Búmannsraunir

Þegar við keyptum nýja Túraninn í fyrra fylgdu honum bæði sumar- og vetrardekk. Bíllinn var á nöglum en hagsýnn vinur benti okkur á að gott væri að hafa sumardekkin á felgum. Það þótti okkur hjónunum þjóðráð, því síðasta vor vorum við nýbúin að láta setja sumardekkin undir með tilheyrandi umfelgunum þegar vorið bakkaði og hríð steyptist úr lofti. Flughált var á þjóðvegum og þar sem konan þurfti að skreppa suður máttum við heimsækja dekkjaverkstæðið aftur. Var ekki laust við að við skömmuðumst okkar fyrir bráðlætið.

Nýjum Túran fylgdu því gljásvört sumardekk á yndisfögrum álfelgum. Vegna góðviðris undanfarna daga og hlýindaspár þá næstu ákvað ég að gera bragð úr ellefta boðorðinu, vanhelga pálmasunnudag og skella undir sumardekkjunum. Slá margar flugur í einu höggi. Minnka hávaða, eyðslu og mengun við akstur og hlífa bæði nagladekkjunum og samgöngukerfinu. Og ef hann færi að snjóa skellti ég bara vetrardekkjunum undir aftur. Það kostar ekki neitt, ég þarf ekkert á dekkjaverkstæði því ég er búmaður og á dekkin á felgum.

Um tvöleytið í dag sótti ég sumardekkin út í skúr og tjakkaði hróðugur upp negldan Túran á bílastæðinu. Nokkrir vegfarendur stoppuðu til spjalls og gætti öfundar og lotningar í augum þeirra þegar þeir sáu fyrirhyggjuna í mér, að eiga sumardekk á felgum.

En seint sóttist verkið. Þótt ég sé sennilega ekki jafn slæmur og maðurinn sem sagt var um að hann væri svo mikill klaufi að hann gæti ekki borað í nefið á sér án þess að stórskemma horinn, er ég ekki handlaginn. Ég var búinn rétt fyrir fimm. Þá stóð Túran á sumardekkjum og með álfelgur. Virkilega sportlegur. Og ég búinn að spara stórfé með því að gera þetta sjálfur.

Þegar ég kom inn og fór að snyrta mig fyrir fermingarveislu hjá frænda mínum komst ég að því að gallabuxurnar mínar höfðu rifnað á hnjánum við dekkjabrasið. Þar að auki efast ég um að hægt sé að ná smurningunni úr flottu flíspeysunni minni. Ég er því sennilega í mínus, þrátt fyrir allt.

Þar að auki þori ég eiginlega ekki öðru en að fara á dekkjaverkstæði hið fyrsta og láta þá festa dekkin almennilega. Það er ekki skemmtileg sjón að vera í bíltúr og sjá dekk undan bílnum sínum renna fram úr sér. Þótt um sé að ræða nýtt sumardekk á álfelgu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ljós til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 2.4.2007 kl. 05:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband