5.6.2015 | 09:17
Besti matur í heimi?
Undanfarið hefur íslenska ríkissjónvarpið sýnt fræðsluþætti um besta mataræði heimsins. Þættirnir eru framleiddir af bresku almannastöðinni Channel 4. Þáttastjórnendur heimsóttu ýmis lönd og kynntu sér fæðuna sem íbúarnir hafa sér til viðurværis. Þeir fengu næringarfræðinga til að meta mataræði í viðkomandi löndum og studdust við vísindaleg gögn um heilbrigði, meðal annars frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og Efnhags- og framfarastofnun Evrópu (OECD).
Skemmst er frá því að segja að hvergi í heiminum er heilsusamlegra mataræði en á Íslandi sé mark takandi á þeim sem um málið fjölluðu í þessari mynd. Hollustu íslenskra matvæla má samkvæmt þeim þakka ferskum fiski og hvort tveggja kjötvöru og mjólkurafurðum í hæsta gæðaflokki.
Ítalir og Grikkir fengu silfrið og bronsið á þessum lista en í fjórða sæti urðu Sjöunda dags aðventistar.
Íslenskir aðventistar eru því í verulega góðum málum.
Fimmta heilsusamlegasta fæði heimsins er í Japan en frændur vorir Svíar, Norðmenn og Danir skipta bróðurlega með sér sjötta sætinu.
Að sjálfsögðu verður að taka svona listum með miklum fyrirvörum en þeir geta þó gefið ákveðnar vísbendingar.
Ef til vill veldur brotin þjóðarsjálfsmynd Íslendinga því að þeir eru annaðhvort fullir mikilmennskubrjálæðis eða niðurbrjótandi vanmetakenndar. Þannig hafa álitsgjafar lengi hlegið með öllum kjaftinum að þeirri staðhæfingu, að í legu landsins og óspilltri náttúru felist vannýtt tækifæri til framleiðslu á hollri hágæðamatvöru. Þannig hugmyndir þykja mörgum argasta þjóðremba eða eins og blaðamaður Moggans skrifaði í blaðið sitt nú í vikunni eftir að listinn lá fyrir:
Vissulega var þar hollur matur á borð við skyr og lambakjöt en er íslenskt mataræði virkilega betra en t.d. í löndunum við Miðjarðarhaf? Trúir því einhver? Ekki ég."
Íslenskum blaðamönnum kann að þykja árennilegra að Íslendingar framleiði ál og tölvuleiki en matvæli eða snúi sér aftur að því ögrandi verkefni að gera eyjuna að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.
Ég hef þó ekki síður trú á íslenskum sjávarútvegi og landbúnaði. Þeim sem finnst það fyndið og áminna mig um að gleyma nú ekki sviðunum, harðfiskinum og Mangósopanum þegar ég fer til Frakklands í sumar bendi ég á nýlega grein um íslenskan mat í Læknablaðinu.
Hún hefst á þessum orðum:
Aðgangur að öruggum matvælum er hluti af forréttindum Íslendinga."
Og þetta má lesa í niðurlagi greinarinnar:
Mjög lítil notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði ásamt virkum aðhaldsaðgerðum til að draga úr útbreiðslu Campylobacter og Salmonella hafa gert íslensk matvæli með þeim öruggustu í heiminum í dag."
Myndin er af íslensku lambakjöti, grilluðu með íslensku rifsberjahlaupi
Athugasemdir
Þakka þér fyrir góða grein og að benda á þetta. Ég er hjartanlega sammála því, sem þú segir þarna. Hins vegar fannst mér þessir matargúrúar þarna og viðmælendur þeirra sneiða framhjá hinu góða grænmeti okkar, sem ég leyfi mér nú að segja, að sé á heimsmælikvarða. Það má alveg auglýsa það betur og meira, en gert hefur verið. Þegar ég kaupi grænmeti, þá vil ég eingöngu íslenskt, ef ég mögulega get fengið það. Mér finnst líka lítið varið í mat, ef grænmeti fylgir ekki með. Ég var því dálítið skúffuð yfir þættinum, hvað þetta snertir, en þessir matargúrúar hafa kannske ekki búist við, að við ætum mikið grænmeti. Það hefði þurft að fara með þá í gróðrarstöðvarnar til að sýna fram á, hvernig við ræktum okkar grænmeti. - Að öðru leyti var þetta gott og blessað, svo langt sem það náði.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 5.6.2015 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.