Nægir að efast?

DSC_0258

Áramótaávörp forseta og biskups hafa orðið tilefni til skoðanaskipta um gagnrýna umræðu og efann eins og ég fjallaði um í síðasta pistlinum hér.

Sá sem beitir gagnrýninni hugsun tekur ekki öllu sem gefnu. Hann staldrar við, og leyfir sér að efast um það sem hann sér. Hann trúir ekki sínum eigin augum.

Efinn er ómissandi fyrir alla sem vilja velta fyrir sér hlutunum með gagnrýnum hætti.

Reyndar á flest af því sem raunverulega skiptir máli í lífinu það sameiginlegt, að um það má efast. Þannig hafa mennirnir löngum glímt við efasemdir um ást, vináttu, heiðarleika, einlægni, Guð og himnaríki, svo nokkuð sé nefnt.

Við efumst meira að segja um okkur sjálf.

Margt af því miklivægasta í lífinu á það ekki einungis sammerkt að um það megi efast; vegna þess að hægt er að efast um það er líka hægt að trúa því.

Og oft er enginn sannleikur meiri en sá sem við höfum efast um, velt fyrir okkur og tekið persónulega afstöðu til. Oft er það sannast sem bæði má efast um og trúa.

Trúin og efinn eru ekki andstæður heldur getur efinn þvert á móti dýpkað trúna og trúin fóðrað efann.

Gagnrýni felur í sér trú: Þegar við til dæmis gagnrýnum þau sem vilja hafa heilbrigðiskerfið þannig að þar geti ríkt fólk keypt sér betri þjónustu en aðrir getur sú gagnrýni stafað af trú á heilbrigðiskerfi sem virkar eins fyrir alla.

Eitt finnst mér ástæða til að minna á í þessari ágætu og þörfu umræðu um efann og gagnrýna hugsun.

Við megum líka hafa efasemdir um neikvæðnina. Við megum efast um umræðuhefð sem einkennist af heift og skítkasti. Við megum skoða með gagnrýnum hætti hvernig við tölum saman, hvert um annað og um okkur sjálf.

Við megum efast um þau gildi sem leiddu yfir okkur hrunið og allan djöfulskap græðginnar.

Við skulum hafna því sem við viljum ekki en við þurfum líka að játast því sem við viljum, vita á hverju við viljum byggja og hvað við viljum endurreisa.

Við þurfum nú sem fyrr bæði efann og trúna.

Myndin er af vetrarríki við Menntaskólann á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ég efast stórlega um að sanntrúaðir prestar hafi efast um trú sína.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 5.1.2015 kl. 16:19

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Efasemdir sanntrúaðra gætu verið vanmetnar. Gleðilegt ár og takk fyrir öll samskiptin á liðnum árum!

Svavar Alfreð Jónsson, 5.1.2015 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband