Ein með öllu og Írskir dagar

Síðustu verslunarmannahelgar hefur verið efnt til svokallaðrar fjölskylduhátíðar á Akureyri. Þar hefur margt verið til fyrirmyndar en annað ekki.

Ég bý nálægt tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti og undanfarin ár hefur varla verið líft þar þessa helgi. Hávaði og drykkjulæti fram á morgun, stöðug umferð, óspektir, rifrildi og slagsmál. Annar fylgifiskur fjölskylduhátíðarinnar er ótrúlegur sóðaskapur eins og íslenskir sjónvarpsáhorfendur hafa fengið að sjá. Garðar okkar húseigenda í nágrenni tjaldsvæðisins eru notaðir sem salerni. Það er jafnvel biðröð í runnana, eins og unglingsstelpa orðaði það sem fékk að nota hjá okkur salernið eina nóttina. Hjól, sláttuvélar, barnaleikföng og aðrir gripir eru teknir ófrjálsri hendi. Fólk þorir ekki að fara úr bænum og skilja hús sín og eigur eftir.

Fíkniefnamál eru fastur liður á fjölskylduhátíðinni. Ég hef orðað það þannig að þar sé boðið upp á eiturlyfjahlaðborð. Vel þykir sloppið séu nauðganir ekki fleiri en teljandi á fingrum annarrar handar. Fermingarbörn slaga um göturnar. Ég veit mörg dæmi þess að ungt fólk hafi byrjað sína eiturlyfjaneyslu á fjölskylduhátíðinni. Á sjúkrahúsi bæjarnis er starfsliðið í önnum við að sinna unglingum í drykkjudái eða eiturlyfjavímu. Þangað leita líka fíklar í leit að sprautum eftir að apótekin eru búin að loka.

Þegar kvartað var undan þessari hlið fjölskylduhátíðarinnar á Akureyri voru viðbrögðin einkennileg. Forráðamenn bæjarins gerðu lítið úr þessu. Aðstandendum hátíðarinnar þótti að sér vegið. Síðasta haust var efnt til fundar um fjölskylduhátíðina niðri á bæjarskrifstofum. Þar fengum við að vita um hvað málið í raun og veru snýst. Lagðar voru fram tölur um svimandi háar peningaupphæðir sem streyma í bæinn þessa daga. Fjölskylduhátíðin mjólkar vel. Um það snýst málið.

Mér er kunnugt um að mikið var reynt til að hafa áhrif á það hvernig væri fjallað um fjölskylduhátíðina í fjölmiðlum. Sú umfjöllun er aðstandendum ekki alltaf að skapi enda kom fram á umræddum fundi að fjársterkir aðilar ætluðu að framleiða "heimildarmynd" um sína kæru fjölskylduhátíð.

Fróðlegt er að bera þessi viðbrögð á Akureyri saman við viðbrögð aðstandenda Írskra daga á Akranesi við því hvernig sú hátíð fór fram síðustu helgi. Þar komu fram svipuð vandamál og á hinni akureysku fjölskylduhátíð.

Skagamenn gera sér grein fyrir því að á þessu verður að taka. Á fréttavefnum skessuhorn.is segir lögregluvarðstjóri að ekki fari saman að halda fjölskylduhátíð og vera með dagskráratriði fram á nótt sem kalla á mikla ölvun. Á það hefur margoft verið bent á Akureyri en án árangurs. Verktakanum sem sér um tjaldsvæðið á Skaganum er líka nóg boðið. Ætlar ekki að koma nálægt svona lögðuð aftur. Ungmennin líti á tjaldsvæðið sem samkomustað en ekki gististað. Það hafa forráðamenn Akureyrarbæjar ekki skilið enda þótt þeim hafi margítrekað verið bent á það.

Á skessuhorni.is er einnig rætt við Tómas Guðmundsson, markaðsfulltrúa Akraneskaupstaðar. Hann hefur m. a. þetta að segja: "Það skaðar þar að auki orðspor og ímynd bæjarfélagsins í heild þegar helstu fréttir af fjölskylduhátíðinni fjalla um drykkju, eiturlyfjaneyslu, ofbeldi og slagsmál...."

Skagamönnum þykir auðsjáanlega vænt um ímynd bæjarfélagsins síns. Hér á Akureyri sé ég ekki betur en að mönnum standi á sama um það meðan krónurnar koma í kassann.

Ég tek ofan fyrir þeim á Akranesi og segi: "Áfram Skagamenn!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Sæll Svavar!  Ég er algerlega sammála því að hátíðir eins og Halló Akureyri eða slíkar auka ekki hróður viðkomandi bæjarfélaga og vart er líft fyrir nábúendur meðan á þeim stendur. Ég hafði nú nokkra hátíðina sopið hér í den en varð kjafstopp þegar ég hætti mér utan úr þorpi og inn í bæ eitt kvöldið og sá ástandið. En ég er bara að velta fyrir mér hvort ástand krakkanna skáni eitthvað þó hvert bæjarfélagið af öðru hætti slíku samkomustandi. Þeir finna sér stað og þá hlýtur að vera illskrárra að eiga einhverja möguleika á eftirliti en að þeir séu einhverstaðar í reiðileysi.

 Hinsvegar finnst mér hafa vantað meira eftirlit, löggæslu og annað í þeim dúr miðað við stærðargráður þessara hátiða. Og því er eins og ásatandið komi aðstrandendum þessara hátíða og yfirvöldum alltaf í opna skjöldu. Ef viðkomandi yfirvöld treysta sér ekki til að ráða við ástandið og það almennilega eiga þau náttúrulega ekki að veita leyfi fyrir samkomuhaldinu.

-Svo hvert skyldu nú þessir krakkar fara næst, sem voru að "skemmta" sé á Skaganum á þessum Írsku dögum. Ekki aftur á Skagann ok. En að halda að þeir finni sér ekki annan stað til svipaðra athafna er álíka barnalegt og trúa því að París Hilton hafi frelsast í jailinu.

Kveðja í heiðardalinn.

Þorsteinn Gunnarsson, 9.7.2007 kl. 23:11

2 Smámynd: Inga Dagný Eydal

Sæll Svavar,

Ég gæti reynt að halda aðra hátíð heima hjá mér um Versló og draga einhverja þáttakendur þangað (sjá nýlega bloggfærslu um útihátíðir). En að öllu gamni slepptu þá dáist ég að dugnaði þínum og úthaldi við að halda fram þínum fullkomlega rétta málstað! Það er einfaldlega ekki líðandi að bjóða bæjarbúum upp á slíkar "trakteringar" hvorki á Akureyri eða á Akranesi.

kveðjur úr suðrinu

Inga Dagný Eydal, 10.7.2007 kl. 06:13

3 Smámynd: Lindan

Ohh veistu að ég er svo sammála þér.

Það er auglýst barnadagskrá sem stendur yfir í stuttan tíma.  Bærinn er fullur af glerbrotum, hundum og fólki í annarlegu ástandi.    Ég veit að um mikla peninga er að ræða en hvað ætli þetta kosti samt þegar upp er staðið og hverjir eru að græða á þessu??    Ég er fullviss um að það sé hægt að skipuleggja þessa hátíð betur og gera hana fjölskylduvæna.  

Lindan, 10.7.2007 kl. 12:33

4 Smámynd: Helgi Már Barðason

Já, Akureyringurinn Tómas Guðmundsson veit hvað hann syngur.

Helgi Már Barðason, 10.7.2007 kl. 17:22

5 identicon

Það er nefnilega það. Af hverju vilja menn kalla Þjóðhátíð Vestmannaeyja, Halló Akureyri og slíkar hátíðir "fjölskylduhátíðir"?

Ekki mátti benda á skuggahliðar Þjóðhátíðarinnar þá risu allir upp henni til varnar. Svo sá maður sama fólkið "flýja Eyjarnar" því þá voru unglingar þeirra komnir á "þátttöku" listann.

Kennarar Vestmannaeyja töldu þjóðhátíðina vera m.a. hættulegasta umhverfið til að hefja drykkju, prófa eiturlyf og taka þátt í áhættukynlífi. Þetta mátti ekki gefa út til að ekki skyggja á glæsta ásjónu Þjóðhátíðarinnar.

Því miður virðist rosalega erfitt að efna til sameiginlegrar hátíðar þar sem neysla eiturlyfja, víndrykkja né önnur áhættuhegðun sé útilokuð. En með baráttu góðra manna og Guðs hjálp þá er von.

kær kveðja

Snorri í Betel.

snorri í betel (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 20:55

6 Smámynd: Sigurpáll Björnsson

Er þér hjartanlega sammála. Sjálfur bjó ég á Akureyri þegar fyrsta Ein með öllu var haldin, og sannast sagna varð ég hreint og beint orðlaus. Ég kalla nú ekki allt ömmu mína og hef margt prófað um ævina, en mér verður lengi minnistæð sú reynsla sem ég upplifði þarna um árið. Sem betur fer hafa verið "skárri" Halló Akureyri, en þær mættu vera fleiri. 

Til gamans má ég nefna það að ég bloggaði á minni síðu um "Drugfestival" á Skaganum og fékk skrýtin viðbrögð við því, allavega frá einum Skagamanni, eða tel það allavega.

Rétt er það að viðhorf bæjarráðs Akureyrar er og hefur alltaf verið að reyna að réttlæta þetta umstang á þei peningum sem koma í kassann. Þá segi ég bara, "Ef svona rosalega miklir peningar koma í kassann, því þá ekki að verja meira fé til almennilegrar gæslu á þessum tíma svo megi lágmarka vitleysuna í unglingunum" 

Ég á nokkur skyldmenni á Akranesi, jafnt og helling af ættingjum á Akureyri. Hitti einn frænda minn af Skaganum nú í vikunni og hann sagði að þetta hefði verið sú svæsnasta sem hann hafði upplifað í langan tíma, og er hann enginn engill hvað þessi mál varðar.

Rétt er að ekki virðist vera skynsamlegt að fara að banna unglingunum að mæta á hátíðir af þessu tagi, frekar að hafa rammana og umgjörðina þess eðlis að þau fari sér síður að voða. Svo megum við ekki gleyma því að það eru einnig allmargir "fullorðnir" sem haga sér jafnvel verr en blessaðir unglingarnir.

Kveðjur norður.  

Sigurpáll Björnsson, 10.7.2007 kl. 21:48

7 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

þetta er landlægt vandamál og var einmitt verið að benda á Hróarskelduhátíðina sem viðmiðun þar sem mæta 100 þús manns á móti kannski 10 þús á hátíðar hér. Eitt árið þegar kom upp nauðgunarmál á Hróarskelduhátíð var rætt um að leggja hátíðina af. Í staðin var ákveðið að herða gæslu. Það er eitthvað mikið að hérna.

Jóna Á. Gísladóttir, 11.7.2007 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband