5.7.2007 | 17:02
Corinaldo
"Corinaldo rís við himin hátt. Húsin standa þétt í fullri sátt," hljómaði upphaf á kviðlingi sem varð til eftir heimsókn til þessa fyrsta áfangastaðar hins akureyska ferðahóps. Þorpið er í um það bil hálftíma akstursfjarlægð frá strandhótelinu okkar. Sveit Marka er yndisfríð. Fyrst hæðótt en þegar innar dregur taka við brött en skógi vaxin Appenínafjöll. Næst sjónum stunda menn akuryrkju. Þar er vínviður og ávaxtatré. Inni í landi fara að sjást grasbítar.
Corinaldo er eitt af fjölmörgum þorpum Marka. Við komum þangað eftir hádegið, á síestunni, enda var þar allt ofurkyrrt. Hvorki þorpsbúar né túrhestar á ferð. Tveir kettir fengu sér lúr í skuggsælu öngstræti. Svölurnar voru á hinn bóginn ekki í neinni afslöppun í gáskafullu flugi yfir höfðum okkar.
Ísbúðin í plássinu var opin og við nýttum okkur þjónustuna. Annars lötruðum við um þröngar göturnar og virtum fyrir okkur gömlu byggingarnar. Steinlögð strætin voru eins og nýskúruð og innan þorpsmúranna ríkti andi hins ítalska áhyggjuleysis.
Svo ku þeir gera fínasta rauðvín í Corinaldo.
Athugasemdir
Er þetta mynd úr þínu safni? Get vel skilið að það hafi verið yndislegt að rölta þarna um þorpið.
Jóna Á. Gísladóttir, 5.7.2007 kl. 18:03
Já, Jóna sæta (þú berð af Marlín). Þessa mynd tók ég og margar fleiri sem þú færð að sjá ef þú verður góð stelpa. Samt verður að taka fram að ljósmyndir ná aldrei öllum víddum fegurðarinnar - ekki frekar en myndin af þér.
Svavar Alfreð Jónsson, 5.7.2007 kl. 19:12
Jóna Á. Gísladóttir, 6.7.2007 kl. 14:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.