30.1.2015 | 09:22
Bjargað frá björgunarsveitinni
Eitt sinn fékk maður úti á landi þá hugmynd að bregða sér í gönguferð um fjallaskarð yfir í nærliggjandi eyðifjörð. Var hann nokkuð við skál þegar hann lagði af stað. Eiginkona mannsins reyndi að telja honum hughvarf án árangurs. Þegar maðurinn var kominn hátt upp í skarðið skall á svartaþoka og hann vissi ekkert hvar hann var. Ráfaði hann um auðnirnar kaldur og hrakinn og löngu runnið af honum.
Í millitíðinni hafði eiginkonan ræst út björgunarsveitina á staðnum og lét þess getið að göngumaður væri eigi allsgáður. Þar sem hann átti til að vera vondur við vín þótti sveitarmönnum vissara að hafa með sér snæri til að binda manninn. Sumir gripu ennfremur með sér barefli. Þannig búin hélt sveitin til fjalla.
Víkur nú sögunni að manninum, villtum og aðframkomnum. Hann verður afar feginn þegar hann sér grilla í björgunarmenn í þokunni í sínum skærlitu stökkum. Fyllist hann von og nýjum þrótti, hleypur fagnandi til móts við velgjörðarmenn sína en snarstoppar þegar þeir koma á móti honum með steytta hnefa, kylfur reiddar til höggs og sveiflandi snærum.
Átti maðurinn fórum sínum fjör að launa og sagði síðar sjálfur svo frá, að hann hefði rétt sloppið undan björgunarsveitinni til byggða.
Ég mundi eftir þessari sögu í gær þegar ég sá umræðuþátt á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF þar sem skipst var á skoðunum um ástandið í Grikklandi. Grikkir eru vægast sagt illa staddir. Okkur er sagt að Evrópusambandið hafi á undanförnum árum verið að reyna að bjarga þeim.
Úrslit nýafstaðinna kosninga þar í landi má á hinn bóginn skilja þannig að gríska þjóðin sé á flótta undan björgunarsveitinni.
Þátturinn var hinn fróðlegasti og þar kom ýmislegt fram um björgunarpakka Evrópusambandsins handa Grikkjum (sem líklega er best að hafa innan gæsalappa).
Björgunaraðgerðirnar áttu að lækka skuldir Grikkja. Þær hafa á hinn bóginn hækkað úr 120% af þjóðarframleiðslu í 175%. Á tíma björgunaraðgerðanna hefur hagkerfið ennfremur skroppið saman um heilan fjórðung, laun hafa lækkað um 35 40%, atvinnuleysi er núna 27%, atvinnuleysi ungs fólks til 25 ára aldurs er um 60%, að minnsta kosti þriðjungur þjóðarinnar er ekki lengur sjúkratryggður og sumir segja að það gildi um helming þjóðarinnar, tíðni barnadauða hefur vaxið um 43% og sjálfsvígum fjölgað um 45%.
Í þættinum var ennfremur rætt um undanskot frá skatti sem þáttarstjórnandi sagði þjóðarsport í Grikklandi. Dimitri Kamargiannis, grískur athafnamaður, fullyrti að gríska ríkið yrði árlega af svimandi upphæðum vegna skattsvika.
Spurður um skýringar benti hann á, að gríska skattalöggjöfin væri upp á heilar 45.000 síður.
Til að vinna gegn skattsvikum þyrftu Grikkir nýtt og einfaldara skattkerfi.
Fleira fróðlegt heyrðist í þessum þætti sem er aðgengilegur hér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.