1.10.2015 | 11:54
Samviskufrelsi og sérviskufrelsi
Nú liggur fyrir að hvorki einstakir vígslumenn þjóðkirkjunnar né annarra trúfélaga geta útdeilt borgaralegum réttindum sem ætluð eru öllum óháð kynhneigð aðeins til sumra, samkvæmt sínum persónulega smekk með skírskotun til samviskufrelsis.
Þeirri niðurstöðu þarf þjóðkirkjan að fylgja eftir og tryggja að fólki sé ekki mismunað eftir kynhneigð, hvorki af vígðum þjónum kirkjunnar né öðrum starfsmönnum.
Ríkið þarf að mínu mati einnig að fylgja því eftir að öll trúfélög fari rétt með heimildir sem það afhendir trúfélögum til að gefa fólk saman lögformlega.
Þessi umræða hefur leitt fleira í ljós.
Til dæmis virðist það óskýrt í hugum margra hvað átt sé við með hugtakinu samviskufrelsi. Dæmi eru um að misnotkun samviskufrelsisins verði mönnum tilefni til að tala óvirðulega og ógætilega um þau mikilvægu mannréttindi. Jafnvel hefur verið dregið í efa, að samviskufrelsi sé til.
Í ritinu Protecting the right to freedom of thought, conscience and religion under the European Convention on Human Rights sem Evrópuráðið gaf út árið 2012 kemur fram að ákvæði sem tryggja rétt manna til að vera frjálsir skoðana sinna, samvisku og trúar séu óhjákvæmileg í stjórnarskrám allra frjálslyndra lýðræðisríkja og í sáttmálum og samþykktum í þágu mannréttinda.
Ákvæði um samviskufrelsi er til dæmis að finna í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en þar segir í 18. grein:
Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu, og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu, og helgihaldi.
18. grein Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem einnig var gerður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Ísland er aðili að, er svohljóðandi:
1. Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í þessum rétti felst frelsi til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að þeirra vali, og frelsi til þess að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með tilbeiðslu, helgihaldi, guðsþjónustu og kennslu.
2. Enginn skal þurfa að sæta þvingun sem mundi hefta frelsi hans til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að hans vali.
3. Frelsi til þess að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er í lögum og eru nauðsynlegar til þess að vernda öryggi almennings, reglu, heilbrigði eða siðgæði, eða grundvallarréttindi og frelsi annarra.
4. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.
Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur einnig lagagildi á Íslandi. Í 9. grein þeirra laga stendur:
1. Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.
2. Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi."
Í umræðunni hefur verið lagt til að vissar stéttir, opinberir starfsmenn eða prestar þjóðkirkjunnar, verði sviptar samviskufrelsinu.
Í réttarríki hlýtur að vera áhyggjuefni þegar því er gefið undir fótinn að hluti þegnanna eigi ekki að vera frjáls skoðana sinna, samvisku, sannfæringar eða trúar. Ekki hef ég heyrt lagt til hverjir eigi þá að ákveða skoðanir fólks eða vilja taka að sér að hafa samvisku fyrir það. Stundum hefur í því samhengi verið vísað til þjóðarvilja. Það var til dæmis gert í Fréttablaði dagsins. Þar tala tveir kollegar mínir um samviskufrelsi þjóðar í annars ágætri grein.
Þegar þannig er tekið til orða að þjóð hafi eina skoðun, eina sannfæringu og eina samvisku getur það vakið óþægileg hugrenningatengsl í hugum fólks.
Ég hef líka heyrt því haldið fram að menn megi ekki vera frjálsir skoðana sinna, því þær séu svo sérstakar, að réttara sé að tala um sérviskufrelsi en samviskufrelsi.
Ég held að það viðhorf sé hættulegt ef takmarka á frelsi manna til skoðana, sannfæringar og samvisku við það sem helstu álitsgjafar telja tiltölulega normal. Ef til vill er tilvist þess viðhorfs vísbending um þá hjarðmennsku sem stundum er talað um að tilhneiging sé til á Íslandi.
Enginn mannréttindasáttmáli sem ég veit um setur samviskufrelsinu slíkar skorður. Það eru mannréttindi að hafa skoðanir þótt einhverjum kunni að þykja þær stórundarlegar. Og vegna þess að hér er samviskufrelsi í heiðri haft geta samborgarar mínir ekki tekið af mér þann rétt að vera með allskonar og stundum illþolandi sérvisku.
Samviskufrelsið hefur þó sín takmörk. Það þarf að komast af í samfélagi við ýmis önnur réttindi fólks. Í lögum og mannréttindasáttmálum eru þessar takmarkanir tilgreindar en jafnframt tekið fram að ekki megi takmarka samviskufrelsið að öðru leyti. Því er litið þannig á, að ekki þurfi sérstakar aðstæður til að samviskufrelsið eigi við heldur sé því þveröfugt farið: Aðeins í sérstökum aðstæðum megi takmarka það frelsi.
Ísland verður stöðugt fjölmenningarlegra. Hér fjölgar fólki með viðhorf gjörólík þeim sem eitt sinn ríktu á þessu landi. Ég er viss um að það muni leiða til þess að á næstu árum verði umræðan um samviskufrelsið fyrirferðarmikil á Íslandi, bæði um umfang þess frelsis og takmarkanir.
Í ofangreindu riti Evrópuráðsins segir að í fjölmenningarlegri Evrópa með mörgum ólíkum trúarbrögðum sé aðkallandi að huga sérstaklega vel að vernd og framkvæmd frelsis manna til skoðana, samvisku og trúar (bls. 11).
Ekkert bendir annars en að það sé líka aðkallandi á Íslandinu okkar eigi það að geta orðið Íslandið allra.
Myndina tók ég í sumar á franskri baðströnd.
Athugasemdir
Hvaða "niðurstöðu" ertu að tala þarna um í upphafi greinarinnar?
Hvenær var komizt að þinni niðurstöðu í þessu máli?!
Og ætlarðu svo að ganga á samvizkufrelsi presta í öðrum kirkjum en Þjóðkirkjunni?
Samt er megnið af kirkjum heimsins ennþá með fullan trúnað við orð Krists í þessu efni og siðferðiskenningu Nýja testamentisins, þar sem samkynja mök teljast með alvarlegum syndum.
Jón Valur Jensson, 1.10.2015 kl. 13:05
,,Þegar prestar gegna opinberum skyldum eins og nú er, enda hefur hjúskaparvígsla lögformlegar afleiðingar, tel ég að þeir geti ekki hafnað að gefa saman pör á grundvelli kynhneigðar þeirra."
Þessa niðurstöðu innanríkisráðherra mátti lesa á forsíðu Fréttablaðsins nú í vikunni.
Svavar Alfreð Jónsson, 1.10.2015 kl. 13:14
Kletturinn Pétur sagði er hann stóð frammi fyrir öldungaráðinu: "Framar ber að hlíða Guði en mönnum". Menn geta ekki og hafa ekki rétt til að breyta því sem Skaparinn setti í lög, Hann breytist ekki og skiptir ekki um skoðun.
Hefði Guð ætlað tveim karlmönnum að lifa saman sem hjón, hefði Hann aldrei skapað konuna, hún hefði verið alveg óþörf.
Mér finnst það alvarlegt þegar presta, hvar í flokki sem þeir eru, eru tilbúnir að gefa eftir Guðs Orð til að þjóna pólitískum rétttrúnaði. Þetta er því miður orðið mjög algengt í Bandaríkjunum og nú er svo komið að barnaníðingar eru að stíga fram og krefjast réttar síns eins og samkynhneigðir gerðu.
Tómas Ibsen Halldórsson, 1.10.2015 kl. 14:47
Finnst þér mikið á "niðurstöðu" manneskju byggjandi, sem sveiflast eins og pendúll í málinu? Á Alþingi vildi hún samvizkufrelsi prestanna, en nú lætur hún undan þrýstingi Fréttablaðs, 365 miðla, Rúvaranna róttæku og "frjálslyndu" og þrýstihópa! Ekki er nú stöðuglyndinu fyrir að fara í þessum Sjálfstæðisflokki gagnvart vindganginum sem blæs á allt sem er hægra megin við vinstrið!
Og er þessi "niðurstaða" Ólafar allt í einu niðurstaða kirkjunnar? Aldeilis ekki! Spurðu séra Kristján Val, settan biskup Íslands.
Og þú talar um og ræðst á "sérvizkufrelsi"! Hin raunverulega sérvizka meðal kristinna kirkna heimsins í þessu máli er sú afstaða fárra og tiltölulega smárra kirkjusamfélaga, að gifta megi annað fólk en það, sem Kristur segir, að gefast megi í hjónaband.
Annars með góðri kveðju norður.
Jón Valur Jensson, 1.10.2015 kl. 15:02
Jón Valur Jensson skrifar að samkvæmt "siðferðiskenningu Nýja testamentisins", tejast samkynja mök með "alvarlegum syndum".
Málið er bara að samfélagið í dag er orðið það veraldlegt (secular) að það tekur EKKI MARK á siðferðiskenningum Biblíunnar, hvort sem er í GT eða NT, ef það er ekki hægt að bakka þær upp MÁLEFNALEGA, með gildum rökum og þekkingu.
"Það stendur í Biblíunni" er ekki lengur gott og gilt svar, þegar lagður er siðferðilegur mælikvarði á mannlega hegðun. Þetta gera langflestir þjónar Þjóðkirkjunnar sér grein fyrir.
Skeggi Skaftason, 1.10.2015 kl. 17:21
En það er svo sannarlega "hægt að bakka þær (siðferðiskenningar Biblíunnar) upp MÁLEFNALEGA, með gildum rökum og þekkingu," nútímaþekkingu, nota bene.
"Skeggja Skaftasyni" (sem er ekki sem slíkur í þjóðskrá, þótt hans rétta föðurnafn sé talið byrja á sömu þremur stöfunum) skal bent á heilsufræðileg rök sem er að finna í þessari grein minni: Séra Bjarni fantaserar um heilnæmi samkynhneigðar (ásamt tilvísunum þar og umræðum).
Jón Valur Jensson, 1.10.2015 kl. 22:57
Hver hefði trúað því að kristni færi að snúast að mestu um andstöðu við samkynhneigða, þökk sé kumpánum eins og JVJ.
Þannig er staðan í dag þegar talað er um kristni, ó það er þessu hópur sem er á móti mannréttindum fyrir samkynhneigða, já og líka á móti vísindum sem styðja ekki við sköpunarsögu biblíunnar :)
DoctorE (IP-tala skráð) 2.10.2015 kl. 08:56
Kristindómur snýst um daglega hugsun í trú, bænahald, þ.m.t. fyrirbæn, og að bæta sjálfan sig, kirkjugöngur, aðra guðrækilega iðkan, uppeldi barna í trú og "að bera ávexti samboðna iðruninni", þ.e. miskunnar- og önnur góðverk hins kristna manns.
Varnir kristins manns fyrir frelsi kirkjunnar gegn ytri ásókn, sem og að vinna gegn því, sem sannur kristindómur varar við sem siðferðisupplausn, það er ekki eins meðal hins eiginlega kristna lífs, en þau verkefni banka þó óneitanlega upp á í þjóðfélagi kröfuhörku og margs konar tíðaranda. Þá er hverjum skynsömum manni eðlilegt að hafa þessi margreyndu sannindi hugföst: "Að standa ekki gegn villu er að samþykkja hana -- að verja ekki sannleikann er að brjóta hann á bak aftur."
Já, sannleikurinn skiptir oft höfuðmáli, og einnig í þágu hans verða kristnir menn að gefa kost á sínum starfskröftum.
Jón Valur Jensson, 3.10.2015 kl. 15:55
Hér hefði mátt bæta við: lestri og rannsóknum í Biblíunni og samfélaginu við aðra, oft í gleði og söng, um trúna og bræðralagið, m.a. í kringum Guðsdýrkunina, sem og lofgjörðinni og þakkargjörðar-þjónustunni. Dýpst inni finna menn svo gildi djúprar speki og mystískrar innlifunar sem bestu höfundar guðrækilegra rita (að ógleymdum þeim bibíulegu) geta hjálpað okkur að finna fyrir og meta. Það gerist einna sízt í hávaða dagsins.
"Be still, and know that I am God." (Sálm.46.11, KJV, sbr.37.7)
Guð sjálfur er miðdepill jafnt sem orkugjafi kristinnar trúar.
Í Biblíunni eru margar sköpunarsögur, sumar þeirra í Davíðssálmum, en nálgast allar sama sannleika með mismunandi kastljósum og aðferðum.
Jón Valur Jensson, 4.10.2015 kl. 04:09
Þessi FÁDÆMAGÓÐI pistill Sigurðar Ragnarssonar slær vopnin úr höndum hinna róttæku: http://jonvalurjensson.blog.is/.../jonvalu.../entry/2049270/ ( = Snilldarpenni um fyrirhugaða sviptingu samvizku- og atvinnufrelsis frá kenningartrúum Þjóðkirkjuprestum).
Jón Valur Jensson, 4.10.2015 kl. 10:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.