30.3.2007 | 23:06
Átthagafjötrar
Ungir Akureyringar búsettir fyrir sunnan koma oft heim til að láta skíra börnin sín og ganga í það heilaga (yfirleitt í þessari röð). Getur verið býsna fróðlegt að spjalla við þessa innfæddu aðkomumenn. Gjarnan kemur fram að þá langar til að flytja norður. Margt togar þá hingað, fjölskylda og vinir að ógleymdri hinni rómuðu akureysku veðráttu (sem er síst ofmetin), en hér er bara enga vinnu að hafa. Ég er ekki frá því að ástandið að þessu leyti fari versnandi.
Talað er um átthagafjötra þegar um er að ræða fólk sem er fast úti á landi, t. d. vegna fasteigna sem það getur ekki selt. Hitt gleymist að átthagafjötrarnir geta líka verið í því fólgnir að fólk vill komast af höfuðborgarsvæðinu út á land en er fast fyrir sunnan vinnunnar vegna.
Mjög algengt er líka að fólk segi mér að það vilji norður, en launin hér séu miklu lakari en í Reykjavík. Margir fullyrða að laun tveggja manna í sömu vinnu hjá sama fyrirtæki fari eftir því hvar vinnan fer fram. Starfsmaðurinn í Reykjavík sé á mun betri launum en hinn. Ekki er langt síðan ég ræddi við iðnaðarmann sem býr fyrir sunnan. Hann hefur margvelt því fyrir sér að flytja norður en sér ekki að hann hafi efni á því. Launin fyrir sunnan eru meira en helmingi hærri en það sem í boði er á gömlu góðu Akureyri.
Ég er þeirrar skoðunar að borga eigi konum og körlum sömu laun fyrir sömu vinnuna. Að minni hyggju þarf líka að huga að jafnræði milli landshluta í launamálum. Og konur úti á landi eru sennilega verst settar af öllum.
Athugasemdir
sammála þér
ljós frá mér úr vorinu í dk
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 31.3.2007 kl. 09:13
Svavar við þurfum nú ekkert að leita lengra heldur en innan kirkjunnar. Þar er staðan einmitt þessi að starfsfólk (veit ekki með prestana) er á lægri launum fyrir sama starf ef kirkjan er utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig að ég get bara tekið undir þau orð sem þú setur fram hér.
Pétur Björgvin, 31.3.2007 kl. 14:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.