25.7.2007 | 21:19
Fjóstrú
"Verst af öllu er villan sú
vonar og kærleikslaust
á engu að hafa æðri trú,
en allt í heimi traust,
fyrir sálina setja lás,
en safna magakeis
og á vel tyrfðum bundinn bás
baula eftir töðumeis."
Þannig orti Grímur Thomsen um það sem hann kallar fjóstrú.
Og erum við ekki ágætlega fjóstrúuð? Þokkalega sátt ef við eigum okkar bás og fáum tugguna okkar að jórtra á þegar baulað er?
Linnulaust dynur á okkur áróðurinn um að tuggan og básinn nægi. Stundum minnist ég heimsóknar í minkabú. Þar voru að því er virtist óendanlegar raðir af búrum og eitt dýr í hverju. Maður fór um og dældi fóðri um barka, hæfilegri slettu ofan á hvert búr, sem lak svo niður í gegnum vírnetið.
Ekki er það beinlínis spennandi líf sem aðeins gengur út á tugguna og básinn og þess vegna reynum við að upphefja hvort tveggja. Auglýsingar nútímans gefa hvers konar neysluvarningi trúarlegt gildi. Matvælin eru guðdómleg. Þvottaefnið himneskt. Rétti bíllinn spurning um frelsi okkar. Sáluhjálparlegt atriði að vanda sig við val á banka. Fyrirmyndarhúsið er himnaríkis virði.
Dómkirkjur nútímans eru reistar utan um vöruna og helgidögunum eigum við að verja þar með fjölskyldum okkar.
Við eigum erfitt með að trúa því að Jesús hafi risið upp frá dauðum en á sama tíma trúum við því áreynslulítið að hamingjan sé fólgin í pylsupakka.
Samt þekkjum við þennan ófrið innra með okkur, þennan óþægilega grun um að ef til vill sé tilveran meira en básinn og tuggan. Þetta tómarúm. Þennan söknuð. Þetta hugboð um annað en það sem má þreifa á, stinga í fingri eða leggja á hönd. Að nokkuð sem maður getur aldrei skilið til fulls sé í brosi barnsins, hvísluðum ástarorðum, söngvum vorfugla, ilmi af hafi, gráti í myrkri og eigin andardrætti.
Trúðu mér að það er nú vandræðaminnst að vera ekki að flækja málið með því öllu saman. Láta sér frekar nægja fjóstrúna. Básinn og tugguna. Og segja ojæja.
Athugasemdir
"Við eigum erfitt með að trúa því að Jesús hafi risið upp frá dauðum en á sama tíma trúum við því áreynslulítið að hamingjan sé fólgin í pylsupakka."
Ég hef oft fengið örstutta ánægju af því að borða pulsu, en aldrei hef ég séð eða séð góðar heimildir fyrir því að maður hafi risið upp frá dauðum. Ég er nokkuð viss um að það sama gildi fyrir þig (nema þér líki ekki við pulsur). Þannig að þrátt fyrir að hamingjan sé örugglega ekki fólgin í pylsupakka, þá myndi ég frekar veðja á hann heldur en Jesú.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.7.2007 kl. 23:47
kannski var hann bara sofandi
... það gerir alveg sama gagn ef við trúum því að hann sé til í hjörtum okkar ...
Hólmgeir Karlsson, 25.7.2007 kl. 23:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.