365 spámiðlar

DSC_0568

Á sjónvarpsstöð 365 miðla, Stöð 2, hafa menn tekið sér fyrir hendur að fletta ofan af spámiðlum og saka þá um svik og pretti.

Í dagblaði 365 miðla, Fréttablaðinu, er stór hluti hvers blaðs reglulega helgaður „fréttum“  af smyrslum, kremum, töflum og elexírum, sem eiga að vera bót allra meina og lækna allskonar sjúkdóma. Þessum tíðindum er mokað inn á stóran hluta heimila landsmanna endurgjaldslaust.

Í Fréttablaðinu í dag er til dæmis fjallað um rauðrófuhylki sem eiga að lækna hand- og fótkulda og auka snerpu og úthald.

Í blaðinu í gær var viðtal við konu sem sagði að með því breyta til á heimilinu og koma þar fyrir allskonar smáhlutum, „búddastyttum og öðrum trúartáknum“, komi inn „ný og góð orka sem eykur vellíðan“.

Í síðustu helgarútgáfu Fréttablaðsins var hálf síða tileinkuð fréttaflutningi af hinum mögnuðu Melissa-Dream töflum sem fá fólk til að sofa betur og vakna endurnært. Þar að auki stuðla töflurnar að „eðlilegri vöðvastarfsemi“ eins og það er orðað í blaðinu.

Hinn helming umræddrar  blaðsíðu nýttu 365 miðlar til að upplýsa fávísan almenning um kynngi Femarelle-hylkjanna. Þau laga verki í liðamótum og bæta meltinguna. Viðmælandi blaðsins var hættur að geta heklað og prjónað en er nú orðinn fær um það á ný, þökk sé Femarelle-hylkjunum.

Ekki er nema vika síðan Fréttablaðið flutti Íslendingum allítarlegar fréttir af fæðubótarefninu Norðurkrilli. Verkan þess er ótrúlega öflug ef mark er takandi á fyrirsögn fréttarinnar sem blasti við rauðeygðum lesendum Fréttablaðsins þegar það var opnað við morgunverðarborðin:

Laus við kvef og veikindi

Ekki er nóg með að Krillið losi menn við veikindi. Notandi efnisins segir í viðtali við Fréttablaðið að auk þess finni hann síður fyrir augnþreytu eftir að hann byrjaði að taka tvö hylki af Norðurkrilli á dag.

Hvernig væri heilsufar þjóðarinnar ef 365 miðlar og Fréttablaðið fjölluðu ekki reglulega um öll þessi undraefni?

Þess ber að geta að ofangreindar fréttir birtust allar í Fréttablaðinu á síðustu sjö dögum.

Ég  óska 365 miðlum góðs gengis í baráttu fyrirtækisins gegn hindurvitnum og falslækningum.

Megi Mátturinn vera með þeim.

Myndin: Ég trúi því að útivist á fallegu októberkvöldi bæti heilsuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Hahaha - góður kæri Svavar Alfreð.

Ég tek undir með því sem þú ert að koma hér frá þér. Mikið er ég feginn því að fyrir einhverja Guðs náð þá sleppir blaðburðurinn því að setja Fréttablaðið inn um lúguna hjá mér. Ég sé einstaka sinnum eitthvað sem þar birtist þó á visir.is þegar ég slysast þangað inn.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 4.11.2015 kl. 03:13

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Tvískinnungur er algengur, sérstaklega í bissness.

Jón Ingi Cæsarsson, 4.11.2015 kl. 11:25

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það er vissulega siðferðislega rangt að græða á svona loforðum sem enginn getur sýnt fram á að virki, jafnvel þó svo að það sé óbeint eins og hjá 365.

Og þá held ég að það skipti ekki máli hvort að loforðið sé samband við framliðna, lækning á fótakulda eða eilíft líf.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 4.11.2015 kl. 11:34

4 identicon

Velti fyrir mér hvort 365 miðlar rukki fyrir þessi heilræði eða auglýsingar?

Guðmundur Ómar Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.11.2015 kl. 13:34

5 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Ofannefnd femarelle hylki prófaði ég til að koma mér áfallalítið í gegnum umbreytingar þær sem tíðahvörf valda margri kerlunni. Skemmst er frá því að segja, að sár á fæti eftir smávægilega aðgerð tók fjörkipp og viðhélst lengi vel, en hafði nánast gróið þegar inntaka nefndra hylkja hófst. Einnig fékk ég munnangur, sem var bara samferða sárinu á fætinum og hvarf þegar ég lagði töfralyfir frá mér fyrir fullt og fast. Svo beið ég (misjafnlega þolinmóð) þangað til búkur og sál fundu jafnvægi á eigin forsendum.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 4.11.2015 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband