1.2.2015 | 20:49
Vald býr í orðum
Vald er umdeilt. Sagan sýnir að það er vandmeðfarið og geymir mýmörg dæmi um misnotkun valds, bæði veraldlegs og trúarlegs.
Samkvæmt orðabókum má skilja vald sem mátt. Vald er í því fólgið að geta komið einhverju til leiðar, að vald-a einhverju. Þess vegna er ekki hægt að setja samasemmerki á milli valds og misbeitingar þess. Vald er ekki það sama og ofbeldi. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru allir menn í þeim sporum að þurfa að beita valdi eða hlýða því. Sjúklingar fara eftir fyrirmælum lækna sinna. Foreldrar gefa börnum sínum ráð sem þeir ætlast til að þau hlýði.
Sá sem býr yfir valdi hefur möguleika á að hafa áhrif á líf annarra. Því er mikilvægt að skilgreina valdið ekki einungis út frá þeim sem misbeita því. Vald er líka hægt að nota til blessunar.
Fleiri en þeir sem tilheyra svokallaðri valdastétt hafa völd. Allir menn geta verið í þeirri aðstöðu að hafa áhrif á líf annarra. Þess vegna stöndum við öll frammi fyrir þeim valkostum að nota valdið sem við höfum til góðs eða ills.
Í heimi trúarinnar er líka fengist við spurninguna um valdið. Þýski guðfræðingurinn Eugen Drewermann benti á að trúarlegt vald geti verið sérstaklega hættulegt vegna þess að trúin höfðar til svo margra þátta í persónu fólks. Hún hefur mótandi áhrif á innstu og dýpstu tilfinninga þess, afstöðu þess til lífsins auk þess að hafa afgerandi áhrif hegðun og framferði manna. Þessvegna þurfa þeir sem fara með trúarlegt vald að vanda sig sérstaklega við meðferð þess. Mikil ábyrgð fylgir svo altæku valdi. Hér þarf íslenska kirkjan að hugsa sinn gang og ef til vill er orðið aðkallandi að hér á landi eigi fórnarlömb trúarlegs ofbeldis kost á sérstakri aðstoð.
Sá hefur vald sem hefur orðið. Þjóðflokkur nokkur í Afríku hefur þá venju að þegar safnast er saman í kringum eldinn á kvöldin til að ræða málin fær sá sem hefur orðið afhentan staf, veldissprota, til að minna hann og aðra á það vald sem hann hefur.
Blaðamenn hafa mikil völd því þeir hafa orðið, ráða bæði því hvaða mál eru tekin fyrir og hvernig þau eru meðhöndluð. Ef blaðamenn neita að viðurkenna völd sín magnast upp hættan á að þeir misnoti vald sitt.
Sú ábyrgð sem fylgir tjáningarfrelsinu er meðal annars í því fólgin að gera sér grein fyrir því að orð hafa áhrif. Vald býr í orðum. Sá sem tjáir sig býr yfir valdi. Því valdi má misbeita. Við getum til dæmis notað frelsi okkar til tjáningar til að hræða aðra frá því að nota sitt tjáningarfrelsi. Allir eiga að geta tjáð skoðun sína og enginn getur búist við því að fá einungis jákvæð viðbrögð við því sem hann segir. Við höfum rétt til að andmæla því sem við erum ósammála og benda á hnökra eða rangfærslur í málflutningi annarra. Felist viðbrögðin við tjáningu fólks á hinn bóginn í persónuárásum, skítkasti eða útúrsnúningum getur slík ofbeldisfull umræða orðið til að fæla það frá því að tjá sig.
Kannski er það einn helsti ókosturinn á opinberri umræðu á Íslandi. Of oft er hún á forsendum orðljótu naglanna og meinhæðnu skraffinnanna. Óframfærinn og feiminn nýbúi með rætur í allt annarri menningu en hér ríkir gæti t. d. veigrað sér við að taka til máls á opinberum vettvangi eigi hann á hættu að verða fyrir persónulegum árásum fyrir vikið eða hans dýpstu og helgustu tilfinningar smánaðar, allt í nafni tjáningarfrelsisins, sem þá er einungis frelsi hinna freku.
Og þá verður opinber umræða að minnsta kosti einu sjónarmiði fátækari.
Fleira en tjáningarfrelsið er hér í húfi. Ég heyri stundum sagt í umræðunni að óþarfi sé að bera virðingu fyrir skoðunum annarra eða það megi hreinlega ekki að bera virðingu fyrir þeim. Ef við skiljum það þannig, að virðing fyrir skoðunum felist í því að andmæla þeim ekki eða jafnvel að samsinna þeim, má vera að það sé réttmæt ábending. Að mínu mati sýnum við þó skoðunum annarra virðingu fyrst og fremst með því að gera fólki ekki upp skoðanir eða skrumskæla, afbaka og rangtúlka það sem því finnst. Og einmitt það finnst mér of algengt í umræðunni á Íslandi. Hér eru menn miskunnarlaust látnir segja eitthvað sem þeir alls ekki sögðu. Eitt dæmi um slíkta vanvirðingu fyrir skoðunum er við hæfi að nefna í þessu samhengi:
Sá sem bendir á nauðsyn þess að vera málefnalegur og sleppa skítkasti er gjarnan úthrópaður fyrir að þola ekki gagnrýni.
Orðum fylgir vald. Könnumst við það, veljum orð af ábyrgð og notum ekki tjáningarfrelsi okkar til að skerða sama frelsi náungans.
Myndin: Hrísey á Eyjafirði
Athugasemdir
Takk fyrir þarfa og góða hugverkju. Ég á erfitt með að skilja hvað kemur í veg fyrir almenna kurteisi í opinberri umræðu.
Svo er alveg bráðnauðsynlegt að muna að það að virða skoðun er ekki það sama og samþykkja hana.
Hólmfríður Pétursdóttir, 2.2.2015 kl. 10:49
>Að mínu mati sýnum við þó skoðunum annarra virðingu fyrst og fremst með því að gera fólki ekki upp skoðanir eða skrumskæla, afbaka og rangtúlka það sem því finnst.
Svavar, mér finnst nú frekar ljóst að oftast þegar fólk er að biðja um að fólk sýni skoðunum þeirra virðingu að þá sé ekki það að tala um sjálfsagða hluti eins og þetta.
Amk finnst mér að ef fólk vill biðja um að þeim séu ekki gerðar upp skoðanir eða þær rangtúlkaðar (vísvitandi væntanlega), að þá segja það það beint út í staðinn fyrir að notast við orðalagið "að bera virðingu fyrir skoðunum", þar sem að það er ótrúlega óljóst og þýðir oft allt annað.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 2.2.2015 kl. 16:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.