Major Tom í Akureyrarkirkju

DSC_0492

Í guðsþjónustunni í Akureyrarkirkju í morgun veltum við fyrir okkur því að veruleikinn er ekki allur þar sem hann er séður. Fleira er um hann að segja en rúmast í niðurstöðum vísindanna. Ævafornar sagnir trúarbragðanna um uppruna heimsins geta brugðið ljósi á tilvist mannsins - líka þótt þær samrýmist ekki náttúruvísindalegum kenningum.

Þess vegna höfum við listir. Ein verkan listarinnar felst í því að setja fyrirbærin í ný samhengi og fá okkur til að skoða þau í nýju ljósi. Listin er afhjúpandi og ummyndandi og ekki síður þörf en vísindin í menningarlegu og siðuðu  samfélagi.

Listþörf mannsins, sú árátta hans að þurfa að skapa og láta sér ekki nægja veruleikann eins og hann er heldur ummynda hann er ein vísbending um að maðurinn sé andleg vera.

Í kirkjunni erum við umvafin listum. Fáar stofnanir eru listinni háðari en hún. Tilbeiðsla kirkjunnar væri fátækleg og innantóm ef ekki nyti við listanna, t. d. ritlistar, myndlistar og tónlistar.

Gætum við hugsað okkur margar mikilvægustu athafnir lífsins, skírnir, fermingar, giftingar og útfarir, án aðkomu listarinnar?

Í guðsþjónustunni í morgun heyrðum við fallega sálma og forna texta sem eru svo vel ígrundaðir, hugsaðir og skrifaðir að þeir tala inn í líf okkar árið 2016 þótt árþúsund séu síðan þeir voru samdir. Við hlustuðum líka á gamla tónlist og nýja sem lyfti hugum í hæðir.

Sveskjan í sperðilendanum var útspil þeirra fósturfeðga Birkis Blæs Óðinssonar gítarista og Eyþórs Inga Jónssonar organista. Þeir fluttu okkur lagið Space Oddity eftir David Bowie til að minnast hans og þakka það sem hann gaf okkur. Sá tónlistarflutningur var hreint út sagt dásamlegur.

Þegar út var komið blasti við okkur það sem sést á myndinni hér fyrir ofan.

Soli Deo gloria!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Svavar.

Ber að skilja þetta svo að lokið sé nú
þeim guðdómlega helgileik sem svo mjög
hefur verið mærður og rómaður um jólahátíðina
jafnt í fjölmiðlum sem af þjónandi prestum Þjóðkirkjunnar
á Akureyri?

Húsari. (IP-tala skráð) 18.1.2016 kl. 01:19

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Bowie var tvíkynheigður. Hann var líka lauslátur, að minnsta kosti þangað til hann giftist Iman, hafði áhuga á ýmiskonar kukli og drabbaði eins og gengur.  Hvað segir Bíblían um það? Lítum í fyrsta Kórintubréfið:

"Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa" (6:9-10).

Þetta eru fremur kaldar kveðjur, ekki satt?

Wilhelm Emilsson, 18.1.2016 kl. 04:06

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

 „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ (Mk 2.17)

Svavar Alfreð Jónsson, 18.1.2016 kl. 08:10

4 Smámynd: Stefan

Wilhelm, þetta eru ekki kaldar kveðjar, þú ert að miskilja ritningarnar.

Ranglátir eru þeir sem ekki trúa á Jesús en þeir sem eru réttlættir hafa játað trú sína á Jesús og þetta er algjörlega óháð verkum þeirra, það er verk Guðs að réttlæta hvern þann sem trúir á Drottinn Jesús. Það er hvergi talað um að Guð refsi þér fyrir syndir þínar. Hann refsaði syni sínum fyrir syndir þínar

Páll er að áminna söfnuðinn í kórintu vegna þess að maður í söfnuðinum var að sofa hjá konu föður síns, þessvegna hvetur hann söfnuðinn að láta manninn ganga úr söfnuðinum í einhvern tíma. "Það er mér sagt að saurlifnaður eigi sér stað á meðal yðar, og það slíkur saurlifnaður, sem jafnvel gerist ekki meðal heiðingja, að maður heldur við konu föður síns."

Þessi maður sem Páll var að tala um í kaflanum sem þú notar, heldurðu að hann hafi farið til helvítis og glatað frelsun sinni? 

Stefan, 18.1.2016 kl. 17:10

5 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir athugasemdina, Svavar. Er fólk sem ekki er gagnkynhneigt syndarar að þínu mati?

Stefan, takk fyrir hugleiðingarnar. Ég er bara að vitna í ritningarnar.

Í Fyrra Kórintubréfinu stendur: Og þetta voruð þér [saurlífismenn, o.s.frv.], sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs (6:11).

En ef menn láta ekki laugast, hvað verður um þá? Þeir munu ekki erfa Guðs ríki.

Þú skrifar: "Það er hvergi talað um að Guð refsi þér fyrir syndir þínar."

Samkvæmt Bíblíunni eyddi Guð mannkyninu, nema Nóa og fjölskyldu, í Syndaflóðinu. Og þegar Mannssonurinn kemur mun eftirfarandi gerast, samkvæmt Matteusarguðspjalli: 

"Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín' " (25:40-43). 

Þetta getur varla verið skýrara.

Wilhelm Emilsson, 19.1.2016 kl. 05:55

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

,,Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð," segir í Rómverjabréfinu. Ég held að það sé rétt og kynhneigð skipti þar engu máli.  Og takk fyrir spurninguna. Ég bendi þó á að pistillinn fjallar um mikilvægi lista og David Bowie.

Svavar Alfreð Jónsson, 19.1.2016 kl. 08:14

7 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir svarið, Svavar. Efni pistilsins er mikilvægt og gott að heyra að tónlist Davids Bowie var metin að verðleikum af þér og kirkjugestum.

Þú skrifaðir: 

Í guðsþjónustunni í Akureyrarkirkju í morgun veltum við fyrir okkur því að veruleikinn er ekki allur þar sem hann er séður. Fleira er um hann að segja en rúmast í niðurstöðum vísindanna. Ævafornar sagnir trúarbragðanna um uppruna heimsins geta brugðið ljósi á tilvist mannsins - líka þótt þær samrýmist ekki náttúruvísindalegum kenningum.

Þess vegna höfum við listir. Ein verkan listarinnar felst í því að setja fyrirbærin í ný samhengi og fá okkur til að skoða þau í nýju ljósi. Listin er afhjúpandi og ummyndandi og ekki síður þörf en vísindin í menningarlegu og siðuðu  samfélagi.

Ég skil hvað þú ert að fara hér auðvitað, en að mínu mati eru listir og vísindi ekki endilega andstæður. Vísindi, sem byggjast á gagnrýnni hugsun, geta verið ekki síður "afhjúpandi og ummyndandi" en listir. Gott dæmi um þetta eru kenningar Darwins, sem leiddu til endurskoðunar á stöðu og eðli mannkyns.

En það er líka alveg rétt að list og trú tengjast.

 

Wilhelm Emilsson, 19.1.2016 kl. 19:54

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Að sjálfsögðu eru listir og vísindi ekki andstæður og auðvitað geta vísindin verið bæði afhjúpandi og ummyndandi. Takk fyrir að árétta það!

Svavar Alfreð Jónsson, 19.1.2016 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband