Djöflast í Ríkisútvarpinu

P1020669

Umræðan sem nú stendur yfir um Ríkisútvarpið, eina mikilvægustu menningarstofnun samfélagsins, litast af því að þessi sama stofnun hefur lengi verið bitbein íslenskra stjórnmálamanna. Fólkið sem datt ofan í skotgrafirnar í stúdentapólitíkinni vill annaðhvort fá að nota Ríkisútvarpið sem skotgröf sína eða er dauðhrætt um að hinir séu að fá að nota það sem slíka.

Þessi umræða sýnir að minni hyggju að losa þarf þessa sameign þjóðarinnar úr þeirri stöðu að vera áhald sem íslenskir pólitíkusar nota til að berja hver á öðrum. Yfirstjórn þjóðarútvarpsins á að vera skipuð fulltrúum allra helstu fjöldahreyfinga landsins en ekki einungis fulltrúum stjórnmálaflokka.

Nú þegar langflestir íslenskir fjölmiðlar eru í eigu auðvaldsins og er stjórnað af því eykst mikilvægi Ríkisútvarpsins.

Heilbrigt fjölmiðlaumhverfi er ekki einungis fólgið í vönduðum og fjölbreytilegum fjölmiðlum. Það þarf líka mynduga notendur. Myndugir notendur fjölmiðla trúa ekki öllu sem fjölmiðlar flytja. Myndugir notendur fjölmiðla láta ekki mata sig á staðreyndum heldur hugsa og meta það sem þeir sjá og heyra. Myndugir notendur hafa skoðanir á því hvernig fjölmiðlar eigi að vera.

Í heilbrigðu fjölmiðlasamfélagi eru myndugir notendur ófeimnir við að gagnrýna fjölmiðla. Þar kunna fjölmiðlar að taka gagnrýninni, svara henni með rökum og taka tillit til hennar finnist þeim ástæða til.

Ég er að mörgu leyti afar ánægður með Ríkisútvarpið en að mörgu leyti síður ánægður. Og mér þykir það vænt um stofnunina að ég læt óánægju mína í ljós.

Mér finnst að Ríkisútvarpið ætti að reka vandaða sjónvarpsstöð og hafa eina útvarpsrás þar sem áhersla er lögð á menningu og fréttir.

Mér finnst að Ríkisútvarpið mætti sinna landsbyggðinni miklu betur. Það eiginlega nær ekki nokkurri átt að þessi þjóðareign skuli nánast eingöngu starfa í þágu höfuðborgarsvæðisins.

Ég hef ýmislegt fleira um Ríkisútvarpið að segja og læt engan segja mér að hætta að djöflast í því.

Mér má alveg finnast eitt og annað um þessa stofnun því ég á hana í félagi við landa mína.

Myndina tók ég af Pollinum nýlega áður en það fór að snjóa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Amen

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.12.2014 kl. 22:23

2 identicon

Bravo Svavar, vel mælt. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.12.2014 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband