28.7.2007 | 20:56
Við hirðum mjólkina - þið mokið flórinn
Tregðan við að gera breytingar á fjölskylduhátíðinni Ein með öllu á Akureyri stafar sennilega af því að þar er um að ræða mikla tekjulind. Fyrirtækið mjólkar vel og sumir segja að það skili um milljarði árlega í bæjarbúið. Menn eru hræddir við að skipta Ljómalind út fyrir Búkollu sem enginn veit hvernig mjólkar.
Þeir sem nytina fá sleppa flestir við að moka flórinn. Meðal þeirra sem settir voru í það eftir síðustu fjölskylduhátíð voru börnin úr vinnuskóla Akureyrar. Hópur þaðan fékk það verkefni að taka til á Þórssvæðinu en þar höfðu gestir fjölskylduhátíðarinnar tjaldað. Krakkarnir tíndu upp glerbrot, tómar bjórdósir, áfengisflöskur, notaða smokka og sprautunálar. Áhyggjufullum foreldrum þessara vinnuskólabarna var svarað með því að krakkarnir ynnu þetta verk í gúmmíhönskum.
Í umræðunum um hátíðahöld verslunarmannahelgarinnar er gjarnan bent á að foreldrar beri ábyrgð á börnunum sínum. Það er auðvitað hárrétt og veitir ekki af að benda foreldrum á það. Samfélagið ber þó líka sína ábyrgð. Heilt þorp þarf til að ala upp barn, segir einhvers staðar. Ekki er sama hvað
börnunum er boðið upp á utan heimilanna. Umhverfið skiptir máli. Við erum öll ábyrg. Það skiptir máli hvað fyrir börnunum er haft, hvað þau sjá og heyra úti í samfélaginu.
Enginn getur hvítþvegið hendur sínar hvað það varðar - heldur ekki með því að smeygja gúmmíhönskum á hendur barnanna. Meira þarf að verja en hendur þeirra. Við þurfum að passa upp á augu þeirra og eyru, sálir þeirra og hjörtu. Við þurfum að vernda bernskuna. Sakleysi barnanna okkar er í húfi og það er mikið óhæfuverk að stela því af þeim.
Athugasemdir
Nú trúi ég varla eigin eyrum. Voru börn sett í að týna upp ósómann??!! Þetta bara getur ekki þótt í lagi. Ég trúi því ekki.
Jóna Á. Gísladóttir, 29.7.2007 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.