Glöð og góð er vor æska

fermingarskoli2007a

Unglingarnir okkar eru frábærir - þótt þeir komist helst ekki í fréttir nema ef þeir fara fram úr sjálfum sér um verslunarmannahelgina og brjóta rúður í miðbænum.

Þessi aldurshópur átti einstaklega góða fulltrúa á fermingarskóla Akureyrarkirkju á Vestmannsvatni þaðan sem ég er nýkominn. Mikið ofboðslega var gaman að vera með krökkunum.

Æska landsins er kurteis, lífsglöð, hugsandi og falleg.

Á Vestmannsvatni var hvorki útvarp né sjónvarp. Tölvur voru engar og farsímar sparlega notaðir. Unglingarnir voru samt ekki lengi að læra á staðinn þrátt fyrir ókræsilegt veður, norðansudda með rigningarúða og hitastigi sem þokaðist ekki upp í tveggja stafa tölur.

Það er útbreiddur misskilningur að hafa þurfi einhverja ægilega dagskrá til að hafa ofan fyrir ungu fólki. Á Vestmannsvatni tíndu krakkarnir ber. Voru í útileikjum. Spjölluðu saman inni í herbergjum. Sögðu prestunum brandara. Spiluðu bingó. Sungu. Tóku af áhuga þátt í fræðslustundunum. Sofnuðu kannski fullseint - en voru þess í stað bæði hljóð og prúð í morgunbænunum. Glöddust ósegjanlega þegar tilkynnt var að boðið yrði upp á nýbakaðar vöfflur með kaffinu.

Meira þurfti nú ekki.

Maður yngist um mörg ár við að vera með svona fólki. Og eldist alveg óhræddur fyrst þau sem landið erfa eru svona vel gerð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Það var og þetta var gott að lesa. Það mætti nefnilega oftar tala um það sem gott er. Ætli það myndi ekki líka vera minna um það slæma ef við blésum það ekki endalaust út í fjölmiðlum.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 17.8.2007 kl. 11:39

2 Smámynd: krossgata

Upp til hópa eru unglingarnir okkar ágætt fólk.  Í öllum aldurshópum eru svartir sauðir og það hefur verið tilhneiging að blása misgjörðir og/eða mistök þeirra út yfir allan aldurshópinn og stimpla þau óalandi og óferjandi.  Það er til dæmis ömurlegt að horfa á hvernig komið er farm við þau í verslunum og það þó unglingurinn hafi ekkert sagt eða gert til að gefa tilefni til dónaskaps annað en vera unglingur.  En það er gaman að einhver vill og nennir að segja jákvætt frá.

krossgata, 17.8.2007 kl. 19:56

3 Smámynd: Þorbjörg Ásgeirsdóttir

Jú...þetta er málið. Takk fyrir mína.

Þorbjörg Ásgeirsdóttir, 17.8.2007 kl. 21:10

4 identicon

Gaman að heyra þetta. Þeir unglingar sem ég þekki eru upp til hópa skemmtilegir og kurteisir. Mér finnst fátt leiðinlegra en þegar fólk býsnast yfir "unglingum nú til dags" sem geta ekkert, nenna engu og eru dónalegir, óalandi og óferjandi. Það er langt í frá mín reynsla af unglingum.

Þorgerður í Nottingham (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband