11.4.2007 | 13:09
Djöfullinn í kirkjunni
Vallakirkja í Svarfaðardal er fagur helgidómur. Einu sinni var ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að þjóna þar í forföllum. Kirkjan er merkileg fyrir margra hluta sakir. Fyrir mörgum árum vildi vestur-íslenskur maður sem átti ættir að rekja í Svarfaðardal minnast uppruna síns með því að gefa kirkjunni klukku. Allt er stórt fyrir westan og þegar klukkan kom hingað upp reyndist hún allt of stór fyrir þessa hógværu sveitakirkju. Var brugðið á það ráð að reisa sérstakan klukkuturn á kirkjuhlaðinu. Klukka Vallakirkju var lengi sú stærsta á landinu og djúpur hljómur hennar kallaði til sín fólk úr nærliggjandi sóknum. Kunnugur maður sagði mér það til marks um stærð og þyngsli klukkunnar að þegar hringjarinn á staðnum hafi hringt henni steig hann upp með klukkustrengnum svo sá neðan í hvítar iljarnar á gúmmískónum. Var ekki gott að sjá hver vaggaði hverjum.
Vallakirkja brann fyrir nokkrum árum en var endurreist af miklum myndarskap. Meðal þeirra dýrgripa sem fóru forgörðum í brunanum var merkileg altaristafla með síðustu kvöldmáltíðinni. Ég man ekki hver gerði hana en eitt sinn er ég stóð fyrir altari kirkjunnar fór ég að skoða myndina. Ekki sá ég betur en að í myrkrinu undir borðinu sem Jesús sat við ásamt lærisveinum væri einhver vera. Svo vel vildi til að formaður sóknarnefndar, svarfdælskur heiðursbóndi, var í kirkjunni. Eftir messu spurði ég hann um þessa veru. Formanni þótti lítið til myndlistarkunnáttu klerks koma. "Þetta er að sjálfsögðu andskotinn!" sagði hann og bætti við að fyrr á öldum hefðu menn gjarnan haft mynd af honum á einhverjum óljósum stöðum í kirkjum. Það var gert til að minna á að alls staðar þyrfti maður að passa sig á því illa. Því var haldið fram að djöfullinn gæti reynst sérstaklega skeinuhættur þar sem fólk ætti síst von á að mæta þeim svarta. Hann hefur því góða veiðivon í kirkjum landsins.
Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér núna þegar átta kollegar mínir hafa kært vin minn og skólabróður, sr. Hjört Magna Fríkirkjuprest, fyrir siðanefnd Prestafélags Íslands. Sakargiftir eru meðal annars þær að sr. Hjörtur Magni á að hafa gefið í skyn að Þjóðkirkjan kunni að vera djöfulleg stofnun. Ég verð að viðurkenna að oft finnst mér sr. Hjörtur hafa verið ósanngjarn í gagnrýni sinni. Ég kann heldur ekki alltaf við hvernig hann setur gagnrýni sína fram en hann má eiga það að hann kemur vel fyrir í fjölmiðlum og kann prýðilega að nýta sér þá, enda fjallmyndarlegur maður og bráðskýr. Ekki að ástæðulausu naut sr. Hjörtur mikilla vinsælda sóknarbarna sinna meðan hann þjónaði hinni meingölluðu Þjóðkirkju. Þær vinsældir hafa ekki minnkað eftir að hann tók til starfa við Tjörnina í Reykjavík.
Hafi sr. Hjörtur talað um að Þjóðkirkjan sé djöfulleg finnst mér að krefja þurfi hann skýringa á slíkum ummælum. Vel má vera að kirkjan hafi villst af réttri leið. Kirkjusagan er full af dæmum um slíkt. Einhverjar ástæður eru líka fyrir því að sérstaklega er beðið fyrir kirkjunni í hverri messu, meðal annars með þessum orðum: "Leiðrétt hana, þegar hún villist." Altaristaflan gamla í Vallakirkju minnir okkur á að vera aldrei of örugg með okkur og klukka kirkjunnar er okkur áminning um að ekki er alltaf gott að sjá hver vaggar hverjum.
Ég set á hinn bóginn spurningamerki við þann gjörning að kæra sr. Hjört fyrir siðanefndinni, þótt ég skilji sárindi kollega minna. Í samtíð okkar er töluverð eftirspurn eftir píslarvottum en framboðið ekki alltaf í samræmi við það.
Og í umfjöllun fjölmiðla er heldur ekki alltaf gott að sjá hver muni að lokum vagga hverjum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.