Heimsins besti ís

Þá er að halda áfram við að undirbúa hópinn fyrir Ítalíuferð sumarsins. Umfjöllun um merka staði er lokið að sinni en margt annað þarf að hugleiða.

Eitt af því sem Ítalía hefur upp á að bjóða er besti ís í heimi. Hann tekur jafnvel fram Brynjuísnum og þarf töluvert til. Ís á ítölsku er gelato (fleirtala gelati) og ísbúðirnar ytra nefnast gelateria. Stundum eru ísbúðirnar líka barir og sumar þeirra eru svo fjölhæfar að þær eru merktar BAR - GELATERIA - PASTICCERIA, en það síðastnefnda eru staðir sem selja sætabrauð, kökur og kex (biscotti).

gelatiÍsinn er seldur í kúlum og í mörgum bragðtegundum, gusti. Hann er framreiddur í kramarhúsi, cono, eða bikar, coppa. Allir almennilegir ferðamannastaðir hafa sína gelateria, en einnig selja sumir barir ís. Bestur er hann að þó hjá fagmönnunum í ísbúðunum og þar má stundum fá girnilega ísrétti. Í gelateria er rétt að líta kringum sig eftir heimagerðum ís, gelato fatto en casa, ís úr eigin framleiðslu, produzione propia eða handgerðum ís (sum sé ekki verksmiðjuís), artiginale. Sá fjöldaframleiddi er reyndar þrælgóður líka. Frauðís, sorbetto, er ólýsanlega svalandi á heitum dögum.

Það besta við þetta allt er svo að á Ítalíu er ísinn búinn til úr mjólk fremur en rjóma. Ítalir segja of feitan ís skemma ferskleikann, sem er helsta gæðamark á ísum þar í landi. Góðgætið er því ekki fitandi úr hófi fram (segja alla vega þeir sem ánetjast því) og hægt að hesthúsa mikið magn án þess að af hljótist skefjalaus útrás líkamans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Már Barðason

Mikið désk... langar mig í gelati við þennan lestur! Ég veit það jaðrar við landráð, en mér hefur aldrei þótt Brynjuísinn góður. Gott að fá þessa ítölskukennslu hjá þér, Svavar, og ég sé að þú ert orðin ágætlega gleðitæknafær í þeirri eðlu tungu.

Helgi Már Barðason, 12.4.2007 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband