2.12.2015 | 11:26
Drulluhrædd
Nýlega lásum við fréttir af reykvískri konu sem vildi ekki leigja palestínskri kynsystur sinna litla íbúð vegna þess að sú palestínska var íslamstrúar. Kvaðst íbúðareigandinn vera drulluhræddur við múslima eins það var svo hreinskilnislega orðað.
Þessar vikur eftir hryðjuverkin í París hefur óttinn í sínum fjölbreytilegu myndum verið eitt helsta þemað í umræðunni. Saga mannsins er full af skelfilegum atburðum. Hún sýnir að við höfum nóg að óttast. Við getum verið drulluhrædd við ótalmargt. Auk hryðjuverkanna er til dæmis hægt að hræðast náttúruhamfarir, flugslys, hlýnun jarðar, krónuna, Evrópusambandið og framsóknarmenn.
Um síðustu helgi benti einn pistlahöfundur Fréttablaðsins á þá augljósu hættu sem af því og öðrum blöðum stafar; þegar þeim er flett getur pappírinn skorið lesendur í fingurna sem í ákveðnum tilfellum getur valdið banvænum sýkingum.
Í blaðaviðtali í síðasta mánuði segir íslenskur metsöluhöfundur:
Gleymum því ekki að þó að Þjóðkirkjan sé núna eins og úlfur í sauðargæru, þá er þetta úlfur. Þetta er fyrirbæri sem hefur stórskaðað okkur í aldanna rás og valdið ómældum hörmungum. Þó þeir sýnist vilja bæta sig núna þá byggir þetta á trúarbrögðum sem eru ekki falleg. Og það er vandamálið."
Íslenska Þjóðkirkjan er meðal þess sem áhrifamiklir menn segja okkur að óttast og þessa dagana vinsælt er að ala á ótta við trúað fólk og trúarbrögð.
Í innsetningarræðu sinni árið 1933 sagði forseti Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt, að hans bjargfasta trú væri, að það eina sem þjóð hans þyrfti að óttast væri óttinn sjálfur.
Við getum lifað lífinu í ótta. Við getum litið á alla múslima sem líklega hryðjuverkamenn. Við getum litið á alla presta sem líklega barnaperra. Við getum litið á alla stjórnmálamenn sem líklega svindlara, alla kaupmenn sem líklega gróðafíkla og allt trúað fólk sem líklega öfgamenn.
Við getum látið vantraustið og óttann naga okkur að innan og naga síðan í sundur öll tengsl í þessu þjóðfélagi, þar sem allir vantreysta öllum og búast ekki við neinu nema því versta af náunganum.
Óttaboðendur heimsins hafa nokkuð til síns máls. Því er ekki að neita að Vesturlönd eiga óvini og fjandmenn. Til er fólk sem fyrirlítur lög þessa heimshluta, rétt, trú, siði, menningu og viðhorf. Og vegna þess að slík andúð er til reynist auðvelt að næra óttann, viðhalda honum og magna hann upp.
Saga mannsins sýnir ennfremur að verði með einhverjum hætti hörgull á raunverulegum óvinum er lítið mál að búa þá til. Fátt er vænlegri söluvara en óvinir og andskotar. Í Þriðja ríkinu voru það gyðingarnir sem urðu blórabögglarnir og uppspretta alls ills. Á tímum mcarthyismans í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar voru það kommúnistarnir. Nú virðist í okkar heimshluta þörf á að æsa upp ótta fólks við múslima og heimilislausar og stríðshrjáðar manneskjur.
Og í vissum kreðsum á Íslandi sér fólk rætur okkar helstu meina í Þjóðkirkjunni og trúarbrögðunum.
Myndin er af aðventunni eins og hún kom mér fyrir sjónir fyrr í morgun.
Athugasemdir
Góður pistill hjá þér en mi langar til að spyrja þig að einu útaf konunni sem vildi ekki leigja íbúðina til palentískrar konu.
Ef að til þín kæmu tvær konur og vildu leigja íbúðina þína, önnur þeirra væri Kristin og lifði samkvæmt kenningum Krists, hin væri Íslams trúar og lifði samkvæmt kenningum Múhaðmeðs.
Hvorri konunni myndir þú leigja íbúðina þína?
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.12.2015 kl. 18:54
Þetta eru mjög litlar kreðsur, Svavar, og 93% Íslendinga segjast vera kristnir. Þeir eindregið trúlausu eru mjög fámennir, en þeim mun stórmynntari á netinu!
En ekki er hægt að álasa þessari blessuðu hræddu konu, sem þú nefnir fremst í pistlinum. Ekki verður hún sótt til saka fyrir hræðslu sína! og ekki tilneydd til að fá einhvern leigjanda gegn vilja sínum.
Jón Valur Jensson, 2.12.2015 kl. 19:40
Þakka athugasemdirnar. Ætli ég myndi ekki leigja þeirri konu íbúðina sem mér litist þannig á að hún gengi sómasamlega um og borgaði leiguna á réttum tíma?
Svavar Alfreð Jónsson, 2.12.2015 kl. 21:57
Veit ekki betur en það sé í tísku að birta vandamálasögur,um ofbeldi og hverskonar mistök,svo manni finnst nóg um.Það einnig skylda heilbrigðisyfirvalda að vara við allskonar sýkingum sem eru alltaf á leiðinni til Íslands.Það úir og grúir af kreppu spádómum,jarðskjálftum,flóðum. Svo fá blessaðir veðurfræðingarnir orð í eyra ef þeir vara við ofsa hvassviðri sem ekki gengur eftir og menn lögðu ekki í,ann.Það er nú svo að fréttamenn vilja upplýsa um væntanlegar vár,og spyrja lærða menn spjörunum úr,oftast eru þeir afar skýrmæltir og draga úr akademiskum heitum,þannig að sá sauðsvarti skilur það betur.Þökk sé þeim.
Helga Kristjánsdóttir, 3.12.2015 kl. 02:57
Ef ég færi út í að leigja íbúðina mína þá er það klárt að ég myndi ekki einu sinni spyrja hvaða trúarhóp væntalegur leigjandi tilheyrði.
Það er bara fornt ættbálkakjaftæði að spá í slíku.
DoctorE (IP-tala skráð) 3.12.2015 kl. 09:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.