Væntingahjöðnun

Nú er ekki nema rúm vika þangað til við leggjum af stað til Marka. Vinur minn einn sem fylgst hefur með því sem ég hef skrifað hér á bloggið um áfangastaðinn sagði mér nýlega að hann ætti ekki von á öðru en að væntanlegir ferðafélagar mínir yrðu hundóánægðir með Ítalíuferðina. Ég væri búinn að spenna svo upp væntingar þeirra að útilokað væri að innistæða gæti verið fyrir þeim öllum.

Til að fyrirbyggja það kemur hér sannleikurinn í sinni verstu en raunverulegu mynd. Ég mæli með því að samferðafólk mitt lesi þessa færslu að minnsta kosti einu sinni á dag þangað til við leggjum í hann.

Sú fullyrðing mín um Mörk að þar sé ekki mikill túrismi miðað við önnur svæði á Ítalíu er hárrétt - enda er héraðið fullkomlega óspennandi og þar er sáralítið að sjá. Mörk eru tilbreytingarsnauð flatneskja, þorpin skítug og sóðaleg en borgirnar niðurníddar. Þeir fáu ferðamenn sem asnast til Marka fara ekki þangað aftur ótilneyddir því þar að auki eru íbúar héraðsins afar fjandsamlegir ókunnugum. Þar er rekin aðkomumannapólitík í akureyskum víddum.

Marotta - bærinn þar sem við dveljum á Mörkum - er hrikalegt greni. Það eina sem er blómlegt þar er hin alræmda smyglarahöfn. Eiturlyfjum og þvílíkum varningi er smyglað í stórum stíl frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu yfir Adríahafið til Marotta þar sem siðblint glæpahyski sér um að dreifa góssinu inn í landið. Afbrotatíðni er há og skotbardagar daglegt brauð.

Hotel3Hotel Sole - hótelið okkar - er svo kapítuli út af fyrir sig. Myndin sem fylgir þessari færslu talar sínu máli. Herbergin eru illa hirt og þar er nánast allt í lamasessi. Gormar standa upp úr bældum og rykfylltum rúmdýnum. Sé sturtað niður í salerninu vellur gumsið upp í sturtunni. Skrúfi maður frá sturtunni líður ekki á löngu uns flæðir upp úr klósettinu. Einstaklega hljóðbært er í öllum herbergjum. Þú heyrir hroturnar handan næfurþunns þilsins og önnur miður notaleg búkhljóð berast þaðan dag og nótt. Kakkalakkar og viðurstyggileg skorkvikindi skríða um gólf og veggi.

Ströndin er skelfileg. Snarbratt er niður í sandinn og komist maður þangað ómeiddur er nokkuð öruggt að maður stígi á flöskubrotin í fjörunni. Ekki tekur betra við þegar út í sjó er komið. Dælt er úr sameinuðum klóaklögnum svæðisins út í hann rétt hjá hótelinu og þar flýtur því allt í notuðum salernispappír og skyldum afurðum. Auk þess er affall frá kjarnorkuveri í næsta nágrenni. Þeir sem brenna ekki sólinni eiga því ekki í erfiðleikum að ná sér í annars konar bruna.

Góða ferð!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

hahahaha. Það mætti halda að þú græddir fúlgur fjár ef ferðafélagarnir hættu við. Þú blekkir mig ekki andartak.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.6.2007 kl. 00:59

2 Smámynd: Kjartan Valdemarsson

Þeir sem stefna að himnaríki verða að hafa nasaþef af helvíti?

Kveðja Kjartan

Kjartan Valdemarsson, 2.6.2007 kl. 01:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband