6.7.2007 | 01:10
Fyrirhafnarinnar virði
Í kvöld hringdi frænka að sunnan í mig á leið norður á mótorhjóli fyrir aftan kærastann. Ég skellti ragú alla bollojnese í pott en spaghettíið fór ekki niður í sjóðandi vatnið fyrr en ég heyrði í hjólinu hér á Þingvallastrætinu.
Kvöldverðurinn með þeim hjúunum var hinn skemmtilegasti og erfiðið við eldavélina gleymdist fljótt þegar við Einar fórum að spinna upp lygasögurnar.
Sem minnir mig á tvær aðrar sem tilhlýðilegt er að rifja upp áður en skrök kvöldsins fer fyrir ykkar sjónir.
Sú fyrri er sögð af bónda í Höfðahverfinu. Sá bóndi kvað hafa komið þar svo ofboðslegt rok að það fuku út úr honum fölsku tennurnar. Settið læstist á þakskegg fjárhúss jarðarinnar og beið hans þar hinn næsta dag.
Hin sagan er úr Fljótunum. Þekktust eru afrek Fljótamanna í skíðaíþróttinni en þeir kunna líka vel þá list að segja sögur. Ein þeirra segir að eitt sinn hafi Fljótamenn fundið upp magnaðan skíðaáburð. Honum var smurt í tilraunaskyni neðan á skíði ágæts bónda í Stíflunni. Bóndinn mjakaði sér upp á bæjarfjallið - en í Stíflu eru fjöllin há og brött. Síðan renndi hann sér niður, yfir sveitina og stoppaði ekki fyrr en hann var kominn upp á fjallið andspænis bæjarfjallinu. Þar sáu menn hann taka bratta og víða beygju áður en hann þaut niður það fjall og aftur upp í bæjarfjallið. Gekk þannig nokkra daga.
Þeir skutu hann á fjórða degi, af mannúðarástæðum.
Við Einar mótorhjólakappi sögðum eftirfarandi sögu sem dæmi um það hversu skyndilega getur vorað hér fyrir norðan.
Ónefndur skíðamaður var að renna sér niður Hlíðarfjallið. Hann var búinn að ná rosalegri ferð og var kominn í vel þekktar brunstellingar. Þá voraði. Skíðin höfðu ekkert rennsli lengur og brunkappanum fataðist ferðin. Hann steyptist fram fyrir sig. Fyrst litaðist hann grasgrænku af nýgræðingi, síðan rauðum úr nýorpnum eggjum, þá krömdum ungfuglum og áður en hann stöðvaðist við Glerána var hann löðrandi í berjabláma. Þá voru skólar um það bil að hefjast á Akureyri.
Athugasemdir
haha. Góður! Er þessi síðasta frumsamin af þér og mótorhjólakappanum?
By the way: Svavar, hvað heitir aftur konan þín. Hún var svo indæl að senda mér ítarlegan tölvupóst fyrir þó nokkru síðan, sem ég svo launaði henni með að ekki svo mikið sem þakka henni fyrir. Nú finn ég ekki póstinn hjá mér.
Jóna Á. Gísladóttir, 6.7.2007 kl. 14:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.