Kirkja úr túrtöppum

DSC_0385

Í dag héldum við kirkjudag á 76 ára afmæli Akureyrarkirkju. Ég prédikaði í messunni. Hér er ræðan.

Allt frá árinu 1948 hefur klukkuspil Akureyrarkirkju leikið ferhendu Björgvins Guðmundssonar mörgum sinnum á degi hverjum. Lagið er fyrir löngu orðið hluti af hljóðsvip Akureyrar. Árið út og inn minna klukkurnar okkur á sig og kirkjuna.

„Mínir sauðir heyra raust mína,“ segir Jesús í guðspjalli dagsins. Við getum heyrt þá raust í klukkunum. Þær boða Krist með sínum hætti. Klukkurnar eru meira en opinbert tímamælitæki. Þær hafa annan tilgang – eins og fleira í kirkjum landsins. Þar eru til dæmis gjarnan góð hljóðfæri og aðstaða til kórsöngs. Þó eru kirkjurnar ekki tónleikahallir. Þar eru ræðupúlt og ræðustólar. Þó eru kirkjur ekki málstofur. Í kirkjum er mjög oft alls konar myndlist. Þó eru þær ekki sýningarsalir. Kirkjur eiga oft merkilega gripi en samt eru þær ekki söfn.

Í kirkjum heyrum við tónlist, texta og ræður og sjáum myndir í gleri, römmum og steini. Engu að síður lúta kirkjur lúta öðrum byggingarfræðilegum lögmálum en tónleikahús, fyrirlestrasalir og gallerí. Það segir okkur, að enda þótt öll þessi listform hafi tilgang í sér sjálfum eru þau hér í þessu húsi í þjónustu við annað. Allt þetta bendir á þann sem kirkjan þjónar, Jesú Krist. Allt þetta á að láta raust hans heyrast, spor hans sjást og návist hans finnast.

Kirkjur eru helgidómar. Þær eru stundum kallaðar guðshús. Kristnir menn trúa því að Guð sé úti um allt. Þó eru honum byggð hús, ekki vegna þess að hann þarfnist þaks yfir höfuðið. Kirkjuhúsin eru okkar vegna eins og aðrir heimsins helgidómar, moskur, musteri og sýnagógur. Þessar byggingar þjóna trúarþörf mannsins, eiga að hjálpa honum að upplifa helgi, finna Guð og skynja hina andlegu vídd í tilverunni og sér sjálfum.

Akureyrarkirkja er áberandi þar sem hana ber við himin á brekkubrúninni, ein hinna þokkafullu Akureyrarmeyja.  Nýlega færði listakonan Jónborg Sigurðardóttir henni gjöf, fagra mynd af kirkjunni. Myndin er búin til úr túrtöppum. Hún skírskotar til þess kvenlega, krafts tíðablóðsins, sem karlaveldinu stóð svo mikill stuggur af að lengi var illa séð ef konur komu í kirkju á meðan þær höfðu á klæðum.

Í þessu samhengi má rifja upp orðin úr Títusarbréfi: „Allir hlutir eru hreinum hreinir en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.“

Mynd Jonnu er vitnisburður um margslungna starfsemi mannslíkamans, þessa dásamlega sköpunarverks. Listaverk Jonnu bendir líka á hinn kvenlega þokka sem prýðir kirkjuna okkar. Síðast en ekki síst minnir myndin á ómetanlegt framlag kvenna, bæði til kirkjubyggingarinnar og kirkjustarfsins. Á sínum tíma kostaði það söfnuðinn mikla peninga að byggja þessa glæsilegu kirkju á erfiðum tímum. Konurnar í söfnuðinum lögðu þar sitt af mörkum með „hlutaveltum, merkjasölu, munasölu, kaffiveitingasölu, happdrættum, skemmtisamkomum og ýmsu öðru móti,” eins og Sverrir Pálsson segir í bók sinni, Sögu Akureyrarkirkju.

Sú staðreynd, að listakonan og gefandi verksins er fyrrverandi formaður Kvenfélags Akureyrarkirkju skerpir enn þessa tengingu milli verksins og hins merka starfs kvenna í þessari kirkju og í hennar þágu. Ég vil nota þetta tækifæri hér og þakka innilega fyrir þessa fallegu gjöf sem hægt er að sjá niðri í Safnaðarheimili. Við þökkum aðrar gjafir kvenna til kirkjunnar. Allar eiga þær að hjálpa okkur að heyra raust Jesú Krists, sjá fótspor hans og finna nálægð hans.

Navid Kermani er þýskur rithöfundur af írönsku bergi brotinn. Hann er múslimi, fræðimaður og rithöfundur. Kermani hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir bækur sínar og starf. Ég er að lesa nýjustu verðlaunabókina hans. Þar fræðir hann sjálfan sig og lesendur um kristna trú með því að skoða kristna myndlist. Kermani nálgast viðfangsefni sitt af mikilli þekkingu, væntumþykju og virðingu. Margt kom honum á óvart í kristninni og margt kemur kristnum lesendum hans á óvart í bók múslimans. Ekki að ástæðulausu nefnir Kermani bók sína „Ótrúleg undrun“. Það er mjög gefandi að fá að fylgjast með rithöfundi skoða kristna trú með glöggum augum gestsins. Utanfrá sést margt sem ekki er eins auðsýnilegt að innan enda hefur Kermani verið hrósað fyrir að kynna kristna trú fyrir Þjóðverjum á nýjan leik, trúarbrögð, sem eru orðin stórum hluta þeirra framandi. Einn gagnrýnandinn orðaði það þannig, að búið væri að svipta ýmis lykilhugtök kristninnar trúarlegri merkingu, hola þau að innan. Í bók sinni tækist Kermani að gæða þau merkingu og innihaldi aftur.

Í nýlegu blaðaviðtali um bók sína segir Kermani að trúin sé frekar upplifun skynfæra en vitsmuna. Þess vegna séu listirnar svo mikilvægar trúnni. Hann segir margar kirkjudeildir mótmælenda leggja of mikla áherslu á að samræma trúna skynseminni á kostnað upplifunarinnar og vanrækja hin lífsnauðsynlegu tengsl trúar og listarinnar í hennar fjölbreytilegu myndum. Ef Kermani fer í kirkju vill hann síður sitja í löngum, köldum og tilbreytingarlausum guðsþjónustum, gjörsneyddum fagurfræðilegum krafti. Til að verða fyrir trúarlegum áhrifum sé þá mun betra að hlusta á Bach-messu, Schubert-sónötu eða Mahler-sinfóníu. Kermani minnir á að það sé ekki hlutverk trúarinnar að standa fyrir réttum skoðunum, hvort sem þær snúist um réttlát launahlutföll eða neyð flóttafólks. Ekki bara trúaðir telji, að fólk eigi að fá réttlát laun fyrir vinnu sína og maður  þurfi ekki að vera trúaður til að vilja koma flóttafólki til hjálpar. Það þurfi á hinn bóginn trú til að upplifa Guð og til þess séu trúarbrögðin, að hjálpa fólki að rækta það andlega og finna það guðlega.

Myndin hennar Jonnu tengir saman tvennt sem okkur finnst gjarnan vera andstæður. Úr túrtöppum sem notaðir eru til að safna í sig líkamsvessum byggir hún kirkju. Og þannig er kirkjan. Hún er byggð úr steypu, jarðneskum efnum, dauðum málmi, köldu og brothættu gleri. Kirkjan sem söfnuður er búin til úr dauðlegum og breyskum mönnum. Á sama hátt og steypan, járnið, timbrið og glerið verður að heilögu húsi sem getur hjálpar okkur að finna Guð, á sama hátt og málmur klukkunnar lætur okkur heyra raust Guðs, erum við mennirnir sálir þótt við séum líka samsett úr kjöti, sinum, beinum og blóði. Við höfum anda. Í okkur öllum er guðlegur neisti. Þetta hús á að hjálpa okkur að hugsa um sálina, rækta andann og glæða neistann. Þetta hús á að hjálpa okkur að finna Guð og heyra raust frelsarans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband