20.8.2007 | 11:15
Þetta er yndislegt líf
Birti hér prédikun mína í Hallgrímskirkju í gær, en þar vorum við Akureyringar í messuheimsókn á lokadegi kirkjulistahátíðar. Prédikunartextinn var Lúkas 7, 36 - 50.
Ég er heppinn í dag. Fæ bæði að að fjalla um eina af uppáhaldssögunum mínum úr Nýja testamentinu og ég ætla líka að tala um eitt af mínum uppáhaldslögum.
Í laginu What a Wonderful World" eftir þá Bob Thiele og George David Weiss syngur Louis Armstrong um hina undursamlegu veröld. Armstrong syngur um græn tré, rauðar rósir, sem blómstra fyrir mig og þig. Hrjúfur rómur söngvarans málar fyrir okkur bláan himin, hvít ský, bjartan og blessaðan dag og dimma og heilaga nótt. Litir regnbogans birtast í tónum lagsins og þar er sagt að þeir litir séu líka á andlitum fólksins, sem á vegum okkar verður. Armstrong syngur um vini sem heilsast og segir að þegar þeir spyrji hver um annars líðan séu þeir í raun að tjá væntumþykju og ást. Ég heyri börn gráta," syngur Armstrong, ég fylgist með þeim vaxa. Þau eiga eftir að læra meira en ég mun nokkurn tíma gera. Og ég hugsa með mér: Þetta er yndislegt líf."
Núna eftir Hinsegin daga erum við minnt á að allar dagar eru hinsegin. Hver dagur einstakur í veröld þar sem hver manneskja er einstök. Þetta er undursamleg veröld, litskrúðug eins og blómum prýtt engi og litir regnbogans eru í andlitum fólksins sem við mætum.
Það er svo satt sem einu sinni var sagt: Merkilegt hvað fáir eru eins og fólk er flest.
Louis Armstrong sá undursamlega veröld í fyrirbærum, sem við höfum oft fyrir augunum, í trjám, blómum, himni, skýjum, deginum, nóttinni, regnboganum, andlitum, vinum, kveðjum og grátandi börnum. Hann bendir á þetta allt og segir: Þetta er yndislegt líf. Þetta er undursamleg veröld.
II.
Þann 6. ágúst árið 1945 var kjarnorkuvopninu í fyrsta skipti beitt gegn fólki, þegar Bandaríkjamenn vörpuðu atómsprengjunni Litli drengur" á borgina Hiroshima í Japan. Þremur dögum síðar sprakk sprengja sömu gerðar í borginni Nagasaki. Sú hét Feiti maður".
Aldrei fyrr í sögunni hafði sú ógn orðið augljósari sem manninum stafar af sjálfum sér. Maðurinn er hættulegur og svo mikill er máttur hans að hann getur tortímt öllu lífi á þessari jörð.
Jörðin er í uppnámi, öll þessi yndislega veröld. Það eru ekki einungis gjöreyðingarvopn sem ógna henni. Hugkvæmni manneskjunnar virðist fá takmörk eiga sér þegar um er að ræða að finna leiðir til að skemma og eyðileggja þennan heim.
Við sóum auðlindum heimsins, við mengum loftið svo gegndarlaust að veðurfar er að breytast. Við munum, ef ekkert verður gert, úthýsa sjálfum okkur af þessari plánetu. Við látum viðgangast að fólk úti í heimi deyi úr hungri, vosbúð og sjúkdómum, því gæðum heimsins er svo misskipt, að meðan sumir vita ekki hvað þeir eigi að gera við auðæfi sín, fá aðrir ekki nóg til að lifa.
Afstaða okkar til heimsins einkennist ekki af þeirri lotningu, aðdáun og þakklæti, sem fram kemur í söngnum um hið yndislega líf. Við viljum drottna og ríkja. Við viljum neyta og eignast. Hafa fremur en vera.
Jörðinni okkar stafar hætta af lífsháttum okkar og viðhorfum. Svo upptekin erum við af því að fá okkar skerf, öðlast okkar hlutdeild, skera okkar sneið af því sem heimurinn hefur upp á að bjóða, að smám saman glötum við hæfileikanum til að dást að honum, finna til lotningar gagnvart sköpunarverkinu og vera þakklát fyrir allar þess gjafir.
III.
Guðspjall dagsins fjallar um lotningu. Bersyndug og fyrirlitin kona kemur inn í hús Símonar farísea. Hún hafði frétt af Jesú þar inni og hefur með sér alabasturbuðk með dýrum smyrslum. Þessi kona sem á ekki einu sinni mannorð gengur til Jesú, sest grátandi við fætur hans. Án þess að mæla orð tekur hún að væta fætur Jesú með tárum sínum, þerra þá með hári sínu, kyssa þá með vörum sínum og rjóða þá hinum dýru smyrslum.
Ó, ég þarf að krjúpa, krjúpa, koma til þín heitri þökk," yrkir önnur kona í Sálmabókinni okkar. Sú er í sömu stellingu og bersynduga konan í guðspjallinu. Báðar krjúpa niður og vilja tjá heitar þakkir, lotningu, aðdáun og ást.
Kristnir menn geta verið með mörgu móti, þeir geta haft mismunandi skoðanir, litið lífið ýmsum augum og þess vegna getur verið erfitt að tala um sérstakan kristinn lífsstíl. En ef við leitum hans, ef við leitum að því sem helst ætti að einkenna kristna manneskju, ættum við ef til vill að líta til þessara tveggja kvenna. Lífsstíll þakklætisins hæfir kristnum manni best. Hann er þakklátur. Hann lítur lífið og tilveruna augum þakklætisins, aðdáunarinnar og lotningarinnar.
Og nú, þegar við höfum haldið hátíð kirkjulegra lista, eru þakklætið, aðdáunin og lotningin meginþræðirnir sem öll trúarleg listaverk eru spunnin úr. Kirkjulist er í raun ætíð smyrsl í gifsbauk og tár á fótum frelsarans, kossar manneskju sem þarf að tjá heita þökk.
Kirkjulist er að þessu leyti andstæða við þann lífsstíl sem nútíminn aðhyllist, kröfuhörkuna og ófullnægjuna. Við erum upptekin af því sem okkur skortir og sífellt er verið að minna okkur á það. Ekki nóg, ekki nóg," segja allar heimsins klukkur. Tif þeirra er ein forsenda hagkerfisins. Þar þurfa alltaf að vera einhverjar ófullnægðar þarfir. Hagkerfið þrífst ekki án undirliggjandi óánægju. Það þarf áhyggjufullt fólk, sem lifir í stöðugum ótta við að vera að missa af einhverju, er hrætt um að verið sé að hlunnfara það og sneiðin af kökunni sé of lítil.
IV.
Það að trúa er ekki fólgið í því að uppgötva með einhverjum hætti að til sé Guð. Jafnvel Óvinurinn sjálfur trúir þannig á Guð. Það að trúa er að treysta Guði. Treysta honum fyrir lífi sínu. Lifa í ljósi orðanna úr 23. sálmi Davíðs: Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta."
Mig mun ekkert bresta. Kristin manneskja trúir því að Guð muni vel fyrir sjá. Trúin á góðan Guð veitir öryggi. Við erum örugg í faðmi Guðs. Hann er alltaf að gefa okkur eitthvað. Hann er Gjafarinn, sem er eitt heita Guðs á íslensku. Við erum umvafin gjöfum hans og þær allar vitna um gæsku hans. Og þess vegna er enginn lífsstíll kristnari en sá, sem birtir heitar þakkir fyrir þá gæsku, náð og miskunn.
Þetta er yndislegt líf. Þetta er undursamleg veröld. Hin grænu tré, hinar rauðu rósir, hinn blái himinn og hin hvítu ský, hinn bjarti og blessaði dagur og hin myrka og heilaga nótt. Litir regnbogans, kveðja góðra vina, þroski lítilla barna. Hvílík undur! Og mikill er sá Guð, sem allt þetta gefur og gerir!
Og við tökum undir með orðum sálmsins, sem var lexía dagsins: Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir."
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Athugasemdir
"Það að trúa er ekki fólgið í því að uppgötva með einhverjum hætti að til sé Guð. Jafnvel Óvinurinn sjálfur trúir þannig á Guð. Það að trúa er að treysta Guði."
Þetta finnst mér mjög góð útskýring og fela margt í sér í einfaldleika sínum.
krossgata, 20.8.2007 kl. 16:28
Ég þakka þér fyrir stórgóða prédikun í gær. Já, þetta er dásamleg veröld sem við búum í, því miður gleymist alltof oft að þakka fyrir það og bera virðingu fyrir þeim gæðum sem hún gefur okkur. Við erum oft eins og ósiðuð, heimtufrek börn sem vilja bara fá meira og meira og kunna ekki að þakka fyrir sig, heldur brjóta og týna.
Greta Björg Úlfsdóttir, 20.8.2007 kl. 19:38
sæll Svavar,
ég datt niður á prédikunina þína þar sem ég sat yfir morgunkaffinu mínu, kíkti með öðru auganu á Moggann og hinu út á trén mín sem teygja sig nánast inn um stofugluggann minn hér í Salzburg. Finnst ég muni byrja daginn á annan hátt eftir að hafa lesið skrifin þín og vildi bara segja takk.
Rósa Kristín Baldursdóttir (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 08:31
Góððan daginn Svavar.
Ég hafði í önnum helgarinnar séð einhversstaðar eitthvað sem presturinn Svavar hafði að segja, er nú komin á bloggið þitt að lesa greinina þína. Mikið er þetta ánægjulegt að leggja út frá hinu fallega. Ég verð að segja það að ég vil helst að lagið It's a wonderful world verði flutt yfir mér látinni.
Það verður ánægjulegt að heyra frá þér á næstunni, ég verð að segja mjög ánægjulegt. Veröldin hefur verið svo falleg hér á höfuðborgarsvæðinu, eina sem mér fannst vanta persónulega, voru elskulegu Hunangsflugurnar sem hafa unnið sín landbúnaðarstörf í góða veðrinu. Takk fyrir.
SólveigHannesdóttir (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 14:24
Snilldarræða þetta þakka fyrir mig/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 21.8.2007 kl. 17:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.