Mættur og mettur

taerastrondEinhvers staðar heyrði ég að besti hluti hverrar ferðar væri heimkoman og að það væri óbrigðul vísbending um að fríið hafi verið vel heppnað ef manni þætti gott að koma heim. Ég get tekið undir það. Eftir nítján dýrðardaga á Mörkum var fyrsta nóttin undir eigin sæng hreint yndisleg.

Ég sé ekki í fljótu bragði hvernig hægt er að toppa svona frí. Þarna er allt til alls. Ef maður vildi hvílast gat maður slappað af á ströndinni sem allir voru sammála um að væri sú besta í veröldinni. Ég fékk mér sundsprett í Adríahafinu nánast hvern einasta dag. Labbaði út í ísbúð með krökkunum. Hjólaði inn í Marotta með konunni. Morgunkollan á hótelveröndinni var alltaf á sínum tíma, eigi síðar en kl. 11. Ferðafélögum til mikillar furðu keypti ég mér línuskauta á fyrsta degi og þaut á þeim um strandgötuna okkar enda gamall skautastrákur ættaður úr Innbænum. Svo var vinsælt að fá sér bíltúr í mollið í Senígalíu eða í miðbæinn í Fano. Við fórum í sirkus eitt kvöldið. Dagparti var eytt í sundlaugagarði. Hraustari hluti hópsins brá sér í fjallgöngu. Einn dagur var nýttur í þorpaflæking. Farið var á vínekru og afurðir prófaðar. Einnig litum við inn í gamla og rótgróna ólívuolíufabrikku og drukkum olíu eins og bjór. Hápunktur ferðarinnar var að sjálfsögðu dagsferð til Assisi en einnig voru borgirnar Urbino og Ravenna heimsóttar. Við tókum þátt í tveimur bocciamótum á ströndinni. Áttum sigurvegara í öðru en menn í úrslitum í hinu. Lið okkar Íslendinganna í sandkastalakeppninni náði öðru sæti. Efnt var til stórkostlegrar veislu á ströndinni okkar. Svo nokkuð sé nefnt.

Mér finnst ítalskur matur sælgæti. Er hann ekki bara sá besti í heimi? Einfaldur, ferskur, bragðgóður og meinhollur. Hótelið okkar, þar sem við vorum í fullu fæði, sérhæfir sig í sjávarfangi. Ég húkkaðist á það enda þótt annað bragð sé af slíkum kosti þar úti en hér heima. Miklu meira sjóbragð af fiskinum. Auk þess elda þeir alls konar kvikindi sem okkur Íslendingum dytti aldrei í hug að leggja okkur til munns. Stundum datt mér í hug að ekki væri vanþörf á að kenna okkur Íslendingum að meta fiskinn betur, bæði að elda hann og borða. Þeir sem ekki vildu fisk fengu sér kjöt og á því var aldrei fituarða. Mörgum þótti ríflega veitt af pastanu og vissulega eru íslenskir meltingarvegir óvanir þess konar trakteringum. Það var sennilega engin tilviljun að ég braut klósettsetuna á herberginu okkar.

Og talandi um meltingu. Nú hefst enn einn þátturinn í ferðinni til Marka. Úrvinnslan. Kannski leyfi ég lesendum að fylgjast með og ef til vill fæ ég leyfi til að birta hér kviðlinga sem til urðu á þessum vikum. Úrvinnsluþátturinn gæti hæglega dugað þangað til við förum aftur til Marka en við erum þegar búin að panta næstu dvöl.

Færslu þessari fylgir mynd af Adríahafinu eins og það blasti við milli tánna á mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Þú hefur greinilega átt góða ferð og gott að sjá að þú ert kominn heill heim aftur :)

Hólmgeir Karlsson, 2.7.2007 kl. 20:44

2 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Mikið er ég sammála þér. Góð ferð er þegar hætt er á tindinum og maður er viss um að heima er best

Aðalheiður Magnúsdóttir, 2.7.2007 kl. 20:47

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Sæll og blessaður Svavar. Velkominn heim. Til hamingju með vel heppnaða ferð. Hljómar aldeilis frábærlega. Hlakka til að heyra meira. Einhver séns að fá nánari útlistanir á brotinni klósettsetu

Jóna Á. Gísladóttir, 2.7.2007 kl. 20:52

4 identicon

Velkominn heim. Þetta hefur greinilega verið eðalferð hjá ykkur :)

Þorgerður (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 23:13

5 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Sammála ofanrituðu! - Velkominn í heiðardalinn.

Þorsteinn Gunnarsson, 4.7.2007 kl. 01:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband