Jaxlsrequiem

DSC_0206 - Copy

Fyrir skömmu var dreginn úr mér jaxl. Veitti hann það harða mótspyrnu að vissara þótti að senda mig heim vel nestaðan verkjalyfjum. Næstu dagana bruddi ég parkódín og í vímunni orti ég erfiljóð eftir jaxlinn. Tannlæknirinn sem réði niðurlögum hans fékk að heyra það í gær, í miklu dásemdarinnar aðventuboði. Nú birti ég ljóðið hér vegna örfárra áskorana.

 

Út við kinn í kjálkans holdi

kúrði jaxl í bóli góms.

Margra ára þrældóm þoldi,

þannig beið síns skapadóms;

kramdi, bruddi, beit og tuggði,

braut í sundur, þrykkti, skar,

sínum kjafti dável dugði,

dyggur þjónn mér lengi var.

 

Orrustur hann harðar háði,

hörku beita þurfti oft,

hann með seiglu sigri náði

sinar þó að fylltu hvoft.

Fæðutegund engri eirði,

allt var marið, kreist og flatt,

saman massa kjötsins keyrði,

kringlur gamlar muldi hratt.

 

Jaxlinn sá í mínum munni

marga áratugi sat,

hvíldar sér hann ekki unni

ef ég var að tyggja mat.

Á hann settist sykurkvoða,

sýra brenndi glerunginn.

Feigðarinnar fyrirboða

fann ég nálgast vininn minn.

 

Karíus og fleiri fjendur

fjölmörg unnu honum mein,

nagaður og niður brenndur

næstum var hann oní bein.

Hirðir tanna dauðadóminn

daufri röddu upp mér las,

deyfilyfjum dældi´í góminn,

dreif svo í mig hláturgas.

 

Er ég var í vímumóki,

vinnu hóf hann mitt við gin.

Tók þar á með töng og króki,

togaði´ í minn gamla vin.

Tilneyddur svo beitti bragði,

bág var orðin staða mín,

og við klínku sína sagði:

„Sæktu nítróglyserín.“

 

Sprenging allt í einu drundi,

upp steig biksvart reykjarský,

eftir því ég óljóst mundi

uns ég rænu fékk á ný

og í stólnum upp mér slengdi,

um að litast vildi fá.

Endajaxlinn úr mér sprengdi

úti´ á gólfi brotinn lá.

 

Titrandi með tár á vanga

trega ég þig, dyggi þjónn.

Nú er gengin leiðin langa,

lagsins hljómar endatónn.

Tómlegt þykir tungu minni

tanna´ að renna yfir garð

þegar hún með þungu sinni

þitt í gómi finnur skarð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Einfaldlega glæsileg sálumessa!

corvus corax, 3.12.2016 kl. 23:40

2 identicon

Sæll séra minn.

Ég viknaði örlítið þega ég las þessi tregafullu eftirmæli. En tannlæknirinn þinn er maður að mínu skapi. Sprengir bara rótfastar leifarnar út úr tanngarðinum. Þetta var alvöru bálför.

Bestu kveðjur

Skarfurinn.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 4.12.2016 kl. 09:00

3 identicon

Flottur kveðskapur og húmor. Þarf að heyra meira um möguleika nitroglycerins í skurðlækningum. Sennilega þó best að vera ekki að stunda sprengingar inni í fólki:)

kkv. Haraldur

Haraldur Hauksson (IP-tala skráð) 4.12.2016 kl. 13:03

4 Smámynd: Jónatan Karlsson

Þetta er stórbrotinn bálkur hjá þér Svavar.

Þungarokkarar ættu að meta atganginn.

Jónatan Karlsson, 5.12.2016 kl. 07:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband