24.10.2016 | 22:13
Ótrúleg undrun
Bókin sem ég er á náttborðinu mínu núna er ein sú fallegasta sem ég hef lesið. Hún er eftir þýska rithöfundinn Navid Kermani. Hann er fæddur í Þýskalandi, sonur íranskra innflytjenda. Kermani er múslimi en í nýjustu bók sinni fjallar hann um kristna trú með því að skoða hinn ríka myndlistararf kristninnar.
Bókin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og fékk í fyrra friðarverðlaun þýska bóksalasambandsins. Einn gagnrýnenda orðaði það þannig að Kermani hefði með bókinni kynnt kristindóminn fyrir Þjóðverjum á nýjan leik, trúarbrögð, sem væru orðin stórum hluta þjóðarinnar framandi, enda búið að hola trúarlega merkingu innan úr helstu lykilhugtökum þeirra, þótt orðin væru notuð í daglegu lífi sneydd innihaldi sínu. Í bók sinni gæðir Kermani þau hugtök merkingu og lífi á ný.
Það er ótrúlega gefandi að mega skoða trú sína með glöggum augum gestsins. Kermani fer ekki venjulegar leiðir og stundum óvæntar en fjallar af mikilli væntumþykju um viðfangsefni sitt. Þótt hann játi ekki kristna trú leyfði hann sér að dást það mikið að henni að hann valdi bókinni heitið Ungläubliches Staunen (Ótrúleg undrun).
Í samfélagi fjölmenningar dafna ólíkir menningar- og trúarhópar. Þar gefum við og þiggjum. Þessi bók er ein blessun fjölmenningarinnar.
Skömmu eftir komu flóttamannanna frá Sýrlandi hingað til Akureyrar kom Akureyrarkirkja þeim skilaboðum til þeirra, að ef þörf væri á aðstöðu til helgihalds eða samkoma, stæði þeim Safnaðarheimili kirkjunnar til boða. Tilboðið var þegið og um tíma komu nokkrir Sýrlendingar þar saman til föstudagsbæna. Í Sýrlandi er löng hefð fyrir friðsamlegri sambúð kristinna manna og múslima. Í spjalli við Sýrlendingana kom fram hugmynd um að segja frá þessu samstarfi trúarhópanna. Það gæti verið gott innlegg í umræðuna hér á landi. Var haft samband við Ríkisútvarpið en það sá ekki ástæðu til að fjalla um þetta framtak.
Ef til vill telst það frekar fréttnæmt ef óhróður um trúarbrögð er krotaður á vegg eða veist er að innflytjendum eða flóttafólki. Dæmin um friðsamleg samskipti fólks með ólíkan trúarlegan bakgrunn eru þó mýmörg. Í gegnum aldirnar hefur slíkt fólk búið í sömu löndunum og borgunum, virt siði hvert annars og hjálpast að í erfiðum aðstæðum.
Við Íslendingar höfum ekki langa reynslu af sambúð ólíkra menningarhópa en gætum í þeim efnum lært af öðrum, til dæmis Sýrlendingum. Það er ein ástæða þess, að við njótum góðs af því að þeir setjast hér að hvort sem það er til styttri eða lengri tíma.
Gjarnan má minna á að Sýrlendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja í því að taka á móti flóttafólki. Fáar þjóðir á okkar tímum hafa staðið sig betur í móttöku flóttamanna frá stríðshrjáðum nágrannalöndum. Þá skutu Sýrlendingar skjólshúsi yfir eina og hálfa milljón fólks sem flúði Íraksstríðið, hálfa milljón Palestínumanna og tvöhundruð þúsund Líbani. Kristnar kirkjur og hjálparstofnanir múslima unnu saman að því að sýna gestrisni og líkna þeim sem í neyð voru.
Myndina tók ég nú um helgina af fossi í Finnastaðaá. Hann fellur í gegnum steinhjarta. Í bakgrunni er Kerling, hæsta fjall Norðurlands.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.