8.8.2007 | 12:52
Engin undankomuleið
Presturinn er sóttur að dánarbeði gamla trúleysingjans og gerir örvæntingarfulla tilraun til að snúa honum á réttan veg áður en það verður of seint. Þegar allt um þrýtur útmálar hann fyrir manninum þær óumræðanlegu píslir og eldskvalir sem bíða þeirra iðrunarlausu í helvíti og endar þá ræðu með því að segja að þar verði grátur og gnístran tanna.
Hinn forherti vantrúarseggur lætur sér fátt um finnast og kveðst fyrir löngu tannlaus orðinn.
En presturinn gefst ekki upp og hrópar:
"Það verður séð fyrir tönnum!"
Athugasemdir
Jóna Á. Gísladóttir, 8.8.2007 kl. 13:07
Skemmtilegur brandari. En mér þætti fróðlegt að fá að vita hjá prestinum hvað honum finnst um athafnir þessa kollega síns þarna í sögunni. Er þetta siðleg hegðun sem þessi prestur sýnir af sér, að reyna að véla undir hugmyndakerfi sitt með hótunum mann sem vill ekkert með það hafa?
Trúir Svavar þessu með helvítiseldana sjálfur? Ef ekki, þá af hverju? Þetta er nú einu sinni það sem Jesús sjálfur boðar?
Og raunar mætti spyrja að því líka hvort prestinum finnist í lagi að gantast með jafn grafalvarlegt mál og það hvað kristin trú segir að verði um trúleysingja eftir dauðann. Finnst þér örlög þessa fólks, eftir því sem kristnin sjálf boðar, vera eitthvert grín?
Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 18:05
Himnaríki eða Helvíti er ekki spurning um trú eða trúleysi. Ef menn hljóta misjöfn örlög eftir sinn dag hér er það væntanlega frekar tengt því hvernig menn koma fram við samborgara sína og umhverfi heldur en hverju þeir trúa um eigin örlög. Þetta er kafli sem alltaf hefur vantað í blessaða Biblíuna, eða ekki verið skrifaður á skiljanlegu máli.... en ágætur brandari samt :)
Því er ég nokkuð viss um að "geðveikislegar" tilraunir prestsins til að snúa gamlamanninum hafi ekki miklu skipt máli um hvort hann yrði engill eða eitthvað annað ...... Kannski hafa efasemdir prestsins og hans barátta um að þóknast sínum guði með því að ná einum enn á "klippikortið" sitt ráðið athöfninni. (og annað bros) he he ...
Hólmgeir Karlsson, 8.8.2007 kl. 22:13
Ég hef nú ekki mikla trú á því að hægt sé að hotta fólki inn í guðsríkið, Birgir minn. Síst skynsömum mönnum eins og þér.
Auðvitað eru örlög okkar eftir dauðann grafalvarlegt mál, hvort sem við trúum því að við hefjumst þá til dýrðarinnar, brennum í eilífum eldi eða verðum étin af möðkum.
Sjálfum finnst mér tveir síðustu kostirnir lakastir.
Ég vona samt að við verðum aldrei það ferköntuð í hugsun að við hættum að sjá skoplegu hliðarnar á alvörunni.
Svavar Alfreð Jónsson, 8.8.2007 kl. 22:20
Í tilefni af umræðunni hér fyrir ofan: Ég skrifaði einu sinni blogg þar sem ég grínaðist með það hvað ég og eiginmaðurinn myndum láta setja á legsteina hvors annars. Mér finnst það alltaf jafn fyndin grafskrift og sé fyrir mér vinina elska að koma í kirkjugarðinn og hlæja með okkur. Sumir í kommentakerfinu mínu þorðu ekki að hlæja með mér, þurfti þó nokkrar útskýringar áður en þeir skyldu að það má líka grínast með dauðann, svo fremi sem það meiðir engan - ekki satt?
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 22:34
Góður í markaðsfræðinni guðsmaðurinn þarna
krossgata, 9.8.2007 kl. 10:46
Tarna tókst þér að ná í athygli fólks og allt gott um það að segja, Svavar. Hálfljótt af sumum hér að leggja þetta allt út sem peningaplokk. Aðrir hafa gott auga fyrir því skoplega í sögunni. Og vel svararðu honum Birgi og samt ekki með neinni undanfærsluguðfræði.
Jón Valur Jensson, 9.8.2007 kl. 12:04
Hólmgeir segir:
"Ef menn hljóta misjöfn örlög eftir sinn dag hér er það væntanlega frekar tengt því hvernig menn koma fram við samborgara sína og umhverfi heldur en hverju þeir trúa um eigin örlög."
Þessi útlistun er í algerri andstöðu við það sem Páll postuli og Lúther boða. Svavar hlýtur að vera sammála mér um það, ekki satt?
Svavar skrifar:
"Auðvitað eru örlög okkar eftir dauðann grafalvarlegt mál, hvort sem við trúum því að við hefjumst þá til dýrðarinnar, brennum í eilífum eldi eða verðum étin af möðkum."
Örlög okkar eftir dauðann eru auðvitað grafalvarlegt mál að því gefnu að helvíti sé til. En ef ekkert er annað þarna en maðkar að hamast á skynlausu líki er dauðinn léttvægur, draumlaus svefn til eilífðar, sama ástand og við vorum í áður en við fæddumst. Ekkert hræðilegt við það.
Það eina hræðilega í þessu öllu saman er sú innræting sem kennir fólki að hræðast helvítislelda.
En þú semsagt *vonar* að örlög þín verði ekki að fúna í mold. En það heiðarleg afstaða að ákveða bara að það sem maður vonar að sé rétt sé það? Er það dyggð að láta raunveruleikann ekki trufla heimsmyndina?
Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 08:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.