25.9.2015 | 22:07
Samkynhneigð og samviskufrelsi
Í fyrsta lagi:
Mér finnst að ríkið eigi að setja það skilyrði fyrir veitingu heimildar til að gefa saman fólk, að vígslumenn mismuni fólki ekki heldur séu tilbúnir að gefa saman jafnt samkynhneigða sem gagnkynhneigða.
Sú ráðstöfun mun sennilega leiða til þess að þau trúfélög á Íslandi sem ekki viðurkenna hjónabönd samkynhneigðra fái ekki heimild til að framkvæma hina lagalegu hlið hjónavígslunnar. Þau gætu eftir sem áður annast hinn trúarlega þátt hennar.
Þjóðkirkjan viðurkennir hjónabönd fólks af sama kyni og mikill meirihluti starfandi presta hennar er tilbúinn að veita samkynhneigðum þá þjónustu að gefa þá saman.
Einhverjir prestar treysta sér ekki til þess og lúta þar með ekki þeim skilyrðum sem mér finnst að ríkið ætti að setja fyrir veitingu heimildar til að annast hinn lagalega gjörning hjónavígslunnar.
Fjöldi þeirra er óþekktur. Árið 2008 voru þeir níu samkvæmt könnun dagblaðsins 24 stundir. Mér finnst trúlegra að þessum prestum hafi fremur farið fækkandi en fjölgandi enda hefur sú staða sem betur fer ekki komið upp að prestur í þjóðkirkjunni hafi neitað samkynhneigðu fólki um hjónavígslu.
Engu að síður finnst mér að þjóðkirkjan sem sjálfstætt trúfélag þurfi að vera undir það búin að slíkt geti gerst.
Þá hefur hún sýnist mér um þrennt að velja.
Hún getur leyst viðkomandi presta frá störfum.
Hún getur ákveðið að viðkomandi prestar annist engar hjónavígslur.
Hún getur ákveðið að viðkomandi prestum sé einungis heimilt að annast hinn trúarlega þátt hjónavígslna.
Í öðru lagi:
Það eru mannréttindi að fá að ganga í hjónaband og njóta þeirra borgaralegu réttinda sem sú hjúskaparstaða veitir.
Það eru ekki síður mikilvæg mannréttindi að vera frjáls hugsana sinna, samvisku, sannfæringar og trúar.
Það frelsi er eitt einkenni og hornsteinn réttarríkisins. Í nýlegri mannréttindahandbók Evrópuráðsins segir:
Guarantees of religious liberty and respect for conscience and belief are inevitably found in the constitutional orders of liberal democratic societies and in international and regional human rights instruments. (Bls. 9)
Í umræðunni um hjónabönd samkynhneigðra hefur fólki eðlilega orðið tíðrætt um að ekki megi mismuna fólki eftir kynhneigð.
Undarlegt er að sjá sama fólk leggja til þá grófu og freklegu mismunun, að svipta tiltekna stétt manna þessum grundvallarmannréttindum, samviskufrelsinu.
Allir eiga að njóta þeirra mannréttinda að vera frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Líka prestar þjóðkirkjunnar. Líka þessir fáu prestar sem ekki treysta sér til að gefa saman samkynhneigð pör.
Og líka þau sem okkur finnst hafa alveg fáránlegar skoðanir.
Hitt er mikill misskilningur að menn geti notað samviskufrelsi sitt til að skerða frelsi og réttindi annarra. Samviskufrelsið á sér mörk. Það er ekki eitt í húsinu heldur verður að búa þar með allskonar öðru frelsi og láta sér lynda við ýmis önnur réttindi.
Engar reglur eru til um samviskufrelsi presta en íslensk löggjöf verndar samviskufrelsi heilbrigðisstéttanna með sérstöku lagaákvæði (Lög um heilbrigðisstarfsmenn, 14. gr.). Þar er kveðið á um að heilbrigðisstarfsmanni sé heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við siðferðileg eða trúarleg viðhorf hans.
Þótt heilbrigðisstéttirnar allar njóti að þessu leyti sérstakrar verndar umfram aðrar á Íslandi gilda ákvæði stjórnarskrár engu að síður um þessa mikilvægu starfsmenn og þeim er ekki heimilt að brjóta mannréttindi skjólstæðinga sinna.
Við lifum mikla umbrotatíma. Íslenskt samfélag tekur örum breytingum. Hér fjölgar sífellt fólki með viðhorf gjörólík þeim sem eitt sinn ríktu á þessu landi. Mín skoðun er sú að enda þótt ekki megi gefa neinn afslátt af mannréttindum sé skynsamlegt að sýna sveigjanleika og teygja sig langt í þeirri viðleitni að virða samviskufrelsi nýrra Íslendinga og rétt þeirra til að lifa samkvæmt trú sinni og siðferði.
Fái fólk ekki að njóta þeirra mikilvægu mannréttinda mun því ekki líða vel í þessu samfélagi.
Myndina tók ég í sumar af Skálarkambi á Hornströndum. Horft yfir Hlöðuvík og Kjaransvík. Álfsfell þar á milli.
Athugasemdir
Svavar - Allir hafa rétt til að gifta sig borgaralega, en það eru ekki sjálfsögð mannréttindi að fá vígslu hjá trúfélagi.
Kaþólska kirkjan neitar ekki aðeins að gefa samkynhneigða í hjónaband, heldur líka fráskilið fólk. Skv. hugmynd þinni ætti ísl. ríkið þá strax að taka af henni rétt til að gefa fólk saman í löglegt hjónaband.
Ég skil ekki að par af sama kyni myndi kæra sig um vígslu frá hendi aðila sem er á móti henni. Manneskja sem ætlaði að giftast manni af öðrum kynþætti myndi ekki fá til þess prest með rasískar skoðanir.
Ef fólk þekkir alls ekki sóknarprest sinn og hefur ekkert komið nálægt kirkjunni, sýnist mér að betra væri að fara til sýslumanns.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 26.9.2015 kl. 00:26
Takk fyrir þetta, Ingibjörg. Já, ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi aðeins að afhenda þeim rétt til að gifta að lögum sem eru tilbúnir að gera það að uppfylltum skilyrðum sem það setur. Kaþólska kirkjan gæti þá annast trúarlegan hluta hjónavígslunnar eins og hún gerir víða í okkar heimshluta.
Svavar Alfreð Jónsson, 26.9.2015 kl. 00:34
Kæri Svavar Alfreð.
Vissulega er stjórnarskrárákvæði um að ekki megi mismuna vegna kynhneigðar, en sama stjórnarskrá segir einnig að ekki megi það heldur vsgna trúar.
Þjóðkirkjan er ekki ríkisstofnun, en eins og þú segir þá framkvæmir að minnsta kosti helmingur presta hennar samkynja hjónavígslur þó Ritningin greini skilmerkilega frá því að hjónaband sé ætlað karli og konu. Mannasetningsrnar sem Jesú var duglegur við að útrýma eru lífsseigar.Menn eru að búa til sinn guð hver fyrir sig. Við megum víst lofa Guð fyrir að slíkir mannasetningaframleiðendur skrifi ekki einfaldlega nýja Ritningu þar sem þeim dugir ekki hin heilnæma fæðsla sem í þeirri núverandi er að finna.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.9.2015 kl. 01:05
Vertu ekki viss, Svavar, nema þeim prestum hafi einmitt farið fjölgandi sem sjá vígslu samkynhneigðra í hjónaband sem andkristna og andbiblíulega. Þeim mun vandlegar sem prestar hugleiða málið og kanna vandaðar ritskýringar Nýja tstamentisins, eru þeir líklegri til að hafna hjónavígslu samkynja para. "Þróunin" er ekki alltaf bara í átt til meira "frjálslyndis", trúaróhollustu og upplausnar.
Samvizkufrelsi presta til að hafna slíkri hjónavígslu skerðir ekki frelsi og réttindi nokkurs manns og tálmar því miður ekki viðkomandi að fá þessa athöfn framkvæmda í Þjóðkirkjunni, vegna þess að ótrúir menn byltu siðferði hennar og helgisiðum.
Svo kann ég þér engar þakkir fyrir að tala hér í aths. þinni kl. 0:34 gegn réttindum kaþólsku kirkjunnar og þar með um leið þeirrar orþódoxu í öllum deildum sínum, einnig hvítasunnukirkjunnar o.fl. trúarsamfélaga á Íslandi.
Þú leggst hér í raun með Baldri Kristjánssyni í Þorlákshöfn, sem á nýliðnum degi réðst á viðkomandi kenningartrúa presta og vill láta reka þá úr starfi! ... enda þótt þú reynir að lina höggið með auka-tillögum.
En báðir eigið þið það sameiginlegt að tala í þessu máli þvert gegn orðum Jesú Krists og postula hans um hjónabandið, sem og orðum Páls postula og Júdasarbréfs (ekki svikarans Ískaríots!) um syndsemi samkynja kynmaka. Páll, en ekki þið, hafði ekki aðeins umboð Krists til að boða hans kenningu, heldur einnig fyrirheitið um tilstyrk Heilags Anda í hans kennslu.
Jón Valur Jensson, 26.9.2015 kl. 05:12
Þú leggst hér í raun á sveif með Baldri Kristjánssyni
vildi ég sagt hafa!
Jón Valur Jensson, 26.9.2015 kl. 05:14
Ég er sammála þeirri túlkun að, ef ég skil þig rétt, að ef prestur er ekki tolbúinn til að gefa saman gagnkynhneigð pör þá eigi hann/ hún ekki að fá að framkvæma hjónavígslur. Með því væri að uppfylla lögin um jafnræði þegnanna.
Jósef Smári Ásmundsson, 26.9.2015 kl. 07:28
Þakka ykkur öllum málefnalegar athugasemdir. Jón Valur fær sérstakar þakkir fyrir skemmtilega misritun í fyrri athugasemd sinni. Hún hæfði vel efninu! Persónulega finnst mér of langt gengið að svipta þá kjóli og kalli sem ekki vilja gefa saman samkynhneigða enda er ég ekki viss um að það sé mögulegt. Mér fyndist eðlilegt að þeir sem ekki fara með borgaralegar vígsluheimildir að hætti borgaralegra yfirvalda hefðu ekki þær heimildir.
Gaman var líka að sjá Jósef Smára snúa þessu alveg við og tala um presta sem ekki vilja gefa saman gagnkynhneigða. Það setur mismununina í nýjan fókus.
Svavar Alfreð Jónsson, 26.9.2015 kl. 08:35
Smá rökstuðningur við síðustu færslu. Þjóðkirkjan er ríkisstofnun þrátt fyrir að einhverjir vilja halda öðru fram. Að mismuna þegnunum er þessvegna ekki löglegt. Varðandi samviskufrelsi þá er það ekki bara prestanna heldur líka alls almennings. Réttast væri því kannski að þjóðkirkjan upplýsti almenning um það hvaða prestar gætu ekki samvisku sinnar vegna ekki gift samkynhneigð pör. Það eru margir gagnkynhneiðir sem vilja standa með samkynhneigðum og þeir hafa rétt á því að velja prestþjónustu samkvæmt því.
Jósef Smári Ásmundsson, 26.9.2015 kl. 12:42
Sælir aftur allir. Mér finnst athyglisvert að enginn skuli velta upp annarri hlið á samviskufrelsinu; hvað ef prestur er andvígur því að gefa saman hvíta manneskju og þeldökka? Það er ekki nema um hálf öld síðan slík blönduð hjónabönd voru yfirleitt leyfð í USA.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 26.9.2015 kl. 13:10
Sæll, Jósef. Hvar sem menn vilja staðsetja þjóðkirkjuna í flóru íslenskra stofnana er hún samkvæmt lögum sjálfstætt trúfélag og nýtur sjálfræðis gagnvart ríkinu innan lögmæltra marka.
Ingibjörg, að sjálfsögðu er þeim sem veita borgaraleg réttindi hvorki heimilt að mismuna fólki eftir litarhætti né kynhneigð.
Svavar Alfreð Jónsson, 26.9.2015 kl. 14:11
Jósef Smári
Þú lemur enn höfðinu við steininn þrátt fyrir að þú hafir verið með í umræðum oft þar sem farið er í gegn um rök, lög og annað sem sýnir svo ekki verði um villst að þjóðkirkjan er ekki ríkisstofnun og ber engin merki þess heldur.
Háskóli Íslands er ríkisstofnun svo ekki verði um villst svona til samanburðar og ber öll merki þess. Augljóst er við að bera saman þjóðkirkjuna og H.Í að þjóðkirkjan er ekki ríkisstofnun en HþÍ. er það svo sannarlega.
Hvar kemur meint eignarhald ríkisins á þjóðkirkjuni fram Jósef Smári ? Það hlýtur þú að geta sýnt, þar sem þú ert þrátt fyrir rök gegn því um langan aldur,þar sem þú ert svo einbeittur í skoðun þinni. Skoðun er það en ekki sannleikur, hvað þá rök.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.9.2015 kl. 14:11
Þótt þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag samkvæmt lögum og njóti sjálfræðis gagnvart ríkinu er á reiki nákvæmlega hvað eigi að kalla hana vegna þeirra nánu tengsla sem eru á milli ríkis og kirkju á Íslandi - sem eru með svipuðum hætti og verið hefur á hinum Norðurlöndunum. Þannig er þjóðkirkjan á lista yfir ríkisstofnanir frá árinu 2009. Þar er þess þó getið að ekki sé auðvelt að skilgreina hvaða aðilar teljist til ríkisstofnana því skilgreiningu á slíkri stofnun sé hvergi að finna í lögum. Þetta er eitt af því sem mér finnst að þurfi að skýra í samskiptum ríkis og kirkju.
Hér má skoða umræddan lista.
http://www.althingi.is/altext/137/s/0118.html
Svavar Alfreð Jónsson, 26.9.2015 kl. 14:31
Kæri Svavar Alfreð.+R'ikið á ekki eina einustu krónu né hlutabréf í þjóðkirkjunni hvað sem lista áhrærir. R'ikisstofnanir hljóta samkvæmt orðanna hljóðan að vera í fullri eign ríkisins og því kemur nafnið til, ríkisstofnun. R'ikið á sem fyrr segir ekkitúskilding með gati í þjóðkirkjunni, hvað þá hlutabréf.
Ríkisstofnanir fá rekstrarfé sitt frá ríkinu, það gerir þjóðkirkjan ekki. Söfnuðir hennar fá, eins og þér er kunnugt vitanlega, sóknargjöld frá meðlimum sínum á hverjum stað. Þá er algengt að þeir sem ekki vita betur leggi að jöfnu styrk og kaupleigusamning þann sem ríkið greiðir til þjóðkirkjunnar og tengdum samningum vegna þeirra laga fyrst frá árinu 1907 og síðan 1997. Það er auðvitað kaupleigusamningsbundnar greiðslur fyrir hæatt í 700 jarðir vítt og breitt um Ísland sem ríkið nýtir og hefur eignarhald á samkvæmt því, hirðir af því arð sömuleiðis sem von er.
Það var tekið saman að framreiknað frá árinu 1907 væri ríkið búið að greiða einhverja 32 milljarða, það er á 108 árum fyrir allt þetta jarðnæpi og sumt hvert jarðnæðið slagar langa leið í þessa tölu í núvirði samanber stórar jarðir á höfuðborgarsvæðinu og víða um land. Þá ber svo við að Reykjavík leigir af Ríkisútvarpinu 2 skrifstofuhæðir. Leiguverð fyrir þessa fermetra, ekki hátt í 700 bújarðir, slagar á sama áraf0lda um 7 milljarða ! Þeir sem gerðu kirkjujarðasamninginn á vegum ríkisins ættu að fá frá skattgreiðendum stórriddarakross með stjörnu og gullkeju sem þjóðhöfðingjar væru því þetta er einhver besti samningur sem higsast getur. Nánast hægt að kalla að hann sé allt að því einhliða því hagur ríkisins er stórkostlegur af honum.
Ekki telst leigufélagið í Borgartúni ríkisstofnun, þar sem LÍN, Íbúðalánasjóður, sáttasemjari ríkisins og fleiri leigja hlut úr byggingunni. Þó er þetta sambærilegt og bæri því miðað við það sem Jósef Smári segir og fleiri að leigufélagið væri ríkisstofnun með sömu rökum. Leigufélagið þarna er sjálfstætt starfandi eins og þjóðkirkjan. Í báðum tilfellum á ríkið ekki eitt hlutabréf né túskilding með gati.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.9.2015 kl. 15:09
Það er minn skilningur að þjóðkirkjan sé ríkisstofnun vegna gr.62. í stjórnarskránni eða meðan svo sé . Hún getur hins vegar verið sjálfstæð eins og t.d. Seðlabankinn sem flestir myndu segja samt teljast til ríkistofnunar. En talandi um steininn prédikarans þá hefur hann ekkert verið að þvælast fyrir mér þó hann hafi greinilega orðið á vegi hans. Ég stend við þá skoðun að meintar eignir þjóðkirkjunnar sem notaðar eru í skiptimynt fyrir launum presta séu ekki kirkjunnar heldur þjóðarinnar allrar og einungis hluti þeirra megi nota í þessum tilgangi- þ.e. hlutfall sóknarbarna þjóðkirkjunnar af þjóðinni allri á sínum tíma. Aðrir geta tönnglast á annarri skoðun, en ég hef rétt á minni.Þetta er tíundað hér vegna taugatitrings prédikara út af þessari skoðun minni sem kom fram í framhjáhaldi hjá honum þó þetta sé að sjálfsögðu ekki efni bloggfærslunar og biðs ég afsökunar á því að fara út fyrir efnið.
Jósef Smári Ásmundsson, 26.9.2015 kl. 15:52
Þakka ykkur athugasemdirnar, Jósef Smári og Prédikarinn. Þessi umræða og fleiri sýna mér að full þörf er á að skýra samband ríkis og kirkju. Við skulum samt endilega ræða efni pistilsins, þótt ég kunni vel að meta innlegg ykkar beggja.
Svavar Alfreð Jónsson, 26.9.2015 kl. 16:12
Jósef Smári.
62. grein hefur bara nákvæmlega ekkert að gera með eignarhald á þjóðkirkjunni. Staðreyndin er að ríkið á ekki neitt í henni. Alveg sama hvað þú lemur höfði þínu við þennan stein. Enginn er titringur minn - það er enn einn misskilningur þinn til viðbótar því að halda þjóðkirkjuna ríkisstofnun.
Samkvæmt þinni skilgreiningu þá eru meintar eignir þínar alls ekki þ
ínar eigin og getur þú því ekki ráðstafað þeim nema að hluta, því þú hlýtur að leggja eignarrétt þinn sem annarra að jöfnu svo alls samræmis sé gætt.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.9.2015 kl. 16:16
Þökk fyrir vettvanginn sömuleiðis Svavar Alfreð.
Í ljósi þess sem þú segir um þörf á að ræða samband ríkis opg kirkju, leyfi ég mér að setja hér inn slóð á ágætan pistil Jóns Vals sem einmitt kemur inn á þetta og heitir „Þjóðkirkjaan er ekki „ríkiskirkja““ :
.
http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/1567597/
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.9.2015 kl. 16:21
" til að gefa saman gagnkynhneigð pör þá eigi hann/ hún ekki að fá að framkvæma hjónavíg" He,he,. Átti að sjálfsögðu að vera" samkynhneigð" . Svo eðlilegt að hafir sett þetta í nýjan Focus. Þakka þér kærlega fyrir að benda mér ekki á þetta. Það hefði algjörlega skemmt söguna.
Jósef Smári Ásmundsson, 26.9.2015 kl. 17:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.