Tveir fánar

P1030539

Einn blíðudaginn í sumar fann ég borð á sætu útikaffihúsi á markaðstorginu í hollensku borginni Maastricht. Ég fékk mér glas af trappistaöli dæsandi feginshugar yfir fríinu og skyggndist um úr sæti mínu. Gamla ráðhúsið stóð á torginu fyrir framan mig. Ofan á því blöktu tveir fánar gætilega til að styggja ekki goluna. Borgarfáninn sá fremri, rauður með hvítri stjörnu. Saga hans nær að minnsta kosti aftur til 16. aldar þannig að hæpið er að tengja hann við pólitíska hugmyndafræði síðari tíma. Aftar sást í hinn stjörnumprýdda bláfána Evrópusambandsins.

Fyrstu drögin að þessari bloggfærslu urðu til áður en mér hafði tekist að klára alveg úr glasinu. Ég smellti því meðfylgjandi mynd af flöggunum til að geta myndskreytt færsluna ef mér auðnaðist að skrifa hana heim kominn.

Borgarfáninn er tákn kampanílismans en sá ismi fær heiti sitt af ítalska orðinu campanile sem þýðir klukkuturn. Báðir fánarnir voru einmitt við hliðina á þeim hluta ráðhússins. Kampanílistar eru svo hugfangnir af klukkuturninum sínum að þeim líður illa ef þeir eru komnir það langt frá honum að þeir sjá hann ekki lengur.

Turnspíruhyggja er átthagadýrkun. Hún getur haft leiðinlega fylgifiska, þröngsýni, umburðarleysi, heimóttarskap, einsleitni, hroka og fordóma. Heilbrigður kampanílismi er þó alls ekki neikvæður. Hann hvetur til þess að fólk rækti tengsl sín við það sögulega og hlúi að nærumhverfi sínu í þeim tilgangi að þar sé hægt að mæta þörfum borgaranna á sem bestan hátt. Kampanílistar dúlla við borgina sína eða bæinn sinn og reyna að láta íbúunum líða vel. Til þess þurfa þeir að fá að hafa sitt að segja um hvernig sveitarfélaginu er stjórnað. Borgararnir þurfa völd og borgarfáninn á markaðstorginu í Maastricht sagði mér að minnstu stjórnunareiningarnar, héraðs- og sveitarstjórnir, ættu að hafa sem flest mál sér viðkomandi á sinni könnu. Best sé að hafa völdin nálægt fólkinu þegar um er að ræða mál sem hafa áhrif á daglegt líf þess.

Sum mál eiga heima í héraði en öðrum þarf að sinna á breiðari vettvangi. Einstakar héraðsstjórnir mega sín lítils í baráttunni gegn mengun, farsóttum, hryðjuverkum og vaxandi misskiptingu heimsins gæða, svo nokkuð sé nefnt. Til þess þarf yfirþjóðlegt vald. Blaktandi bláfáni Evrópusambandsins á þaki ráðhússins í Maastricht þennan sumardag minnti mig á það nauðsynlega vald. Ég sá ekki betur en vel færi á með flöggunum tveimur. Þau bærðust í takt og virtust vinna vel saman, tákn þessara tveggja stjórnunarstiga.

Hvaða augum sem menn líta Evrópusambandið er nokkuð óumdeilt að það stendur nú á miklum tímamótum. Ef til vill má lýsa inntakinu í yfirstandandi átökum í þessu ríkjasamfélagi þannig, að þar sé tekist á um hvaða völd eigi heima á hvaða stigi. Evrópusambandið hefur sogað til sín völd frá þjóðum og héruðum. David Cameron vill að sambandið skili Bretum völdum til baka sem það hefur haft af þeim. Hollenska ríkisstjórnin hefur farið fram á svipaða valdaeftirgjöf frá ESB í 54 liðum.

Bláfáni Evrópusambandsins minnti mig líka á þetta mikla mein þess, að völdin, sem ættu að vera sem næst fólkinu, hafa verið flutt frá því. Síðast þegar ég var í Maastricht fylgdist ég með örlítilli mótmælagöngu úr sæti mínu á öðru kaffihúsi í borginni. Það er gott að geta mótmælt heima hjá sér en þurfa ekki alla leið til Brüssel – þótt styttra sé þangað frá Maastricht en flestum öðrum borgum í ESB. Það er gott ef hið lýðræðislega heimili manns er í nágrenni við lögheimilið.

Umræðan á Íslandi er gjarnan svarthvít og annaðhvort eða enda virðist henni stundum stjórnað af æsingaöflum. Ísland myndi bæði hagnast og tapa á því að gerast aðili að Evrópusambandinu. Aðildinni fylgdu bæði ótvíræðir gallar og kostir. Ég er þeirrar skoðunar að eins og er séu gallarnir fleiri. Ég er líka þeirrar skoðunar að sambandið muni á næstu misserum taka róttækum breytingum og því sé skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að bíða og sjá í hvaða áttir sú þróun verður. Og síðast en ekki síst er ég þeirrar skoðuna að renni einhvern tímann upp sú stund að vænlegt geti talist fyrir okkur að sækja um aðild eigi að gera það af alvöru, í samræmi við þjóðarvilja og af virðingu fyrir sambandinu og þeim reglum sem það setur slíku ferli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband