Aðskilnaður ríkis og kirkju

DSC_0612 (2)
Ég er ekki á móti aðskilnaði ríkis og kirkju. Ég held þvert á móti að nauðsynlegt sé, bæði fyrir kirkjuna og ríkið, að endurskoða þessi tengsl og skerpa skilin á milli þessara tveggja aðila. Stórt skref í þá átt var stigið árið 1997, með lögum um stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar, þar sem tekið er fram í fyrstu grein, að íslenska þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag.

En betur má ef duga skal. Þjóðkirkjan treystir sér ekki alveg til að ganga ein og óstudd því strax í næstu grein stöðulaganna segir að ríkisvaldinu beri að „styðja og vernda þjóðkirkjuna“. Sú lagagrein sýnir ennfremur að ríkið virðist heldur ekki tilbúið að sleppa hendinni af þjóðkirkjunni.

Ég tel það þjóðkirkjunni fyrir bestu að hún hafi sitt á hreinu, þar með talin hin fjárhagslegu tengsl við ríkið.

Og ég treysti kirkjunni alveg til að standa á eigin fótum. Þar er unnið metnaðarfullt starf af hæfileikaríku fólki. Fáar fjöldahreyfingar á þessu landi eiga á að skipa jafn fjölhæfu liði sjálfboðaliða og þjóðkirkjan.

Mér sýnast menn ekki á einu máli um hvað felist í því að skilja að ríki og kirkju. Sumir halda því fram að sá aðskilnaður hafi þegar átt sér stað. Aðrir telja að á meðan fjármagn renni til kirkjunnar úr ríkissjóði sé ekki hægt að tala um að aðskilnaður hafi farið fram. Enn aðrir segja að til að skilja að ríki og kirkju verði að nema úr gildi 62. grein stjórnarskrárinnar um þjóðkirkju Íslands.

Allt eru þetta sjónarmið sem taka verður tillit til og þjóðin verður að ræða. Því miður sýnist mér aðskilnaðarmálið að mörgu leyti orðið að pólitísku sælgæti sem stjórnmálaöfl veifa til að höfða til ákveðinna hópa í samfélaginu. Umræðan helgast af því markmiði.

Auk þess sem þegar hefur komið hér fram finnst mér mikilvægt að eftirfarandi sjónarmið verði rædd:

Í fyrsta lagi útilokar aðskilnaður ekki að ríki og kirkja geti haldið áfram að eiga gott samstarf. Aðskilnaður ríkis og kirkju þarf heldur ekki að hafa í för með sér að ríkinu sé óheimilt að styðja og styrkja kirkjuna eins og önnur frjáls félagasamtök fjárhagslega og með öðrum hætti telji það ástæðu til. Sumstaðar í löndunum í kringum okkur er samvinna ríkis og kirkju enn meiri en hér þótt þar hafi verið formlega skilið á milli þeirra aðila.

Í öðru lagi felur aðskilnaður ríkis og kirkju ekki í sér að þeir aðilar geti ekki gert samninga sín á milli eins og tveir sjálfstæðir aðilar, þar með talið um meðferð jarðeigna og innheimtu félagsgjalda.

Í þriðja lagi heldur þjóðkirkjan áfram að vera Þjóðkirkja þótt sambandi ríkis og kirkju sé breytt. Sérstaða þess trúfélags er þá ekki lengur fólgin í lagalegri stöðu þess heldur því, að um fjölmennasta og útbreiddasta trúfélag landsins er að ræða – reyndar eina mestu fjöldahreyfingu landsins. Meðan svo er felast í því bæði tækifæri og ábyrgð. Þjóðkirkjan mun eftir sem áður halda úti þjónustu í dreifðum byggðum landsins, á sviðum trúar, menningar og líknarstarfs. Á Þjóðkirkjunni munu halda áfram að hvíla skyldur varðandi varðveislu menningarlegra og sögulegra verðmæta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Sæll Svavar Alfreð.

Þetta er hófstillt og skynsöm grein hjá þér og ég held að ég sé nokkurn veginn sammála flestu eða öllu. Ég set þó einn stóran fyrirvara:

Vissulega geta ríki og kirkja gert með sér samninga, EN samningur sem felur í sér að allir prestar séu ríkisstarfsmenn og laun þeirra séu beinlínis ákvörðuð af ríkisvaldinu, það er samningur sem felur í sér ríkisvæðingu kirkjunnar. 

Einar Karl, 26.10.2015 kl. 15:59

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri Svavar Alfreð.

Aðskilnaður er alger og búinn að vera þar sem slitið var endanlega á þau sára- sáralitlu tengingar sem eftir lifðu 1997. Ríkið á ekki krónu í þjóðkirkjunni né greiðir það rekstrarkostnað hennar.

Einu fjármunirnir sem renna til þjóðkirkjunnar eru eins og til allra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga þessa lands þar sem ríkið tók að sér innheimtu félagsgjalda meðlima félaganna eins og kemur skírt fram í lögum um sóknargjöld frá 1987. Hins vegar eru kauleigugreiðslur vegna kaupsamnings milli ríkisins og þjóðkirkjunnar samanber lög 1997, á hátt í  700 jörðum,en sá samningur hófst sem leigusamningur samanber lög 1907.

Þessu er ruglað saman við óskyld mál í umræðunni og sætir furðu hve illa margi prestar og kirkjuþings eru fákunnandi í þessum efnum.

Stjórnarskráratriðið er ekki merkilegra en það að forseti Íslands er verndari Rauða krissins og fleiri félaga og það án þess að greiðslur komi þar til. Þetta atriði er frekar á þann veginn að þjóðkirkjan styður án gjaldtöku með ýmsum hætti þegna þessa lands hvar í trúflokki sem þeir standa.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.10.2015 kl. 16:16

3 Smámynd: Einar Karl

Tökum smá dæmi:

SÁÁ eru sjálfstæð félagasamtök. Þau eru vissulega með sérstakan samning við ríkið um að sinna ákveðinni heilbrigðisþjónustu, og fá fyrir það greiðslur úr ríkisjóði.

Segjum nú sem svo að SÁÁ myndi afhenda ríkinu öll yfirráð yfir jörðinni Staðarfelli á Fellsströnd og fleiri jörðum, en í staðinn myndu ALLIR starfsmenn SÁÁ verða ríkisstarfsmenn, væru þá SÁÁ lengur "sjálfstæð" félagasamtök??

Einar Karl, 26.10.2015 kl. 17:24

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, og takk fyrir athugasemdirnar.

Ég sé ekkert mæla gegn því að ríkið geti gert samning við frjáls félagasamtök þar sem það tekur að sér að greiða laun einhverra starfsmanna þeirra, beint eða óbeint.

Kirkjujarðasamkomulagið gengur hvorki út á að ríkið greiði laun allra starfsmanna þjóðkirkjunnar né að þeir verði allir ríkisstarfsmenn heldur er um að ræða ákveðinn fjölda starfsmannanna sem tilgreindur er í samningnum.

Ég er ekki viss um að skynsamlegt sé að kirkjan ákvarði laun þeirra starfsmanna sem ríkið á að greiða en mér finnst eðlilegt að prestar kirkjunnar séu starfsmenn hennar en ekki ríkisins.

Hér er slóð á kirkjujarðasamninginn:

http://www.innanrikisraduneyti.is/utgefid-efni/ymislegt/nr/674

Svavar Alfreð Jónsson, 26.10.2015 kl. 18:18

5 Smámynd: Einar Karl

Jú ég kannast við kirkjujarðasamninginn. En ég vil nú meina að sá samningur sé einmitt helsti þátturinn sem gerir Þjóðkirkjuna að ríkiskirkju. En Þjóðkirkjan VILL þetta fyrirkomulag, því Þjóðkirkjan VILL vera ríkiskirkja, því Þjóðkirkjan telur að það þjóni sínum hagsmunum best.

Einar Karl, 26.10.2015 kl. 21:41

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

 Heill og sæll aftur, Einar Karl! Umræddur samningur nefnist Samningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Eins og bæði nafn hans og efni gefa til kynna er hann á milli tveggja aðila, annars vegar íslenska ríkisins og hins vegar þjóðkirkjunnar. Það væri varla hægt ef þjóðkirkjan væri hluti af ríkinu eins og stundum er gefið í skyn að sé.

Hitt er álitamál hvernig best sé að haga samskiptum þessara tveggja aðila. Mér sýnist við að minnsta kosti vera sammála um að þar mættu vera skýrari línur og mörk.

Mér finnst ekkert óeðlilegt við að sjálfstætt trúfélag eins og þjóðkirkjan vilji fara þannig með eignir sínar að þær þjóni best hagsmunum eigandans því til þess hljóta þær að vera. Menn getur á hinn bóginn greint á um með hvaða hætti það sé tryggt og hverjir hagsmunirnir séu.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.10.2015 kl. 22:59

7 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Einar Karl

Ertu ríkisstofnun ef þú selur tíkinu húsið þitt ?  Það er ekki annað að skilja á þér með síðasta innleggi þínu.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.10.2015 kl. 23:00

8 Smámynd: Óli Jón

Svavar: Af hverju ætti ríkið, eftir aðskilnað, að sjá um innheimtu félagsgjalda fyrir kirkjuna? Hvaða rök eru fyrir því að slíkt sé eðlilegt? Að því er ég best veit innheimtir ríkið ekki félagsgjöld fyrir nein önnur félagasamtök í dag en trúfélög. Hvað er það við félaga í þessum félögum sem gerir aðkomu ríkisins að innheimtu félagsgjalda nauðsynlega? Ég veit að þetta fyrirkomulag er þægilegt og skilvirkt, en af hverju virðist það nauðsynlegt?

Óli Jón, 28.10.2015 kl. 12:48

9 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég tel ekki nauðsynlegt að ríkið innheimti félagsgjöld fyrir kirkjuna. Kirkjan gæti alveg séð um það sjálf eins og hún raunar eitt sinn gerði. Ég sé á hinn bóginn ekkert mæla gegn því að hið opinbera annist þessa innheimtu fyrir trú- og lífsskoðunarfélög náist um það samningar. Það tíðkast víða í nágrannalöndum þótt þar hafi formlega verið skilið að á milli ríkis og kirkju og misjafn hátturinn sem hafður er á þeirri innheimtu. Í Þýskalandi annast hið opinbera til dæmis innheimtu á kirkjuskatti. Mig minnir að skattayfirvöld viðkomandi sambandslanda annist hana.

Svavar Alfreð Jónsson, 28.10.2015 kl. 13:48

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Óli Jón

Það er búið að segja þér þetta í tuga skipta og sergja þér allt um málið. Hvenær hættir þú að berja höfðinu við steininn ?

Þú þekkir söguna mæta vel, en kýst að þyrla stöðugt upp rykinu í þeim eina sýnilega tilgangi að reyna að koma höggi á kristni, sérstaklega þjóðkirkjuna, og sömuleiðis hlýtur maður eftir öll þessi ár að þú sért að þessu til að sá illum fræjum blekkingar til þeirra sem ekki vita betur. Aðra ályktun er vart hægt að draga út frá þessu öllu hjá þér.

Þú veist að félagsgjöldin/sóknargjöldin innheimtu trúfélög sjálf. Sér til þæginda fengu ýmsir söfnuðir þjóðkirkjunnar sýslumenn og gjaldheimtuna í Reykjavík til þes að innheimta fyrir sig sóknargjöldin gegn þóknun.

Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp 1987 óskaði Jón Helgason ráðherra eftir því að semja um þetta mál sem endaði með lögunum um sóknargjöld frá 1987. Samkvæmt þeim lögum innheimtir ríkið félagsgjöld/sóknargjöldin í gegn um skattkerfið eins og fram kemur í lögunum sem og greinargerð þeirri sem fylgdi.

Það eru fáir sem gagnrýnma það fyrir utan ykkur fáeina sem hafið hátt í blekkingarskyni.

Þið ættuð frekar að vinna að boðun ykkar eigin rúar heldur en að vera níða skóinn af öðrum. Vinnið ykkur fylgi án rætinnar umræðu um aðra með ósannindi jafnt sem hálfsannleik að vopni.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 28.10.2015 kl. 13:48

11 Smámynd: Einar Karl

Það er rétt að í nokkrum nágrannalöndum okkar sér ríkið um innheimtu sóknargjalda-trúfélagaskatts, t.d. í Danmörku og Þýskalandi. Munurinn við Ísland er að í þessum löndum er raunverulega innheimtur sérstakur skattur. Það er ekki gert hér. Íslenska ríkið innheimtir engin sóknargjöld.

Hef skrifað um þetta nokkrum sinnum, t.d. hér:

http://www.visir.is/rikid-innheimtir-ekki-soknargjold/article/2013708089963

Einar Karl, 29.10.2015 kl. 10:48

12 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Einar

Þú  virðist vera læs, en þó  ekki þér til fulls gagns. Lestu lögin um sæiknargjöld og greinargerðina með þeim. Þá kemstu að því að ríkið á að innheumta sóknargjöld. Ef það er eitthvað málum undirorpið þá er ekki trúfélögunum um að kenna hekdur framkvæmd ríkisins á því. Hengdu nú ekki bakara fyrir smið.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 29.10.2015 kl. 12:32

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

,,Þjóðkirkjusöfnuðir, skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög, nr. 18/1975, og Háskólasjóður skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, sbr. lög nr. 49/1987, eftir því sem lög þessi ákveða.... Á árinu 1997 skal gjaldið vera 400,24 kr. á einstakling á mánuði. Á árinu 1998 og síðar ákvarðast gjaldið af endanlegri ákvörðun gjaldsins frá fyrra ári, að viðbættri hækkun er samsvarar þeirri hækkun er kann að verða á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan gjaldári.
Nú verða gerðar breytingar á útreikningi tekjuskattsstofns og skal þá taka tillit til þess við ákvörðun gjaldsins hverju sinni. Hækkun á gjaldi samkvæmt þessari grein skal ákvarðast af kirkjumálaráðherra í samræmi við upplýsingar frá ríkisskattstjóra …2) eigi síðar en 1. ágúst ár hvert. Þar til ákvörðun þessi liggur fyrir skal ráðherra ákveða uppígreiðslu gjaldsins fyrir mánuðina janúar til júlí ár hvert á grundvelli spár um tekjuþróun tveggja næstliðinna ára.“

Úr Lögum um sóknargjöld o. fl. nr. 91/1987, sjá:

https://www.althingi.is/lagas/130b/1987091.html

Svavar Alfreð Jónsson, 29.10.2015 kl. 12:57

14 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Í greinargerðinni kemur skírt fram, sem og í nafni laganna, að um er að ræða að ríkið taki að sér innheimtu sóknargjalda eins og samið var um í nefndinni sem ráðherra skipaði.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 29.10.2015 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband