ummæla sem hann lét falla á fésbókarsíðu sinni. Þar sakaði hann íbúa landsbyggðarinnar um frekju og kallaði þá hyski.

Hljóp fram mikil skriða vandlætinga. Persóna Einars var svívirt og birtar voru skopmyndir af manninum.

Ég veit ekki hvaða skoðanir Einar Kárason hefur á flugvellinum í Vatnsmýrinni en ég er sammála honum um að varlega verður að fara í að svipta sveitarfélög réttinum til að skipuleggja umhverfi sitt.

Og við nánari athugun kemur í ljós að Einar Kárason kallaði alls ekki alla íbúa landsbyggðarinnar hyski í þessari færslu. Hann sakaði þá um frekju og yfirgang sem vilja taka skipulagsréttinn af Reykvíkingum og stjórna nærumhverfi þeirra. Þeir eru hyskið sem Einar talar um.

Kannanir sýna að mikill meirihluti landsmanna vill hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er og gildir þá einu hvort þeir búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi.

Getur verið að einhverjir sjái sér hag í því að spilla þeirri samstöðu með því að etja saman íbúum landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar?

Ein leið til þess væri að gera sem mest úr ummælum Einars og draga upp þá mynd af sveitungum hans að þeir væru sama sinnis; tali um hyskið úti á landi á meðan þeir sötra latteið sitt.

Vinur Einars blandaði sér í umræðuna og benti á að rithöfundurinn hefði alls ekki kallað alla hyski sem búa úti á landi og væri m. a. s. sjálfur stoltur af því að vera ættaður þaðan. Vinurinn tók þannig til orða að heimskingjar færu nú að Einari með vopnum. Auðvitað var þeim ummælum snúið við  og blásin upp – enda buðu þau kannski upp á það – og nú er vinurinn, fyrrverandi borgarfulltrúi, sakaður um að kalla íbúa landsbyggðarinnar heimskingja.

Nýlega kynnti Guðbjört Guðjónsdóttir, mannfræðinemi, doktorsrannsókn sína á reynslu Íslendinga sem flutt hafa til Noregs. Í rannsókn Guðbjartar kemur fram að eftir Hrun hafi margir flúið vegna efnahagsástandsins eða atvinnuleysis. Það eru þó ekki einu ástæður þess að fólk flýr land. Andrúmsloftið á Íslandi eftirhrunsáranna á líka sinn þátt í landflóttanum. Í rannsókn Guðbjartar nefnir fólk reiðina, heiftina og hina neikvæðu umræðu í samfélaginu sem ástæður þess að það ákvað að yfirgefa Ísland.

Nú eru ýmis teikn á lofti um að efnahagsástandið sé að batna þótt margt megi vissulega enn betur fara.

Mér finnst umræðan á hinn bóginn ekki skána og jafnvel fara versnandi. Einkenni hennar eru neikvæðni og nöldur. Þau sem leyfa sér að benda á eitthvað jákvætt eru sökuð um að gera það í annarlegum tilgangi. Hér hefur lengi verið þjóðarsport að snúa út úr orðum manna og gera þeim upp  skoðanir.

Við trúum helst því versta upp á náungann.

Er það ekki umhugsunarvert fyrir okkur sem þjóð ef fólk farið að flýja Ísland í stórum stíl vegna neikvæðni og leiðinda?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt segirðu. Eða þá að mótmæla bara til að mótmæla, og hafa engan tilgang með mótmælunum, eins og gerist á morgun. Það er eins og sumir séu orðnir bandvitlausir vægast sagt, og viti ekki lengur, hvað upp eða niður snýr á hlutunum. Haldið það sé nú!!

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.11.2014 kl. 12:55

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott hjá collegunni Guðbjörgu Snót í 2. setningu og áfram!

Jón Valur Jensson, 10.11.2014 kl. 04:11

3 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Já það er einmitt það! Kannski kann maður bara ekki að lesa?

Eyjólfur G Svavarsson, 10.11.2014 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband