8.5.2007 | 21:41
KA er mitt lið
Óðum líður að því að hinn íslenski bolti fari að rúlla. Íslenski fótboltinn er að mínu mati einn sá alskemmtilegasti í veröldinni og þótt víðar væri leitað.
Efsta deild meistaraflokks karla fær mestu umfjöllunina en margt markvert gerist í neðri deildum.
Einu sinni spilaði ég með utandeildarliði á héraðsmóti. Leikirnir voru oft mjög skrautlegir. Ég var á kantinum og í einum leiknum heyrði ég alltaf línuvörðinn hlaupa með mér þegar ég hljóp fram. Þar var um að ræða bónda úr sveitinni sem átti leið hjá vellinum og hafði óforvarandis verið drifinn af dráttarvélinni í hlutverk línuvarðar. Hann taldi ekki eftir sér að sinna því verki í stígvélunum.
Ég man líka hvað ég varð hissa þegar einn samherja minna vippaði af sér hárinu og hengdi á snaga í búningsklefanum áður en við hlupum hnakkakerrtir inn á völlinn þar sem við skíttöpuðum.
Þetta var samt frækilegt síson.
Knattspyrnufélag Akureyrar er mitt lið. Ég er KA-maður og hef haldið með félaginu frá blautu barnsbeini eins og allt mitt fólk. Félaginu hefur gengið afleitlega síðustu misserin og leikur nú í 1. deild. Er held ég spáð 7. sæti þar. Þó höfum við KA-menn í okkar röðum besta markvörð deildarinnar, ungverska vítabanann Sandor Matus. Þar eru líka útlendingar með nöfn sem ómögulegt er að bera fram. Það getur komið sér vel þegar æstir og ókurteisir áhorfendur vilja gera hróp að þeim.
Verði þeim til dæmis að góðu þegar þeir reyna að hrópa: "Út af með Srdjan Tufegdzic!"
Þrátt fyrir slakt gengi minna manna mæti ég alltaf á völlinn ef ég get og hvet þá. Stundum eru þeir alveg grátlega lélegir en ég reyni að bera höfuðið hátt og ver þá með kjafti og klóm í heita pottinum daginn eftir. Sérstaklega ef Þórsarar eru þar eitthvað að rífa sig.
Fyrir kemur líka að liðið spili vel og þá sofna ég sæll og rjóður. Það hefur reyndar ekki gerst oft nú í seinni tíð, frómt frá sagt.
Koma tímar og koma ráð, segi ég. KA-menn eru þolinmóðir. Það kemur sér vel núna.
Hinn guli og blái búningur okkar KA-manna er afbragð annarra fótboltaúníforma. Hann fer einkar vel við grænt grasið. Fallegastur er hann þó finnst mér á vorin þegar enn er sina í völlunum. Ekki finnst mér undarlegt að önnur lið hafi tekið upp búning KA-manna, til dæmis Grindvíkingar.
Þó fannst mér full langt gengið þegar sænska landsliðið var dubbað upp í þann gulbláa.
Athugasemdir
Já ég er KA maður en af allt annarri ásæðu... éf ólst uppá eurinni þar sem allir í kringum mig voru þórsarar og þess vegna gat ég bara ekki með nokkru móti verið eins. Konan er Valsari að upplagi(af öllum liðum) svo þú getur rétt ímyndað þér hvort ekki hefur einhverntíman farið fram rökræða um þessi tvö lið
... og ég er alltaf jafn duglegur að hæla útliti allra hluta sem eru gulir og bláir. - hinsvegar sakna ég þeirra tíma þegar "local" liðið sá um spilamennskuna... í dag er lítið um "sanna" menn í liðum... menn sem fyrr myndu láta þig urða sig en að skipta t.d yfir í Þór. Kveðja í heiðardalinn, Steini
Þorsteinn Gunnarsson, 8.5.2007 kl. 21:57
Ég er ekki KA maður. Ég er hins vegar Bjarma maður, sannur ungmennafélagi. Búningurinn skemmir heldur ekki fyrir: Hvít treyja með gulum röndum og rauðar buxur með gulum röndum, sokkar voru bláir. Smekklegt, ekki satt
Guðmundur Örn Jónsson, 8.5.2007 kl. 22:05
Get ekki orða bundist og minnst á að þú átt einn frænda sem er heitur Þórsari.
Dæmi um það er að eitt það versta sem hann og vinur hans geta hugsað sér er að eiga kærustu í KA...
Sigga systir (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 22:40
Steini minn. Þú kvartar undan því að hafa gifst konu úr Val. Hvað má ég þá segja? Mín er úr Ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði!
Örri: Bjarmabúningurinn er held ég einhver sá rosalegasti sem ég hef heyrt um. Leikur gegn liði í slíkri múnderíngu er eiginlega fyrirfram tapaður.
Og takk, Sigga, fyrir að minna mig á hann Jón Emil, yfirþórsara fjölskyldunnar. Hann á eftir að standa sig með Þór og ekki nema sjálfsagt að ættin leggi eitthvað af mörkum í þágu þess félags, enda erum við góðhjartað fólk. Samt neita ég því ekki að ég bind vonir við að hugsanleg kærasta úr KA geti haft hagstæð áhrif á hann frænda minn. Þær vonir hafa glæðst verulega eftir að þið fluttuð úr 603...
Svavar Alfreð Jónsson, 8.5.2007 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.