Draumaráðning

Í umræðum hjá bloggvinkonu gat ég um draum sem mig dreymdi nýlega. Þar þótti mér sem ég væri að gefa saman þá Gunnar í Krossinum og Hjört Magna fríkirkjuprest.

Nú hef ég ráðið drauminn.

Nokkur fjöldi fólks sagði sig úr Þjóðkirkjunni eftir Prestastefnu á Húsavík en þar höfnuðu prestar því að óska eftir því við löggjafann að hjúskaparlögum yrði breytt þannig að lög um staðfesta samvist og hjónaband rynnu saman í eitt. Fólk túlkaði þessa niðurstöðu þannig að þar með væri kirkjan að neita að gefa saman samkynhneigt fólk og jafnvel hafna samkynhneigð enda var málið gjarnan kynnt þannig í fjölmiðlum. Hluti þess fólks sem sagði sig úr Þjóðkirkjunni út af þessu gekk til liðs við Fríkirkjuna í Reykjavík. Og Hjört Magna.

Nú er á hinn bóginn að koma á daginn að með því að samþykkja ályktun kenningarnefndar voru prestarnir að samþykkja samkynhneigð. Þegar svo prestarnir samþykktu drög að blessun staðfestrar samvistar verður ekki séð að nein rök séu gegn því að þeir annist lagalegan hluta slíks gjörnings og gefi samkynhneigða saman, eins og það heitir. Það mun að líkindum valda annarri bylgju úrsagna úr Þjóðkirkjunni og ég spái því að einhverjir sem kveðja kirkjuna í henni muni ganga Krossinum á hönd. Og Gunnari.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Nú fylgist ég ekki betur með en það að ég verð að spyrja þig Svavar: hvað af þessu er staðreyndir og hvað er draumaráðning?

Jóna Á. Gísladóttir, 2.5.2007 kl. 19:17

2 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Mér þykir þú vera með einsdæmum draumspakur drengur minn, - og hvað verður þá um þetta blessaða fólk?

Vilborg Eggertsdóttir, 2.5.2007 kl. 21:33

3 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Sæl Svavar

Ekki hélt ég nú að Gunnar í Krossinum myndi reynast samkynhneigðum betur en þjóðkirkjan Hélt að hann gæfi sig út fyrir að afhomma og af ég veit ekki hvað. En það er nú sama við lifum í skrítinni hringiðu. Fólk hleypur á eftir öllum dutlingum segir sig úr eða í og lifir bara fyrir daginn í dag. Haltu áfram að láta þig dreyma því það býr margt í draumunum:)

Aðalheiður Magnúsdóttir, 3.5.2007 kl. 20:02

4 Smámynd: Draumar

Það að dreyma giftingu í draumi getur verið mjög sterkt draumtákn, en margar ólíkar skoðanir hafa þó komið fram um hvernig beri að túlka það. En sterkasta skýringin og sú sem ég tel að eigi frekast við í þínu tilviki Svavar sé eftirfarandi. Draumur um giftingu er vísbending um að það togist á tvær hliðar en að viðkomandi hafi öðlast innri ró. Einnig bendir giftingin til að dreymandinn sé ekki fullkomlega sáttur og eitthvað sé enn óleyst. Hér tel ég að þetta tengist skoðunum þínum þar sem enn togast á löngun þín til að allir fái sömu meðhöndlun fyrir guði og mönnum og svo sjónarmiðið að hjónabandið sé heilög stofnun elskendanna karls og konu. Draumurinn er einnig tákn þess að þú gerir upp þennan ágreining innra méð þér og tjáir hann opið í framhaldinu. Kveðja

Draumar, 3.5.2007 kl. 21:58

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég held þú sért kominn vel á sporið, Hólmgeir draumspekingur. Samt verður að taka það fram að Þjóðkirkjan (ég þar með talinn) er búin að gera upp við sig það að allir eigi að fá sömu meðferð fyrir Guði. Hún blessar hjúskap samkynhneigðra og Prestastefna á Húsavík samþykkti drög að slíkri athöfn. Það getur ekki verið neinn stigsmunur á þeirri blessun. Hún er ekki lítil - meiri - mest. Hún er annað hvort blessun eða ekki.

Hjúskapur gagnkynhneigðra nefnist samkvæmt lögum hjónaband. Hjúskapur samkynhneigðra staðfest samvist. Þjóðkirkjan fagnaði því á sínum tíma þegar lög um staðfesta samvist voru samræmd lögum um hjónaband. Þjóðkirkjan (ég er þar) vill því líka að samkynhneigðir og gagnkynhneigðir fá sömu meðhöndlun fyrir mönnum og njóti sömu réttinda.

Það sem Þjóðkirkjan hefur ekki gert upp við sig, ekki frekar en aðrar kirkjur og löggjafar í langflestum ríkjum Evrópu (öllum Norðurlöndunum til að mynda), er hvort gera eigi hjónabandið, eina elstu stofnun samfélagsins, kynhlutlaust. Þar hittir þú naglann á hausinn með algjöru draumahöggi. Það að Prestastefna hafi hafnað því að leggja til slíkar breytingar núna þarf ekki að þýða annað en að tillagan sé ekki tímabær því hún þarfnist bæði frekari umræðu og skoðunar.

Svavar Alfreð Jónsson, 3.5.2007 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband