16.4.2007 | 18:27
Ítalska kaffifjölmenningin
Það er eiginlega nauðsynlegt að fræðast örlítið um hinn fjölskrúðuga kaffikúltúr Ítala áður en maður leggur leið sína inn á ítalskt kaffihús. Ég vona að eftirfarandi hjálpi eitthvað en bið þá sem vita betur að leiðrétta rangfærslur.
Caffé: Hjá okkur myndi það flokkast sem espresso. Lítill bolli af rótsterku kaffi. Ofan á því flýtur karamellilituð froða, crema, sem er afar mikilvægt merki um gæði kaffisins.
Caffé Hag: Koffínlaust kaffi nefnt eftir stærsta framleiðandanum á slíku kaffi á Ítalíu. Líka nefnt decafinato.
Caffé lungo: Bókstaflega "langt kaffi". Þá er vatnið látið renna úr vélinni þangað til kaffið verður þunnt og beiskt. Líka kallað caffé americano eða hreinlega acqua sporca (skítugt vatn).
Caffé ristretto: Þýðir takmarkað eða stutt kaffi. Minna vatn en venjulega og kaffið því sterkara.
Caffé con panna: Kaffi með sætum þeyttum rjóma.
Caffé con zucchero: Kaffi með sykri. Oftast þarf maður að setja hann sjálfur í kaffið. Sumstaðar á Ítalíu er kaffið alltaf sætt. Þar þarft þú að panta þér un caffé sensa zucchero ef þú vilt það sykurlaust.
Caffé corretto: Kaffi sem er "leiðrétt" með örlitlu áfengi, oft grappa en sambuca er líka gott (uppáhaldið mitt).
Caffé macchiato: Kaffi "stimplað" með mjólkurlöðri.
Caffé latte: Flóuð mjólk sett út í kaffi, eða öfugt. Meira af flóaðri mjólk en í cappuccino.
Latte macchiato: Flóuð mjólk með pínulitlu af kaffi.
Cappuccino: Espresso í stærri bolla en venjulega með flóaðri mjólk og mjólkurlöðri. Venjulega ekki drukkinn eftir 11 árdegis. Hef stungið upp á að cappuccino nefnist "kollaleira" á íslensku.
Caffé freddo: Kalt kaffi, stundum með ísmolum.
Caffé shakerato: Í sinni einföldustu mynd er caffé shakerato búið til með því að blanda sykri út í nýlagað espresso ásamt hellingi af ís og hrista svo allt saman með miklum fyrirgangi uns út vellur froða. Stundum er súkkulaðisíróp sett saman við.
Athugasemdir
Nammi namm, þetta er lystug upptalning hjá þér Svavar. Hef sjálfur mikinn áhuga á kaffi og mæli helst með Caffé latte við alla sem á vegi mínum verða því þá er drukkin svo mikil mjólk (2/3 mjólk), he he ... og reyndar án gríns þá er velgengni þess kaffidrykkjar mjög þýðingarmikil fyrir mjólkurbændur víða um heim í minnkandi mjólkurdrykkju. Hér heima höfum við staðið fyrir átaki þar sem kaffibarþjónar hafa verið styrktir til að kynna kaffimenninguna. Er reyndar hættur í mjólkinn, en hætti seint að hugsa um hana :)
Caffé macchiato. Er það ekki espresso með mjólkurfroðu? Macchiato þýðir jú að stimpla eða merkja og í þessu tilviki með mjólkurfroðunni.
...
Bestu kveðjur og góða ferð
Hólmgeir Karlsson, 16.4.2007 kl. 19:56
þetta verður prentað út og sett í ferðahandbókina.
Jóna Á. Gísladóttir, 17.4.2007 kl. 18:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.