Hver trúir ekki?

"Ég er að segja satt!" segir barnið mitt við mig og tárin í augum þess eru svo sannfærandi að ég trúi.

"Ég elska þig," segir maki minn og umhyggja hans, atlot og uppörvun segja mér að óhætt sé að trúa því.

"Þú getur þetta!" segir kennarinn við mig og ég trúi honum vegna þess að hann hefur þessa trú á mér.

Ég gæti alveg sleppt því að trúa barninu mínu nema það leggi fram áþreifanlegar sannanir. Ég gæti líka tekið þann kostinn að trúa ekki maka mínum og efast um ást hans nema fram kæmi eitthvað algjörlega óyggjandi í málinu. Ég gæti ákveðið að trúa ekki kennaranum, látið hvatningu hans eins og vind um eyru þjóta og komist að þeirri niðurstöðu að verkefnið verði mér ábyggilega ofviða.

Við trúum einhverju mörgum sinnum á degi hverjum. Við trúum því án þess að hafa fyrir því öruggar sannanir. Við trúum alla vega einhverju af því sem við heyrum í fréttunum eða lesum í blöðunum án þess að hafa tækifæri til að grafast frekar fyrir um það. Við trúum börnunum okkar. Við trúum þeim sem við elskum. Við trúum samstarfsfólki okkar og yfirmönnum. Við trúum hagfræðingunum og læknunum. Við trúum auglýsingunum, að minnsta kosti þeim sem fá okkur til að kaupa þessa vöru en ekki hina.

Við trúum öllu þessu án þess að hafa fyrir því vísindalegar sannanir. Við trúum því án þess að skilja það. Við tökum þá áhættu að trúa vegna þess að öðruvísi gætum við ekki lifað lífinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

yndislegt ! ég trúi líka

ljós til þín steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 4.4.2007 kl. 11:29

2 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Ég trúi að ekkert sé eins og það sýnist!

Vilborg Eggertsdóttir, 4.4.2007 kl. 20:16

3 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Vel skrifað. Við eigum að trúa á og treysta samferðamönnum okkar, því ekkert er eins þreytandi og endalaus efahyggja. Ef við trúum ekki á börnin okkar og treystum þeim, munu þau aldrei ná að gera slíkt hið sama heldur.

Ég verð þó að viðurkenna að stundum fær maður skell í lífinu fyrir það eitt að velja að trúa og treysta á allt og alla áður en maður reynir eitthvað annað. Við eigum þó frá náttúrunnar hendi gríðarlega góðan "mæli" á þetta allt saman sem oft er kallað hugboð eða næmi (basic instinct). Þetta magnaða skynfæri okkar er þó allt of oft dofið vegna alls þess áreitis sem við verðum fyrir og við hættum að leggja við hlustir.

Við eigum samt að leyfa okkur að trúa á það góða í hverjum og einum áður en við reynum annað. Það sem mest er um vert að trúa á; samkennd, kærleikur og ást, verður heldur seint sannað með vísindalegum rökum.

400 watts of light for you :)

Hólmgeir Karlsson, 5.4.2007 kl. 15:49

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Svavar, þegar fólk segist annað hvort vera trúað eða ekki trúað, þá er það
ekki að hugsa um trú í merkingunni að treysta fólki. 

Þegar þú segir: "Ég er trúaður maður." hvort þýðir það þá?

1. "Ég treysti fólki."

eða

2. "Ég trúi á guð, Jesús og allt það"

Hjalti Rúnar Ómarsson, 6.4.2007 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband