Í nafni lýðræðis

DSC_0397

Fyrir kosningarnar 2009 hafði einn stjórnmálaflokkur af þeim sjö sem buðu fram á stefnuskrá sinni að Ísland gengi í ESB.

Eftir kosningar sótti Ísland um aðild að ESB – í nafni lýðræðis.

Í umræðuþætti ríkissjónvarpsins kvöldið fyrir kosningarnar 2009 þvertók formaður VG í þrígang fyrir að til greina kæmi að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að ESB og sagði:  „Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður gagnstætt okkar stefnu í maí þá yrði það fellt í flokksráði Vinstri grænna þannig að slíkt er ekki í boði.“

Tæpum þremur mánuðum síðar sótti ríkisstjórn VG og Samfylkingar um aðild að Evrópusambandinu - í nafni lýðræðis.

Árið 2010 var farið var fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna. Sú tillaga fékk ekki hljómgrunn – í nafni lýðræðisins.

Árið 2014 fóru þeir sem ekki máttu heyra minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2010 fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um sama mál. Þá brá svo við að þeir voru gjörsamlega mótfallnir þjóðaratkvæðagreiðslu sem upphaflega fóru fram á hana – í nafni lýðræðis.

Í aðdraganda síðustu alþingiskosnina gáfu ýmsir forystumenn stjórnmálaflokka fyrirheit um þjóðaratkvæðagreiðslur sem þeim var ómögulegt að efna enda voru þau þvert á samþykktir landsfunda flokka þeirra - í nafni lýðræðis.

Þegar núverandi ríkisstjórnarflokkar ætluðu að framfylgja stefnu flokka sinna í Evrópusambandsmálinu var því haldið fram að það mættu þeir ekki heldur bæri þeim skylda til að framfylgja stefnu síðustu ríkisstjórnar – í nafni lýðræðis.

Þegar núverandi ríkisstjórn hugðist láta stefnu sína í Evrópusambandsmálinu fá þinglega meðferð var því hótað af fyrrverandi utanríkisráðherra að slíku yrði mætt með „eldi og brennisteini“ – í nafni lýðræðis.

Samkvæmt skoðanakönnunum síðustu ára er meirihluti Íslendinga á móti aðild að ESB. Meirihluti kjörinna fulltrúa á þjóðþinginu er á móti aðild að ESB. Ríkisstjórn landsins er á móti aðild að ESB.

Ísland er engu að síður umsóknarríki að ESB – í nafni lýðræðis.

Auðvitað er lýðræðið löngu hætt að hlýða nafni í allri þeirri refskák og blekkingarleik sem þetta mál hefur frá upphafi verið.

Staðreynd málsins er sú að engar aðildarviðræður eru í gangi. Fráleitt er að ætlast til þess að ríkisstjórn sem ekki vill í ESB semji um aðild að ESB. Forystumenn  ESB hafa lýst því yfir að engin ný ríki verði tekin inn næstu fimm árin.

Vilji menn raunverulega hafa næstu skref í þessu máli lýðræðisleg verður að tryggja að þjóðin verði spurð þegar þar að kemur og ekki sé hægt að taka upp þráðinn að nýju án þess að kanna vilja hennar fyrst.

Það er alveg kominn tími til að eitthvað sé gert í þessu máli sem er raunverulega í nafni lýðræðis.

Myndin: Vormerki í bráðnandi klaka


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í nafni lýðræðisins þakka ég þér fyrir þennan ágæta pistil!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.3.2015 kl. 23:24

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og enn er talað um samskonar þjóðaratkvæði og sömu aðilar höfnuðu 2010 og heimtuðu svo 2014. Með spurningunni um áframhald en ekki um viljann til að ganga í sambandið. Þó þeir séu ekki í stjórn þá er það "our way or no way" ríkistjórninni er samkvæmt þeim ekki heimilt að fullna þau loforð sem þeir hlutu kjör sitt útá. Getur galskapurinn orðið meiri?

jú, ég hugsa það. Ef ríkistjórnin samþykkti nú að halda áfram viðræðum þvert gegn vilja, markmiðum og stjórnarsáttmála eftir undangegna þjóðaratkvæðagreiðslu sem færi þannig, þá mymdi stjórnarandstaðan líka forna höndum og reyna að koma í veg fyrir það því augljóst væri að þeir sem ekki vilja í sambandið munu slíta viðræðum og hafna samningum. Það má heldur ekkeri gerast.

Semsagt þingið má ekki samþykkja stefnu sína um að slíta ferlinu.

Það má ekki kjósa um það hvort við viljum ganga í sambandið

Það má heldur ekki kjósa um það hvort við höldum áfram á meðan þessi ríkistjorn situr, jafnvel þótt það sé heimtað nú.

Nú er vert að spyrja þennan litla minnihluta sem ekki stjórnar landinu hvað þeim hugnist best að þeir geri sem stjórna landinu. Það væri fróðlegt að fá á hreint.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.3.2015 kl. 06:01

3 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér kærlega Svavar fyrir mjög svo vel orðaðan pistil.  Þú kemur að kjarna málsins - í nafni lýðræðis. 

En okkur hefur lærst síðustu ár að lýðræðið er ekki fyrir alla haldur eingöngu fyrir hina útvöldu ESB-sinna sem allt mega og geta leyft sér - í nafni lýðræðis, sama hvað meirihlutanum finnst til um.

Tómas Ibsen Halldórsson, 16.3.2015 kl. 11:40

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ekki bara það að Steingrímur hafi snúist, heldur var hann á þessum tímapunkti í viðræðum við Samfylkinguna að ganga í ESB, þetta upplýst Atli Gíslason.  Og með því voru nokkrir þingmenn VG hraktir úr flokknum af því að þau stóðu fast á sannfæringu sinni. : http://www.dv.is/frettir/2011/11/7/atli-gislason-eg-afvegaleiddi-kjosendur/?fb_comment_id=fbc_10150375279864350_19427596_10150375720824350#f3e4bca2c Mynd: Mynd Sigtryggur Ari

„Sannleikanum var haldið frá mér og ótal fleirum í aðdraganda kosninganna. Ég var afvegaleiddur og afvegaleiddi kjósendur í Suðurkjördæmi. Ég harma það og biðst afsökunar,“ segir þingmaðurinn Atli Gíslason í kjallaragrein í DV í dag. Þar útskýrir Atli meðal annars af hverju hann sagði sig úr VG en það gerði hann þann 21. mars síðastliðinn ásamt Lilju Mósesdóttur. „Við töldum að forysta VG hefði orðið viðskila við kosningaloforð sín og grundvallarstefnu í veigamiklum málum og rökstuddum með ítarlegri yfirlýsingu,“ segir Atli meðal annars og fer yfir aðdraganda kosninganna árið 2009. Hann segir að ákveðnum hlutum hafi verið haldið frá honum. „Ég hef nú sannreynt að fyrir kosningarnar vorið 2009 hafi verið ákveðið í þröngum hópi forystu VG og Samfylkingarinnar, næðu flokkarnir þingmeirihluta, að sækja um aðild að ESB og samþykkja Icesave, skilgetið afkvæmi ESB–umsóknarinnar. Sannleikanum var haldið frá mér og ótal fleirum í aðdraganda kosninganna. Ég var afvegaleiddur og afvegaleiddi kjósendur í Suðurkjördæmi. Ég harma það og biðst afsökunar. Umsóknin er í fullum gangi með tilheyrandi aðlögun að regluverki ESB og IPA-aðlögunarstyrkjum þvert á samþykktir flokksfunda,“ segir Atli og nefnir fleiri mál sem hann er ósáttur við; niðurskurðinn, Magma-málið og skuldavanda heimilanna sem dæmi

Þakka svo fyrir góða grein og skilmerkilega.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.3.2015 kl. 16:24

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér finnst það næstum fyndið að þeir sem hrópa hæst um kosningasvik nú eru þeir sem hvorki kusu framsókn né sjálfstæðisflokk. Af hverju heyrast þær raddir ekki frá þeim sem kusu flokkana? 

Það virðist sannarlega mögulegt að hafa endaskipti a rökum tilverunnar í pólitikinni án þess að depla auga.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.3.2015 kl. 18:51

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er kannski rétt að rifja upp af hverju umsóknin var bundin þingsályktun en ekki lögum.

þingsályktunin var marin í gegn með einu atkvæði eftir pólitiskt ofbeldi og hrókeringar í bakaölum alþingis m.a. með að senda heim þá sem voru gegn og setja inn varamenn með hentugri sannfæringu. Þarna sat minnihlutastjórn sem hékk á einu atkvæði sem mig minnir að hafi legið hjá hreyfingunni.

forsendurnar sem gefnar voru fyrir ályktuninni voru þær að Etta væru "könnunarviðræður" sem fælu ekki í sér neina aðlögun.

Nú...af hverju var sú leið farin að hafa þetta einfalda ályktun? Jú..fyrst og fremst til að krækja framhjá lýðræðislegu ferli. Þ.e. að munurinn á ályktun og lögum er sú að lög þurfa staðfestingu forseta en ályktanir ekki.

Menn vildu semsagt forðast það að bera þessa ákvörðun undir forseta af ótta við að hann hafnaði þessu og vísaði til þjóðarinnar með fyrirsjáanlegri niðurstöðu í ljosi mældrar andstöðu þjóðarinnar. 

Hér er annars lögfræðileg ályktun um gildi þingsályktana, svona til fróðleiks.

http://www.mbl.is/media/78/6678.pdf

Jón Steinar Ragnarsson, 16.3.2015 kl. 20:54

7 identicon

Það er gott til þess að vita að til er fólk sem hefur ekki gleymt framgöngu SJS í framhaldi hruns. Hans verður minnst...

Daníel Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.3.2015 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband