Blessaður sé blúsinn

DSC_0478

Nýliðinn er einn undarlegasti dagur ársins, föstudagurinn langi.

Í uppvexti mínum var hann einn af hátíðisdögum hvers árs en skorti þó flest sem slíka daga prýddi; engar gjafir, enginn sérstakur matur, engin páskaegg, engir flugeldar, engir fánar og engar blöðrur. Föstudagurinn langi var nakinn. Þá mátti ekkert.

Hann var eiginlega antíhátíð.

Nú birta fjölmiðlar vitnisburði fólks sem mátti þola þessi botnlausu leiðindi föstudagsins langa og kvartar sáran undan áþján hans. Dagur drungans og föstudagurinn laaaaaangi eru meðal viðurnefna sem þessum ræfils degi eru gefin.

Umgjörð föstudagsins langa hefur tekið miklum breytingum. Nú eru búðir opnar. Nú er spiluð danstónlist á útvarpsstöðunum og bingó á torgunum. Föstudagurinn langi á ábyggilega eftir að breytast enn meira því fólk vill ekki láta segja sér fyrir verkum á þeim degi frekar en öðrum.

Þessi stakkaskipti á ytri umbúnaði föstudagsins langa hafa þó ekki spillt honum fyrir mér. Þvert á móti þykir mér sífellt vænna um þennan dag og hann talar enn sterkar til mín núna en í gamla daga þegar nánast allt var bannað hans vegna.

Mér finnst hollt að hafa einn dag af 365 tileinkaðan drunganum, myrkrinu og þjáningunni vegna þess að drunginn, myrkrið og þjáningin eru jafn veigamikill hluti af tilvist mannsins og blúsinn er tónlistinni.

Í Passíusálmunum er þetta vers:

„Yfir hörmungar er mín leið

æ meðan varir lífsins skeið.

Undan gekk Jesús, eftir ég

á þann að feta raunaveg.“

„Maðurinn er í sínu innsta eðli þannig, að honum nægir ekki að vinna og hugsa heldur syngur hann, dansar, biður bænir, segir sögur og gerir sér dagamun. Hann er homo festivus,“ segir Harvey Cox, amerískur guðfræðingur og rithöfundur í merkilegri bók sinni The Feast of Fools.

Þar bendir hann á að engin menningarsamfélög séu án hátíða. Að halda hátíðir sé eitt af því sem geri manninn mennskan.

Cox heldur því fram að í vestrænni menningu sé mikil áhersla lögð á að maðurinn vinni og hugsi. Sú áhersla, knúin fram af iðnvæðingunni, staðfest af heimspekinni og helguð af kristindómnum, hafi átt stóran þátt í þróun vestrænna vísinda og tækniframförum. Það hafi þó ekki verið án fórna. Fólk í okkar heimshluta hafi verið svo upptekið af vinna og hugsa sér til gagns að það hafi glatað tilfinningunni fyrir hinni hástemmdu viðhöfn, ákafa leik og frjálsa hugarflugi.

Sál okkar hafi skroppið saman með þeim afleiðingum að við kunnum ekki lengur að halda hátíð eða gera okkur dagamun. Hver dagur sé öðrum líkur. Þar með hafi siðmenningin verið svipt fortíð sinni og sögu og fyllt tortryggni gagnvart framtíðinni.

Hinn vestræni, iðnvæddi maður þurfi að læra upp á nýtt að gera sér dagamun eigi mennskunni að vera bjargandi.

Við þurfum að enduruppgötva hátíðirnar, tyllidagana, viðhöfnina og leikinn.

Það er hollt að bregða út af vananum því það gerir okkur sveigjanlegri, umburðarlyndari og framtakssamari. Og það gæti riðið baggamuninn.

Blessaður sé föstudagurinn langi og öll hans leiðindi, tregi og drungi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband