Blessaðir gamlingjarnir

cato-the-elder-1-sized[1]Nú þykir fínt að vera grannur. Þess konar holdafar ber vott um sjálfsaga og heilbrigðan lifnað. Feitt fólk er á hinn bóginn kærulaust og ber hvorki virðingu fyrir sér sjálfu né öðru. Landnámsmaðurinn hér í Eyjafirðinum, Helgi magri, þyrfti ekki að skammast sín fyrir sitt viðurnefni væri hann uppi nú á dögum.

Öðru máli gegnir um annan tveggja landnámsmanna Ólafsfjarðar. Sá hét Gunnólfur og var kallaður gamli. Nú þykir nefnilega ekki síður hallærislegt að vera gamall en digur.

Ég er oft í vandræðum með hvernig ég eigi að ávarpa gamalt fólk. Langt er síðan ég var áminntur um að nefna það ekki gamalt. Ég hef líka verið spurður að því hvort mér finnist sæmandi að kalla fólk sem komið er af léttasta skeiði aldrað. Nú má helst ekki tala um elliheimili. Þau eru dvalarheimili. Þar eru hvorki öldungar né gamlingjar heldur eldri borgarar og meira að segja "fullorðið fólk".

Spurning hvort einhvern tíma verði tekið upp lýsingarorðið "óungur"?

Það er svo ófínt að vera gamall að ég þekki konu sem hvað eftir annað fékk synjun um vinnu vegna þess að hún þótti of gömul. Hún var sum sé rúmlega fimmtug.

Mér þykir gamalt fólk hið skemmtilegasta. Það býr yfir mikilli reynslu og speki. Það hefur frá mörgu að segja og hefur unun af því ef einhver hefur tíma til að hlusta. Oft eru miklir húmoristar í hópi gamals fólks. Það er líka gjarnan sérviturt og með aðrar skoðanir en mannkynsfrelsararnir allir og álitsgjafarnir í fjölmiðlunum. Ég tek undir með Kaj heitnum Munk sem segir: "Maður getur elskað heilt býli vegna þess eins að þar er hressilegur, ljúfur öldungur, karl eða kona."

Hér fyrir ofan er mynd af frægum öldungi, Kató gamla. Hann fæddist árið 234 fyrir Krist og lést 85 árum síðar. Náði með öðrum orðum háum aldri og stóð undir nafni, alla vega seinni hluta ævi sinnar. Þetta var agalegur nagli eins og myndin sýnir. Ekki var hann ýkja hrifinn af hellenskri menningu og framgangi hennar. Taldi að hún ógnaði Róm og þess vegna væri nauðsynlegt að eyða borginni Karþagó. Hafði Kató fyrir sið að enda ræður sínar á því að hvetja til verksins. "Carthago delenda est!"

Kató gamli var valdamikill maður og býsna sprækur. Hann - eins og aðrir - þurfti samt að lokum að beygja sig fyrir valdi ellinnar. Heilsan bilaði. Sjálfsagt hefur hann barmað sér og vantreyst að hætti gamals fólks. Hvaða gagn er af gömlum manni? Hvaða not hefur Guð fyrir þá sem búnir eru með alla sína krafta?

Því svarar Kaj Munk og ég enda þessar hugleiðingar mínar á því svari:

"Já, stundum getur hann haft meiri not af þeim en hinum, sem eru heilir og hraustir, því að þeim er tíðum gjarnt að krafta sína í sjálfs sín þjónustu en ekki hans." 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: krossgata

Það er orðið vandtalað í þessum heimi.  Það þykir orðið óviðeigandi að nefna hlutina réttum nöfnum af því það er móðgandi, fordómafullt eða hvað eina.  Hver ákveður annars hvað er ekki við hæfi að segja?  Ætli það sé gamalt fólk sem hefur á móti því að það sé gamalt fólk eða aldrað?  Amma mín er áttræð og verður ekkert móðguð ef hún er sögð gömul enda sé hún orðin þetta fullorðin segir hún þó henni finnst hún nú ekkert svona gömul í huganum. 

krossgata, 22.8.2007 kl. 18:05

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Æskudýrkunin í þjóðfélaginu er að verða vandamál.

Svavar, ég álpaðist til að opna gestabókina mína (í fyrsta skipti í marga mánuði) og sá þá svarið þitt til mín. Takk kærlega fyrir það.

Jóna Á. Gísladóttir, 23.8.2007 kl. 09:10

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er langbest að deyja bara áður en maður verður gamall. Einföld og þægileg lausn á ellivandamálinu.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.8.2007 kl. 20:35

4 identicon

Sæll, hérna sló aðeins saman. Karþagó var stofnuð af Föníkumönnum og telst púnversk menning en ekki hellensk. En íslenska Wikipediu greinin um Kató eldri orðar þetta ekki nógu skýrt. http://is.wikipedia.org/wiki/Cato_eldri "Grísk áhrif árómverska menningu voru Cato eitur í beinum. Veldi Karþagó og viðreisn að loknu öðru púnverska stríðinu voru honum einnig þyrnir í augum "... Sá sem les þetta hratt og veit ekki eða er búinn að gleyma uppruna Karþagó gæti fundist að Karþagó væri hellensk, þegar í raun er verið að telja upp tvö helstu hatursefni Katós.

En greinin hjá þér er góð.

Með kveðju Björ

Björn S. Einarsson (IP-tala skráð) 26.8.2007 kl. 11:34

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka Birni ábendinguna. Var Karþagó ekki í Túnis?

Svavar Alfreð Jónsson, 26.8.2007 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband