4.5.2015 | 09:10
Vertu vandlátur á óvini þína
Við tökum þannig til orða að við eigum vini. Séu þeir eign manns erum við líka eign vinanna. Þess vegna getur vinátta verið varasöm þegar um er að ræða þá sem starfa í almannaþágu.
Hver ærlegur maður á vini og aðeins vinalausir menn eru ekki að einhverju leyti eign vina sinna. Vinalausir menn fyrirfinnast. Vinir eru ekki lífsnauðsynlegir. Dæmin sýna að óvinsælir menn geta komist ágætlega af þótt efalítið sé tilvera án vina oft einmanaleg.
Óvini eigum við á sama hátt og vinina. Og óvinir okkar eiga okkur. Óvinir okkar eru eign okkar og við erum eign þeirra. Oft hafa óvinir okkar mikil tök á okkur og við eyðum bæði tíma og orku í allskonar óvináttu.
Í einu rita sinna fjallar pólski heimspekingurinn Leszek Kolakowski um gagnsemi óvinanna. Hann bendir á að þegar byggja eigi upp hópvitund eða samkennd séu óvinirnir eitt mikilvægasta byggingarefnið. Allir heimsins harðstjórar fyrr og síðar eiga það sameiginlegt, að hafa átt hættulega óvini og að hafa nýtt sé þá óvináttu til að réttlæta völd sín og viðhalda þeim. Stundum hafa slíkir stjórnarhættir verið nefndir óttastjórnun. Kolakowski segir að því meiri völd sem hinar ríkjandi stéttir vilji hafa yfir þegnum þínum, því fleiri óvinum sínum og óvinum fólksins þurfi þær að tefla fram. Ekkert hefur bitið betur á friðarvilja fólks en að útmála fyrir því óvini þess og hættuna sem af þeim stafar. Óvinirnir virka eins og rauð dula nautabanans þegar etja á þjóðum út í styrjaldir. Gyðingarnir og bolsjevikkarnir voru helstu óvinir nasistanna. Kapítalistarnir voru óvinir bolsjevikkanna. Aristókratarnir, auðræðissinnarnir, hatursprédikararnir og imperíalistarnir þurfa allir sinn góða skammt af óvinum til að gefa málflutningi sínum vægi og gildi. Og sagan geymir mörg dæmi um hvernig ógnin af óvinunum er notuð til að réttlæta að yfirvöld fari á svig við lög eða gott siðferði.
Óvinirnir gagnast fleirum en alræðisöflunum. Öll skilgreinum við okkur ekki einungis út frá því sem við erum, hvað við hugsum, viljum og hvert við stefnum. Sjálfskilningur okkar mótast ekki síður af því sem við teljum okkur ekki vera, hvernig við hugsum ekki, hvað við viljum ekki og viljum forðast. Óvinirnir eru holdgerving alls þess. Hluti þeirrar myndar sem við gerum okkur af okkur sjálfum er mynd óvinarins, því sem við viljum ekki vera. Óvinirnir skerpa sjálfsmynd okkar. Óvinirnir hjálpa okkur að gera okkur grein fyrir hvað við viljum ekki og það er mikilvægt að vita hvað maður vill ekki. Það er ein ástæða þess að okkur ber að elska óvini okkar.
Ósköp væri tilvera KA-mannsins daufleg ef engir væru Þórsararnir.
Sé horft yfir sviðið á Íslandi kemst maður ekki hjá því að sjá, að hér er enginn hörgull á óvinum. Fyrst eftir hrun fengu bankafólkið, auðkýfingarnir, útrásarvíkingarnir, stjórnmálastéttin og embættismennirnir sinn góða skammt af útnefningum sem helstu óvinir þjóðarinnar. Seinna hlotnaðist liðinu sem vildi borga Icesave sami vafasami heiður og að sjálfsögðu líka hinum sem vildu ekki borga Icesave. Lengi hefur verið útmáluð fyrir okkur þjóðaróvinátta þeirra sem vilja afhenda Evrópusambandinu auðlindir landsins og fullveldi á silfurfati og þá er ekki síður ljós stórhættulegur fjandskapur hinna sem vilja gjörsamlegra einangra Ísland og hatast við Evrópu og allt sem útlenskt er. Útgerðarmenn, bændur, álfurstar, kvótagreifar, landeigendur, ríkisstjórnin, stjórnarandstaðan, verkalýðsforystan, atvinnurekendur, kröfuhafar, prestar, kirkjan, trúleysingjar, forsetinn, blaðamenn, listaelítan, vinir og óvinir flugvallarins í Vatsnmýrinni, allt eru þetta vel þekktir óvinir og andskotar sem nýttir hafa verið til að þjappa fólki saman, skapa samvitund, draga skýr mörk á milli okkar og hinna, góða fólksins og þeirra vondu.
Við þurfum að vera vandlát á vini. Ekki er víst að allir sem nálgast okkur með fagurgala og kjassi vilji okkur vel. Óvinirnir geta ekki verið síður gagnlegir en vinirnir og hjálpað okkur að skilja betur okkur sjálf. Við skulum því líka vanda okkur þegar við veljum okkur óvini.
Og bæði vinina og óvinina skulum við velja sjálf en ekki láta öðrum eftir að velja þá fyrir okkur. Menn geta haft mikla hagsmuni af því að eiga rétta vini á réttum stöðum.
Ekki síður geta menn grætt mikið á að passa upp á að þjóðin eignist réttu óvinina.
Athugasemdir
Góður pistill Svavar minn, en ég er ekki viss um að samlíkingin um KA mennina og Þórsarana sé sanngjörn. Að mínu mati hefur aldrei ríkt óvinskapur á milli þessara tveggja mætu félaga. Andstæðingar á vettvangi íþróttanna hafa félögin sannarlega verið, en óvinskapur hefur aldrei verið til staðar. Eðlilega minnist ég ÍBA áranna með kannski meiri hlýhug en margir aðrir og þá var mér sama hvert hlutfallið milli KA manna og Þórsara var í liðinu. Þetta voru allt Akureyringar og það var það eina sem skipti máli
Stefán Arngrímsson (IP-tala skráð) 4.5.2015 kl. 13:35
Takk fyrir þessa ábendingu, Stebbi, en þessa líkingu má nú ekki taka bókstaflega frekar en aðrar. Hún er sett hér fram til að sýna fram á að tilveran væri daufleg og bragðlítil ef engin væru átökin og engir andskotar að kljást við. Ég geri mér alveg grein fyrir að KA og Þór eiga sameiginleg markmið og hafa átt ágæta samvinnu um ýmislegt, akureyskri æsku til heilla. Þessvegna eru félögin heldur ekki "andstæðingar á vettvangi íþróttanna" eins og þú kýst að orða það. En þau etja kappi hvort við annað og eru hvort öðru mikilvægir mótherjar. Á milli þeirra á að mínu mati að vera allþokkalegur rígur - sem vissulega verður að vera innan ákveðinna marka.
Svavar Alfreð Jónsson, 4.5.2015 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.