Yndislega Akureyri!

AkureyriAkureyri er menningarbær. Þar eru frábærir skólar á öllum stigum og stórkostlegir listamenn í öllum greinum. Þar eru leikhús og bíó. Listagil og flott menningarhús í byggingu. Bærinn iðar af lífi. Skemmtilegur kaffihúsakúltúr er að myndast. Akureyringar eiga ekki lengur Lindu og KEA, en enn eru þar JMJ og Hafnarbúðin (sem heitir reyndar Hólabúðin), rótgrónar verslanir með kaupmönnum sem kunna sitt fag. Verslunum fjölgar stöðugt og sama máli gildir um veitingahúsin sem sum eru á heimsmælikvarða. Akureyri er safnabær. Þar er minjasafn, iðnaðarsafn, flugminjasafn, listasafn og skáldahús þeirra Matta Jokk, Davíðs frá Fagraskógi og Nonna. Í bænum og nágrenni hans er fjöldi stórkostlegra gönguleiða. Akureyri er af mörgum talinn fegursti bær landsins, bæði bærinn sjálfur og umhverfi hans. Er Sjallinn ekki frægasti skemmtistaður landsins? Það er mjög fjölskrúðug öldurhúsaflóra á Akureyri. Alls konar íþróttamannvirki eru á Akureyri. Golfvöllur, skautahöll, skíðasvæði og sundlaugar. Akureyringar eiga bæði Lystigarðinn og Kjarnaskóg. Úr Pollinum má draga þorsk og jafnvel silung. Á Akureyri er prýðileg aðstaða fyrir ferðafólk, gististaðir af ýmsum gerðum og - öhömm - tjaldsvæði.

Margt fleira mætti nefna en ofan á það allt hefur Akureyri upp á sjálfan Akureyringinn að bjóða, homo akureyrensis, þetta seintekna og sérkennilega eintak sem er svo stolt af bænum sínum og finnst veðrið þar undantekningarlaust gott. Homo akureyrensis tekur aðkomufólki með fyrirvara. Auðvitað ætti fyrir löngu að vera búið að markaðssetja þá andúð, eins og Keli á bókasafninu stakk upp á. Ekki síst fyrir þá sök að meira en helmingur Akureyringa er einmitt aðkomufólk.

Akureyri er ekkert smáræði. Maður veit þess vegna ekki hvort á að hlæja eða gráta þegar menn reyna að lokka þangað ferðafólk með því að benda á að þar sé svo gráupplagður vettvangur fyrir barnafyllerí og dópneyslu og mun betra sé að láta nauðga sér á Akureyri en til dæmis einhvers staðar úti í sveit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband