6.8.2007 | 23:28
Bjartur er bærinn okkar
Ég var fjarri góðu gamni um verslunarmannahelgina en mér skilst að hátíðahöldin á Akureyri hafi gengið nokkuð vel. Sjálfsagt verður deilt um það næstur vikurnar hvers vegna svo hafi verið. Menn kenna um - eða þakka - afleitu veðri framan af, óvinsælli ákvörðun bæjaryfirvalda eða jafnvel nöldrinu í þessum háværu en örfáu prósentum bæjarbúa sem finnst nauðganir, eiturlyfjaneysla, líkamsárásir, spellvirki og fyllerí á börnum tæpast við hæfi á fjölskylduhátíð.
Reyndar heyrði ég í sextán ára stelpu áðan sem fór á unglingaballið í KA-heimilinu. Hún vildi ekki svara neinu um það hvort verið hefði mikið fyllerí en sagði mér á hinn bóginn að þar hefði verið hellingur af fimmtán og fjórtán ára krökkum. Þeir, eins og aðrir ballgestir, fengu afhentan smokk við innganginn. Ráku sum barnanna upp stór augu. Sjálfsagt þykir þetta fjölskylduvænt.
Verst þykir mér að margir af þessum krökkum yngri en sextán, sem ekki máttu vera á ballinu, fóru þangað með samþykki og vitund foreldra sinna.
Ég heyrði í fréttum í kvöld að einhverjir af þessum lágværu 96% bæjarbúa sem finnst allt í lagi með Eina með öllu undanfarinna ára kvarta sáran undan því hversu skikkanlega þó tókst til að þessu sinni. Ekki þarf að efast um að þeir munu strax hefja baráttu fyrir því að djöfulgangurinn verði á sínum góða stað að ári.
Blogginu barst kvæði. Ég legg til að hinn lágværi meirihluti fái músíkalskan mann til að gera við það lag og geri það að sérstökum baráttusöng sínum. Höfundur óskar nafnleyndar.
Bjartur er bærinn okkar
baðaður ælu og skít.
Smekklega dreifast smokkar
og smitast úr vilsa hvít.
Trítlar um torg og völlu
tilkippivænleg mær.
Eina fæ ég með öllu.
Ef ég er heppinn, tvær.
Gesturinn glaður veður
glerbrot um strætin hál.
Ó, hve hans auga gleður
alblóðug sprautunál.
Upp dópast Egils synir
og einhverjar dætur hans,
hátíð er halda vinir
háborgar Norðurlands.
ES
Einn af þeim sem héldu unglingaböllin hafði samband við mig og sagði mér að ballhaldarar hefðu ekki útdeilt smokkum til ungmenna. Það hefði verið gert af öðrum og ekki við inngang KA-heimilisins. Þá sagði hann mér að þessar samkomur hefðu farið óvenju vel fram. Þykja mér það að sjálfsögðu afburðagóð tíðindi og ekki nema sjálfsagt að gefa þeim Sjallamönnum alla vega eitt prik fyrir.
Athugasemdir
Sæll Svavar
Ég hjó sérstaklega eftir því að Bragi vildi í ár fara að nýta sér ummæli bæjarbúa sem hann að sama skapi hefur hundsað alfarið árin á undan. Úr því að hann ætlar sér að fara að hlusta á bæjarbúa núna þá vil ég hvetja alla til að láta í sér heyra í tölvupósti til bæjarfulltrúanna. http://www.akureyri.is/stjornkerfid/hafdu-samband/netfong/
Útkoman var góð í ár en ég get tekið undir það hjá sumum að aldurstakmarkið hafi ef til vill ekki verið besta lausnin. Mér hefði fundist reynandi á það að lengja ekki opnunartíma skemmtistaðanna þessa helgi frekar en að útiloka þennan hóp alfarið. Þar með gætu þeir komið á þessum aldri sem væru augljóslega ekki að eltast við það maraþonfyllerí sem fylgir alvöru útihátíðum.
Það stefnir enginn tveim svona augljóslega ólíkum hópum saman, sólarhringsdjömmurunum og fjölskyldufólkinu/rólyndum bæjarbúum án þess að það skapi stórfelld vandamál og óánægju.
Það fullyrðir enginn að hann sé að skapa fjölskylduhátíð á sama tíma og hann skælir yfir því að drykkjufólkið hafi ekki mætt til að eyða peningunum sínum.
Akureyri er ágætlega statt bæjarfélag held ég að flestra mati, það er enginn ástæða til að selja lífsgæði bæjarfélagsins fyrir peningahagnað útvaldra. Ef forkólfar hátíðarinnar hóta að hætta með hátíðina að ári þá verði þeim að góðu með það. Ég mun ekki gráta það þó að við fengjum bæinn okkar aftur úr hrammi þessara peningaplokkara.
Kveðja
-Kristín
Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 00:18
Næsta hátíð verður kannski ekki hér í bæ en vonandi þá verða einhverjir til að gæta barna þeirra Alkureyringa sem eiga þau á "djamm aldri" einhversstaðar annarsstaðar fyrst við erum búin að fá okkur fullsödd. Því ekki skulum við lemja hausnum endalaust við stein og álíta að börn hinna háttvirtu Akureyringa eigi ekki þátt í þessu rugli. Hvað þá fullorðnafólkið sem byggir þetta bæjarfélag og djammar út í eitt með gestum sínum.
Aðalheiður Magnúsdóttir, 7.8.2007 kl. 09:06
Þetta finnst mér frekar ódýr afgreiðsla hjá þér Aðalheiður. Ef fjöldinn á að samþykkja að fá allsherjar fyllerí yfir sig til þess að bjarga þeim börnum og/eða unglingum sem eiga ekki foreldra sem valda sínu foreldrahlutverki þá er alveg eins hægt að halda því fram að óstaðföstum foreldrum sé ógreiði gerður með hátíðinni.
Úr því að "allir" aðrir eru á fylleríi í bænum þá er kannski einhverjum öðrum börnum hleypt á djammið sem færu ekki annars.
Þó við vildum axla ábyrgð á þessum börnum sem eiga augljóslega að vera fyrst og fremst á ábyrgð foreldra sinna þá er það ekki rétta lausnin að kalla allsherjar fyllerí yfir alla aðra, öll hin börnin.
Ef þú hefur áhyggjur af börnum nágranna þinna þá skaltu fara einfaldlega og gagnrýna sinnuleysi þeirra beint við þau í stað þess að heimta það að svona ómarkviss og meingölluð aðferð sé notuð. Blátt áfram ábending myndi gera miklu meira fyrir þessi börn en stórfelld meðvirkni sem allur bærinn ætti að taka þátt í.
Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 10:36
Sæl Kristín
Ekki ætla ég að munnhöggvast við þig hér því síður að gera lítið úr ábyrgð foreldra því ég hef alltaf sagt að ábyrgðin er fyrst og síðast hjá þeim. Hvort sem ég hef verið á foreldravakt um helgar hér á Akureyri yfir vetrartímann eða staðið vaktina á skóladansleikjum barna minna hér í bæ þá eru staðreyndirnar því miður þær að þeir foreldrar sem kannski ættu að sinna hlutverki sínu eru ekki til staðar.
Ég ætla ekki heldur að mæla hátíðarhöldunum hér í bæ bót, en segi þó að við erum ekki bættari ef við ætlum bara að senda herlegheitin annað. Því oftar en ekki vill því bregða við að fólk sem talar á móti Ein með öllu vill að úthátíðirnar séu haldnar úti í sveitunum þar sem þær trufli ekki bæjarbúa. Því miður er þessi hugsun ansi algeng hér í bæ.
Með von um að áfengi fari ekki að fást í matvöruverslunum og lækki ekki í verði "því það held ég að geri allt aðgengi betra fyrir börn og unglinga" sem og það að fullorðnir hætti að gefa og kaupa áfengi fyrir börn og unglinga kveð ég þessa umræðu.
Aðalheiður Magnúsdóttir, 7.8.2007 kl. 13:16
Mér finnst þú, Kristín, gjörsamlega hitta naglann á höfuðið þegar þú talar um að "selja lífsgæði bæjarbúa fyrir peningahagnað útvaldra". Þetta snýst um peninga. Vinir Akureyrar stilla sér gjarnan upp sem uppeldisfrömuðum og æskulýðsleiðtogum. Þeir sjái til þess að "halda unglingunum heima" þessa helgi eins og það er orðað.
Þegar sukkveislan og eiturlyfjahlaðborðið er nánast í húsagörðum heimilanna þurfa foreldrar eiginlega að læsa börnin sín inni ef þeir vilja ekki að þau taki þátt í herlegheitunum. Það getur verið erfiðara.
Kaupmaðurinn sem kom fram í fréttunum í gær hitti líka naglann á höfuðið. Hann kvartaði undan því að þennan stóra neytendahóp, 18 - 23 ára fólkið, hefði nánast vantað á Eina með öllu. Kaupmaður þessi selur held ég hvorki grillkol, tannbursta, svefnpoka né annan viðlegubúnað. Hann selur tískufatnað og undanfarin ár hefur hann verið seldur drukknum unglingum fram yfir miðnætti þessa daga. Sér fólk virkilega ekki í gegnum þetta?
Ég tek undir með þér, Kristín. Látum í okkur heyra!
Svavar Alfreð Jónsson, 7.8.2007 kl. 13:30
Málið er bara að hátíðin myndi skapa jafn mörg vandamál (ef ekki fleiri) og hún ætti að leysa að þínu mati. Börn/unglingar sem annars myndu ekki taka þátt í fylleríshátíð gera það því að henni er skellt beint í fangið á þeim án þess að þau eða foreldrar þeirra hafi nokkuð um málið að segja.
Eins og Svavar bendir á þá voru til dæmis mikið af unglingum undir 16 ára aldri á 16 ára ballinu í Ka heimilinu. Hefðu allir þessir krakkar farið á svona ball ef það hefði ekki verið í boði hér í bænum? Margt þessarra barna eiga ef til vill foreldra sem hafa engan áhuga á því að eltast við skemmtanir þessa helgi en félagaþrýstingurinn er slíkur að margir gefa eftir þegar þetta er beinlínis í bakgarðinum hjá fólki.
Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 13:31
Er stemmingin á Akureyri almennt jákvæð fyrir því að banna fólki á aldrinum 18-23 ára að tjalda um verslunarmannahelgi, nema í fylgd með forráðamanni. Hver er forráðamaður sjálfráða einstaklings? Eru það foreldrar? Hvað ef foreldrar eru dánir? Hvenær verður maður fullorðinn á Akureyri? Ég botna lítið í þessari ákvörðun bæjaryfirvalda, auk þess sem hún er tekin með skammarlega stuttum fyrirvara. Eftir stendur að menn vita almennt ekki hverju er hægt að þakka (eða hverju að kenna) að hátíðin var jafn fámenn og raunin var og var jafn rósturlítil og raunin var. Var það veðrir eða var það tjaldstæðaákvörðunin?
Ég held reyndar að menn ættu almennt að setjast alvarlega yfir málin og athuga í alvörunni hvernig menn sjá svona hátíð fyrir sér. Hvað þýðir fjölskylduhátíð á Akureyri?
Guðmundur Örn Jónsson, 7.8.2007 kl. 13:33
Þessa ákvörðun bæjaryfirvalda verður að skoða í samhengi. Mörg undanfarin ár hefur verið reynt að hafa hér á Akureyri sérstök unglingatjaldsvæði, fyrir 18 ára og eldri. Það fyrirkomulag hefur ekki gengið. Fyrst var þetta reynt uppi á KA-svæði. Síðan hér við Þórunnarstrætið. Síðast úti á Þórssvæði. Þeir sem ráku tjaldsvæðin treystu sér ekki í meira. Vildu hafa 25 ára aldurstakmark. Björgunarsveitin Súlur, sem séð hefur um gæslu, sagði sig líka frá því verkefni. Forráðamenn tjaldsvæða hér í nágrenninu, bæði á Hrafnagili á á Dalvík, voru áhyggjufullir. Hvað átti að gera? Loka tjaldsvæðunum alveg?
Ekki veit ég hvort önnur viðmið um upphaf fullorðinsára gildi á Akureyri en öðrum stöðum. Þó þykist ég vita að hér í bæ er ekki litið þannig á að menn séu fullorðnir þegar þeir mega tjalda á tjaldsvæðum bæjarins um verslunarmannahelgina. Þar kemur ábyggilega fleira til. Til dæmis að fólk hagi sér eins og vænta má af fullorðnu fólki.
Tjaldsvæði eru auðvitað fyrst og fremst hvíldar- og gististaðir og þar eru ákveðnar reglur í gildi. Þegar svæðin breytast í sukksamkomur er verið að brjóta á þeim sem nota þessa staði til þess að sofa og hvíla sig. Auk þess er brotið á nágrönnum tjaldsvæðanna sem verða fyrir ónæði af samkomugestunum. Rekstraraðilum tjaldsvæða ber skylda til að tryggja gestum sínum og íbúum í nágrenninu næði. Til þess þarf stundum að takmarka aðgang að svæðunum og það er ekkert nýtt. Á Hrafnagili var til dæmis miðað við 20 ár og ég hef heyrt um aldursmörk allt upp í 30 ár.
Svavar Alfreð Jónsson, 7.8.2007 kl. 16:11
Umræðan er áhugaverð - og vonandi þroskast hún þegar rykið fellur til jarðar og hinir "sjálfskipuðu vinir Akureyrar" - gefa færi á því að fara yfir málin með reynslu áranna og yfirvegun þess aðdraganda sem líklega hefur verið heldur knappur að því er varðar PR-tengslin.
Met það svo að bæjarstjórinn hafi orðið fyrir ómaklegri ágjöf - í þessum leik - því ekki voru forverarnir færir um að leggja grunn að siðmenntaðri hátíð. Sigrún Björk á nú færi á að leggja upp betri hefð; í framhaldinu.
Held að við þurfum alltaf að geta boðið alla hópa velkomna - líka 18-23 ára - en tel augljóst að það hefði þurft annars konar undirbúning.
Eins og staðan er í dag vil ég sjá okkur Akureyringa leggja upp hátíð fyrir alla hópa og kynslóðir - sem byggist einkum upp í kring um það að við íbúarnir bjóðum vinum okkar og stórfjölskyldu í heimsókn - til að deila með okkur gleði og gamni - alla helgina. Til þess þarf öfluga dagskrá og dagskrárstjórn - góða markaðssetningu sem eflir metnaðinn og jákvæða tilfinningu fyrir því að vera á Akureyri - í góðu yfirlæti en án yfirgangs.
Heiti á alla Akureyringa að leggja saman - um að gera verslunarmannahelgina að einu risavöxnu ættarmóti - fyrir heimamenn og burtflutta - og bjóðum vinum og vandamönnum að deila því með okkur. Einni allsherjar mega-skemmtun - þar sem öllu hófi verður við komið (en auðvitað koma líka þau Jói og Sigga - sem hafa þann vanda að fara á límingunum og þau hin sem stundum fá sér of mikið neðan í því.
Er ekki tímabil sátta og samstöðu framundan? http://blogg.visir.is/bensi/2007/08/06/fyrir-hvern-er-verslunarmannahelgin-a-akureyri/
Áfram Svavar
Benedikt Sigurðarson, 7.8.2007 kl. 17:53
Þá er þessi helgi liðin. Það er athyglisvert að fylgjast með mönnum sem hafa sagt okkur árum saman að aðalatriðið sé fjölskylduskemmtun, gráta að það vantaði sukkliðið á svæðið. Mér eiginlega blöskrar hversu grunnar yfirlýsingar þessara manna eru og þeir hafa nokkuð opinberað það hugarfar sem að baki býr. Þeir hafa tapað aurum og náðu ekki að féfletta dauðadrukkna unglinga fram á nótt og það er auðvitað svolítið slæmt.
Þetta er besta yfirbragð sem hér hefur verið lengi. Að vísu vantaði fólk á flesta staði á Norðurlandi og þar spilaði veðrið stærsta rullu. 8 stiga hiti, 10-15 metrar og rigning eru ekki freisandi þegar veðurspá er skoðuð.
Nú er að láta rykið setjast og meta málið. Margt hefur opinberast sem var undirliggjandi og bæjaryfirvöld eiga auðveldara með að meta framhaldið. Nú held ég að sé loksins tækifæri til að gera verslunarmannahelgina góða fyrir Akureyri og Akureyringa.
Að lokum....það er langt síðan yngstu gestum hefur verið blandað saman við fjölskyldufólk og það er ekkert nýtt við að þeim var ekki hleypt inn á almenn tjaldsvæði innan um fjölskyldufólkið. Það sem er nýtt að bæjaryfirvöld ákváðu í júní að ekki yrðu unglingatjaldsvæði og ábyrgðarmenn hátíðarinnnar hafa reynt síðan þá að þvinga bæjaryfirvöld og rekstraraðila tjaldsvæðanna undir sinn vilja. Það gekk ekki eftir og bæjarstjórninn okkar á mikið lof skilið fyrir að standa í fæturnar þar.
Það eru líklega 10 ár síðan síðast var blandað hér á tjaldsvæði um þessa verslunarmannahelgi og þeir sem muna ástandið sem þá skapaðist standa svo sannarlega í fæturnar og bak við þessa ákvörðun. Hvað fjölskyldufólk vill gista á tjaldsvæðum sem verða þekkt að því að láta slíkt viðgangast. Ekki þar en á hótelum.
Jón Ingi Cæsarsson, 8.8.2007 kl. 12:57
Sæll Svavar! Þú færð bara margar heimsóknir inná síðuna þína. Kannski fleiri heimsóknir en karlarnir hans Braga (Bergmann) fengu um Verslunarmannahelgina. Mér sýnist sem hann hafi fyrir hönd þeirra sem kenna sig bæjarvinskap okkar standi nú og fyrr organdi á “Mömmu” sem bannaði þeim að bjóða “bestu gestunum” í veisluna. Margir komu, en þeim er með háværum hrópum varla sýnd lágmarks athygli og kurteisi, þar sem þeir sem gefa stærstu gjafirnar máttu ekki koma. Óhemjunni er leyft að standa organdi út í dyrunum, meira segja áður en veislan byrjaði og kenna krökkunum í húsi nr. 9 um öll leiðindin. Þrátt fyrir að veislan tækist með ágætum, fékk Krakkinn samt gestina púa á ákvörðun “Mömmu” í veislulok. Já eitthvað komu færri gestir til Akureyrar um liðna helgi, og þá sýnist sem að gróðavænlegustu árgangana vantaði í torfuna þetta árið. Er þá e.t.v. ekki vert að spyrja um hvort einhver ástæða liggi að baki? Augljóst er að nokkrir þættir gætu hafa komið inn í ákvörðun ferðafólksins. Skyldi það hafa verið erfið ákvörðun að ákveða hvort maður ætti að halda sig í góða veðrinu fyrir Sunnan eða fara í rigninguna og kalda rokið fyrir Norðan? Það má líka velta fyrir sér hvort allir séu búnir að ferðast mikið í sumar með hala eða hús á palli þannig að ferðahugur hafi bara verið minni. Af hverju ætti fólkið að fara úr aðstæðum sem eru góðar á stað sem verri í því tilliti? Jú, í þessu tilfelli gæti það hafa verið fýsilega dagskrá sem boðið var uppá. Er búið að meta það hvort að hún hafi höfðað til barnlausra einstaklinga sem ekki voru í sambúð og án barns og eru á aldrinum 18-23 ára? Hversu margir af þeim hefðu komið frekar en að fara á Þjóðhátíð í Eyjum með góða veðurspá? Svo gæti einnig spilað inní þetta markaðsetning. Kaupmenn sem telja sig í vinfengi við Akureyri hljóta að kunna hana upp á hár. Eða var einhver lokkun í kynningu þeirra með Braga grenjandi m.a. í “fjölmiðlum allra landsmanna” sítandi ákvörðun bæjarstjóra. Má ekki ætlast til af RÚV að málið væri tekið faglegum tökum í bæ sem hægt er að afla sér háskólagráðu í fjölmiðlun? Mér finnst við Akureyringar vera málaðir útí horn í hverju málinu á fætur öðru. Það væri líka hægt að beita viðskiptalegum rökum frá sömu stofnun til að reikna út þær tug- eða hundruða milljóna króna sem verslunarmenn á Akureyri urðu af á helgi sem kennd er við Frídag verslunarmanna. Eða er þetta orðið Verslunardagur Frímanna? Nú gæti verið tæpt ár í næstu fjölskylduhátíð og því gott að hefja undirbúning hennar þegar blóðhitinn lækkar og þessi reynsla sem aflað var er í fersku minni. Látum hótanir og hurðaskelli á fundum samstarfsaðila um síðustu hátíð ekki koma í veg fyrir að við tökum góða ákvörðun um hátíðarhöld sem flestir geta sætt sig við. Einnig þarf að huga að gestakomu á fleiri “hátíðum” sumarsins þannig að sómi verði af og gæði þess að búa í bænum okkar skerðist ekki.
Björn Jóhannsson (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 00:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.