30.7.2007 | 10:56
Fljúgandi fiskisaga
Fyrsta veiðiferð sumarsins kom upp úr engu eins og sköpun alheimsins. Um hádegisbil í gær fékk ég skilaboð frá Kalla mági og stórveiðimanni um að hann ætti dag í Djúpánni en væri óvart staddur í Fnjóskánni. Hann væri því með of mörg járn í eldinum.
Ég og Viddi Magg (hinn mágur minn) ákváðum að bjarga málunum og um fimmleytið vorum við mættir á árbakkann, hann í strigaskóm en ég þó í stígvélum. Höfðum keypt maðk á Leirunni og til alls líklegir. Auk þess tók ég með mér nýju flugustöngina sem Bryndís mín gaf mér í jólagjöf.
Ég fletti umbúðunum af stöng og hjóli og setti allt saman. Því næst hnýtti ég á línuna einu fluguna sem við Viddi fundum í töskunum okkar og byrjaði að kasta.
Mér fannst ég fljótur að ná kasttækninni og kom flugunni býsna langt út. Var harla drjúgur og sá fram á að senn kæmist ég í hóp alvöru veiðimanna. Ekki minnkaði spennan og ánægjan þegar Viddi Magg kom hlaupandi og sagðist hafa séð þetta líka rokna kvikindi hérna fyrir neðan. Ég færði mig þangað og lamdi ána með flugunni allur hinn fagmannlegasti.
Skyndilega sá ég út undan mér að tveir menn komu gangandi til okkar. Þar voru sko engir amatörar á ferð. Í vöðlum og með hatta og allt. Ég reyndi að bera mig fimlega við köstin og sá þá fyrir mér hníga til jarðar af lotningu þegar ég setti í stóru skepnuna.
Þegar veiðigarparnir voru komnir langleiðina til mín sá ég mér til mikillar skelfingar að engin fluga var á línunni. Trúlega fyrir löngu dottin af. Ég flýtti mér að draga inn og hylja verksummerki áður en garparnir sæu hvers lags var.
Ég átti alveg eins von á einhverjum glósum frá þeim. "Er nú ekki vissara að hafa agn á línunni?" eða eitthvað í þá áttina. Þeir létu samt nægja að bjóða góðan daginn og mér varð léttara. Fljótlega komu glottin á andlitum þeirra þó upp um þá. Ég varð þess áskynja að þeir vissu hvernig í pottinn var búið og fann skömmina breiðast út um bringuna.
Í svona aðstæðum er eiginlega ekki nema um eitt að ræða. Segja satt, söguna alla og draga ekkert undan. Og það gerði ég. Ekki kom görpunum alveg í opna skjöldu að hér væru amatörar að verki því meðan við spjölluðum saman var Viddi Magg að reyna að ná ljósmynd af laxinum og virtist ekki hafa minnstu löngun til að veiða hann.
Þeir garpar brugðust vel við og sýndu mikinn skilning. Ég er ekki frá því að tár hafi sést á veðurbitnum hvarmi á öðrum þeirra við játninguna. Alla vega sýndu þeir þann drengskap og göfuglyndi að sækja tvær flugur handa flugulausum fluguveiðimanninum og gefa honum. Svartan og rauðan Francis. Þótti mér ekki verra að bendla heilagan Frans við för þessa.
Og enda þótt ekkert hafi veiðst í ferðinni sannaðist þar einu sinni enn að sannleikurinn er sagna bestur.
Líka þegar maður segir veiðisögur.
Færslunni fylgir svo mynd af undirrituðum með lax á í Skjálfandafljótinu. Þar var ég á ferð með engum öðrum en mæstró Ingólfi Herbertssyni.
Þá var ég enn á maðkastiginu í veiðimennskunni.
Athugasemdir
Ég vona að það sé engin skömm að því að "missa"flugu af taumnum, en þegar maður fer í veiði er betra að hafa nokkrar flugur í farteskinu, því það vilja oft verða nokkur afföll á flugum hjá manni. Þær eru eins og gefur að skilja misjafnlega vel "hnýttar" og þola misjafna kasttækni misvel. En misjöfnum augum líta menn hrakfarir sínar að sjá spaugilegu hliðarnar á atvikinu, er að mínum dóm, stór kostur og hafðu bestu þakkir fyrir góða sögu.
Jóhann Elíasson, 30.7.2007 kl. 23:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.