16.2.2015 | 10:35
Fremstur í sókninni
Eftirtektarverður er leiðari Fréttablaðsins í dag, fullur vandlætingar og heilagrar reiði yfir því að forseti Íslands skyldi á sínum tíma hafa greitt götu og lagt lið Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, sem nú hefur verið dæmdur fyrir alvarleg brot á landslögum.
Í leiðaranum er tekið fram að forsetinn hafi beðist afsökunar mörgu sem hann sagði en ritstjóri Fréttablaðsins efast um að það dugi nú þegar alvara málsins rifjast upp eins og það er orðað.
Ýmislegt fleira mætti rifja upp í þessu samhengi.
Til dæmis það að þann 30. desember árið 2004, því sældarári íslensku útrásarinnar, valdi hið sama Fréttablað téðan Sigurð viðskiptamann ársins.
Í frétt blaðsins þar að lútandi segir:
Úrslitin ættu ekki að koma á óvart þar sem Sigurður hefur sem forstjóri Kaupþings og stjórnarformaður KB banka eftir sameiningu við Búnaðarbankann verið frumkvöðull í sókn íslenskra fyrirtækja á erlendan markað.
Greininni fylgir stór mynd af viðskiptamanni ársins 2004 undir fyrirsögninni:
Fremstur í sókninni
Á forsíðu þessa hluta Fréttablaðsins að þessu sinni var risastór andlitsmynd af viðskiptamanni ársins. Á hana er ritað:
Sigurður Einarsson Í fararbroddi innanlands og utan
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna segir:
Fjölmiðlar leika lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag. Íslenskir fjölmiðlar náðu ekki að rækja þetta hlutverk í aðdraganda bankahrunsins. Þeir auðsýndu ekki nægilegt sjálfstæði og voru ekki vakandi fyrir hættumerkjum. Flestir miðlarnir voru í eigu sömu aðila og áttu helstu fjármálafyrirtækin...
Vissulega má efast um að það dugi fyrir forseta Íslands að biðjast afsökunar á stuðningi sínum við lögbrjóta.
Tæplega er það þó drengilegri framkoma að biðjast ekki einu sinni afsökunar á því að hafa stutt og mært nákvæmlega sömu menn - og hneykslast á mönnum sem gerðu nákvæmlega það sama og þeir sjálfir, ekki síst nú þegar alvara málsins rifjast upp.
Myndin er úr Ólafsfirði
Athugasemdir
Gott hjá þér Svavar.
Það væri auðvitað fróðlegt að rifja upp fleiri ummæli og lofsyrði þeirra sem mest hneykslast á öðrum varðandi þjónkunina við útrásarvíkingana fyrir hrun.
Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 16.2.2015 kl. 10:43
Athugasemd barst frá Torfa Stefánssyni sem einhverra hluta vegna birtist ekki þegar ég samþykkti hana. Hún er svohljóðandi:
,,Gott hjá þér Svavar.
Það væri auðvitað fróðlegt að rifja upp fleiri ummæli og lofsyrði þeirra sem mest hneykslast á öðrum varðandi þjónkunina við útrásarvíkingana fyrir hrun."
Svavar Alfreð Jónsson, 16.2.2015 kl. 11:56
Það er til fólk sem notar allt til að níða niður forsetann, það er svo sem ekki neitt með málefni að gera heldur helbera reiði vegna þess að hann hefur stigið fram og knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur til handa þjóðinni.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2015 kl. 13:09
Hræsni Fréttasnepilsins og siðblinda ríður eigi við einteyming og hefur aldrei gjört !
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 16.2.2015 kl. 13:44
Góð ábending, Svavar. Vandinn var sá, að einn helsti viðskiptafréttablaðamaður Fréttablaðsins, Hafliði Manekkihversson, var um leið grúpppía númer eitt - á undan forsetanum. Lestu það sem fram kemur um hann í bók Inga Freys, fyrrverandi blaðamanns á DV. Bókin heitir Hamskiptin.
Ég held að mjög margir blaðamenn sem settir voru í skrif um viðskipti útrásarvíkinganna hafi ekkert skilið í þeim fréttatilkynningum sem þeim var falið að vinna úr. Og það kom ekkert til greina af hálfu yfirmanna að maður væri með eitthvað píp.
Kristján G. Arngrímsson, 16.2.2015 kl. 14:35
Það er búið að skipta um ritstjórn Fréttablaðsins. Er búið að skipta um forseta?
Matthías Ásgeirsson, 16.2.2015 kl. 15:57
Matthías
Er búið að skipta um eiganda á Fréttasneplinum ?
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 16.2.2015 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.