Sótsvartur mannskilningur og hjarnbjartur

Stundum heyri ég að í kristinni trú sé lítið gert úr manneskjunni með því að skilgreina hana sem syndara. Það kann að vera skiljanlegur misskilningur hafi menn ekki gert sér grein fyrir myndinni allri. Ég skal fúslega viðurkenna að mannskilningur kristindómsins væri sótsvartur ef öll sagan væri sögð með ofangreindu. Útlitið er hreint ekki gott sé maðurinn syndari og punktur. Sé því gleymt að samkvæmt kristinni kenningu eru allir menn syndarar - og samkvæmt þeirri sömu kenningu elskar Guð einmitt þennan syndara.

Hann elskar okkur eins og við erum. Einmitt þess vegna er boðskapur kristninnar um manneskjuna svo stórkostlegur. Við þurfum ekki að fegra okkur.  Við megum koma fram fyrir Guð í öllu okkar óöryggi. Við þurfum ekki að réttlæta okkur. Guð sér um þá hlið málanna.

Sumarið er tími brúðkaupanna. Hjónavígsluheitin sem hjónin gefa hvort öðru í kirkjum landsins eru miklu meira en loforð og skuldbindingar. Ef manneskja gefur mér það loforð að elska mig gegnum súrt og sætt og þykkt og þunnt ævina á enda er það líka róttæk viðurkenning á mér sem einstaklingi. Sé hún tilbúin að lofa mér þetta miklu enda þótt hún viti að ég sé langt frá því að vera fullkominn.

Þannig er miskunn Guðs. Hann vill elska okkur, annast okkur, bera okkur á örmum sér, deila með okkur kjörum í myrkri og ljósi, ekki vegna þess að við höfum unnið okkur inn prik hjá honum umfram aðra heldur vegna þess að hann hefur ákveðið að elska okkur. Í skjóli þessa skilyrðislausa kærleika  Guðs gefst okkur einstakt tækifæri til að þroska okkur, helgast og fullkomnast, vaxa til hans. Það er verkefni sem tekur ævina alla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Upprunaleg merking orðsins synd er víst að geiga eins og bogamaður geigar frá marki sínu.  Syndin er því ekki refsiverð eða ljót eða röng eins og kirkjan virðist hafa komið svo illa yfir til manneskjunnar.  Synd refsar sér sjálf, því hún er mistök og afrakstur mistakanna er að ná ekki settu marki eða líða fyrir að geiga í markmiði sínu.  Syndin ætti að kenna okkur að miða betur næst og læra af mistökunum, bæta lífsleiknina.  Þeir sem ekki læra af þessum mistökum og gera aftur og aftur sömu mistök og ætlast til annarrar niðurstöðu eru samkvæmt skilgreiningu læknisfrræðinnar geðveikir, vitfirrtir eins og sagt er. Fyrrtir því viti að skoða ástæður mistakanna og jafnvel alteknir af því að finna sök hjá öðrum fyrir mistökum sínum. Bogmaður sem kennir örinni um, vindinum fugli á flugi og slíku. 

Að kannast við mistök sín er að kannast við að vera maður. Að kannast við breyskleika sinn er að kannast við Guð.  Að læra af mistökum og bæta sig er yfirbót. (sem ekki er fólgin í grátstöfum og niðurlægingu fyrir öðru heldur ögun hugans og handarinnar).  Að hugleiða mistök sín og aga sig til betri verka er meðal annars gert með bæn.  Efist maður um afl sitt til árangurs er gott að höfða til einhver afls utan okkar eða djúpt inni.  Það hjálpar oftast þótt í raun sértu hluti þessa afls og aflið hluti af þér.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.7.2007 kl. 18:12

2 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Já allir eru syndarar og öllum mistekst að elska náungann (alla) eins og sjálf okkur. Ekki er auðvelt að hætta því og aðeins til eitt dæmi um að einhverjum hafi tekist að lifa í fullkomnum mannkærleika, og það er Jesú. 

Bryndís Böðvarsdóttir, 16.7.2007 kl. 19:56

3 Smámynd: krossgata

Þá verður mér hugsað til "að óttast Guð".  Ég skil það ekki sem að við eigum að hræðast hann heldur að hafa í huga okkar eins og til dæmis að óttast um börnin okkar og aðra þá sem okkur þykir vænt um.  Við berum velferð þeirra fyrir brjósti.... óttumst um þau.  Það má vera að það sé einhver oftúlkun hjá mér, en ég hef kosið að líta svo á að í fornri þýðingu hafi smáorðinu "um" verið sleppt eða það hafi verið venja við svo hátíðlegan texta.  Og vantrúarfólk má óa og æja yfir því að ég hafi valið það, því ég segi trú er fyrst og síðast val, rétt eins og vantrú.

krossgata, 16.7.2007 kl. 22:11

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Regin syndin er óttinn að mínu mati. Hann er bæði afleiðing og orsök flestra mannlegra bresta.  "We have nothing to fear but fear it self" -  sagði Roosevelt þegar hann hvatti þjóð sína á tímum kreppunnar miklu.  Sá óttast sem ekki treystir æðri forsjá.  Græðgi er ótti um skort. Reiði er ótti við yfirgang og skert öryggi. Losti er ótti við að vera ekki elskaður og fá ekki að elska eins er hégóminn ótti við að vera ekki dáður, falla í gleymsku. Allar þær syndir, sem kallast höfuðsyndir (þó þær séu raunar aldrei taldar upp í hinni góðu bók) má rekja til óttans - skortsins á trú á handleiðslu hins góða.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.7.2007 kl. 03:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband