20.7.2007 | 13:28
Séra Símon Flóki og hinir prestarnir
Í skáldsögu sinni "Efstu dagar" segir Pétur Gunnarsson frá séra Símoni Flóka sem tekur rútuna út á land til að taka við sínu fyrsta prestsembætti í litlu þorpi. Á áfangastað var formaður sóknarnefndar mættur til að taka á móti hinum nýja presti, sem hann hafði aldrei séð. Hann skoðaði fólkið sem sté út úr rútunni, gekk svo loks að einum farþeganna og spurði hann hvort hann væri presturinn.
"Nei," svaraði maðurinn, "ég var bara svo heiftarlega bílveikur."
Fólk hefur býsna mótaðar hugmyndir um það hvernig prestar eigi að vera og hvað þeim eigi að finnast. Sumt þykir prestlegt og presti sæmandi en annað ekki, hvað varðar hegðun, skoðanir, útlit, klæðaburð og jafnvel akstursmáta. Prestsmakar eiga líka að vera á einhvern tiltekinn hátt, ekki síst prestskonur, að ég tali nú ekki um prestsbörnin.
Ráðningarmál presta hafa verið til umfjöllunar í kjölfar prestaskipta í söfnuði suður með sjó. Einhvers staðar las ég að enn eitt rifrildið væri upp komið í kirkjunni.
Það má til sanns vegar færa. Ekki erum við alltaf sammála um allt, prestarnir. Stundum tökumst við á um málefni og þar getur verið um að ræða óþarft leiðindaþras. Samt skulum við biðja góðan Guð um að prestar verði aldrei það samlit hjörð að þeir hætti að skiptast á ólíkum skoðunum. Það er nefnilega ákveðin dínamík fólgin í heilbrigðu ósamlyndi. Fólk sem er sammála um allt hættir sennilega fyrr eða síðar að tala saman nema um gardínur. Hvorki er skapandi né örvandi að vera alltaf í samfélagi við jábræður og amensystur.
Við megum því vera þakklát fyrir það að prestar eru ólíkir, klæða sig ekki allir eins (ekki síst eftir að konur fengu prestsvígslu), eru sumir brakandi íhaldsmenn en aðrir sveittir róttæklingar, sumir söngmenn ágætir en aðrir radd- og laglausir með öllu og sumir líbó en aðrir fremur hallir undir bókstafsins hljóðan.
Færslu þessari fylgir mynd af mér með sr. Jóni Ísfeld. Þegar myndin var tekin úti í Ólafsfirði fyrir mörgum árum var ég einn yngsti prestur Þjóðkirkjunnar en sr. Jón var hættur störfum fyrir aldurs sakir. Þrátt fyrir aldursmuninn fór vel á með okkur félögunum.
Athugasemdir
Sæll bróir ég er þér algerlega sammála.
Áður en ég áttaði má á því hver stendur við hlið þér á myndinni datt mér í hug að þetta væri formaður sóknarnefndarinnar þegar þú byrjaðir í Ólafsfirði.
Reyndar lítur þú alls ekki út fyrir að hafa verið bílveikur á þessari mynd.
En annars frábær saga
Takk fyrir
Kalli Matt
Karl V. Matthíasson, 21.7.2007 kl. 00:14
Ég geri ráð fyrir því að þú sért til vinstri á myndinni
Svakalega minnir þú mig á einhvern. Læt þig vita þegar ég átta mig á hvern.
Annars er þetta góður pistill og þörf áminning þetta með að skoðanaskipti séu heilbrigð og nauðsynleg.
Jóna Á. Gísladóttir, 21.7.2007 kl. 13:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.