24.8.2007 | 10:06
Vísindi og sjálfsþekking
Sú skoðun virðist útbreidd að engin þekking sé sönn nema hún hafi vísindalegan grunn. Það óvísindalega er grunsamlegt í okkar eyrum, ótraust og hefur á sér yfirbragð blekkingar, því okkur finnst að eina leiðin að sannleikanum sé með aðferðum vísindanna. Þess vegna er trú og vísindum gjarnan stillt upp sem andstæðum. Sumir vísindamenn eru í krossferð gegn trúarbrögðunum og sumir trúmenn hafa sagt vísindunum stríð á hendur.
Auðvitað eru vísindin ein leið til að þekkja hlutina. Þau eru mikil og þakkarverð Guðs gjöf og hafa fært manninum mikla blessun.
En þau eru mannanna verk og undir sömu rök seld og önnur slík. Sannleikur vísindanna er til að mynda ekki endanlegur. Hann breytist. Ekki er langt síðan Plútó missti stöðu sína sem níunda reikistjarnan frá jörðu og sú sem er lengst frá plánetunni okkar, svo dæmi sé tekið. Vísindin eru augu okkar og eyru en oft eru hlutirnir ekki eins og við sjáum þá eða heyrum þá.
"Gnóthí seáton" eða "þekktu þig sjálfan" sögðu Grikkir til forna. Síðan hefur margt gerst og mannkyninu fleygt fram. Nú vitum við alveg ótalmargt sem hinir gömlu Grikkir vissu ekki. Getum við þá fullyrt að þeir hafi ekki þekkt sig jafnvel og við? Þekkir nútímamaðurinn sjálfan sig betur en forverar hans? Hvað um hin gömlu meistaraverk bókmenntanna, sem mörg bera vott um djúpa og hispurslausa sjálfsþekkingu höfunda? Og þekki nútímamaðurinn sig betur en fólk á fyrri tíð, hvernig stendur þá á því að við virðumst sífellt firrtari okkur sjálfum, erum sjálfum okkur framandi, þekkjum ekki hver við erum? Hvernig stendur þá á því að margir telja sjálfsfirringu mannsins einn helsta vanda okkar upplýstu tíma?
Vísindin geta svarað ýmsu um okkur en þau svipta ekki hulunni af okkur í eitt skipti fyrir öll. Fólk sem ekkert kann fyrir sér í vísindalegum aðferðum getur öðlast mikla sjálfsþekkingu. Hálærðir vísindamenn geta á sama hátt verið sjálfum sér gjörsamlega firrtir.
Vísindin eru alveg mögnuð. Þau eiga svör við mörgu en leysa ekki allt. Þau svara til dæmis engu um margt af því sem varðar manninn mestu.
Vísindin geta stundum hjálpað okkur að finna hvað við þurfum. Þau eru samt frekar máttlaus í því finna hvað við viljum. Sá veit hvað hann vill sem þekkir sig sjálfan.
Kannski þess vegna reynist svo auðvelt að telja upplýstu nútímafólki trú um að það þurfi ýmislegt sem það vill ekki eða vilji eitthvað sem það í raun og veru hefur enga þörf fyrir.
Athugasemdir
Alveg frábær skrif hjá þér. V´sindin eru mögnuð gjöf en engin endanlegur sannleikur..meira svona eins og ferðalsg um heima sem við kunnum ekki alveg skil á. Og sjálfsþekkingiin kemur ekki í gegnum vísindin. Hef oft velt fyrir mér hvort það sé orsök firringar nútímans eða nútímamannsins að sjálfsþekkingunni hefur farið aftur...aftengingin við almættið og náttúruna hlýtur að spila þar inní.
Kveðja
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.8.2007 kl. 14:05
Hvað meinið þið eiginlega með hugtakinu "vísindi"?
Ég sé nefnilega ekki betur en að þið séu að misnota það hugtak herfilega.
Sem er svosem ekkert nýtt.
Matthías Ásgeirsson, 24.8.2007 kl. 14:43
Vísindi eru bara mannsins verk. Þau voru ekki sköpuð af náttúruöflunum, eru ekki frumefni og eru ekki lífið. Þau eru kerfi og leiðir til að afla þekkingar og skýra út. Ágæt til síns brúks en óþarfi að gera þau að Guði eða sannleika þó þau megi nota til að finna einhvern sannleika.
krossgata, 24.8.2007 kl. 16:03
Ég sé ekki alveg hvað þú ert að reyna að sýna fram á með þessari röksemdafærslu. Að vísindin geti ekki svarað öllum mögulegum spurningum um manninn og alheiminn? augljóslega (duh), en það breytir því ekki þetta er það tól sem við höfum til að rannsaka okkar eigin heim og tilveru.
Skilgreining þín á vísindum er einnig svo óljós og þokukennd, að skrif þessi hafa í raun ekkert gildi.
En ef þú ert að gagnrýna vísindi fyrir það að vera ekki einhver alvitur og almáttug "eining" líkt og hinn kristni guð, þá er það alveg rétt og einmitt það jákvæðasta við vísindi.
Ég er hins vegar með þessu á engan hátt að gera lítið úr trúarbrögðum eða trúnni á guð heldur skil ég bara ekki af hverju trúað fólk finnur í sífellu svo mikla þörf fyrir það að vefengja öll vísindi.
Fabrizio Kjartanelli (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 16:18
Fabrizio og Matti sakna skilgreininga á vísindum. Þau má skilgreina á marga vegu. Þó að ég telji allt í lagi að tala um vísindi án þess að skilgreina þau - rétt eins og talað er um Guð og kristni án þess að skilgreina þau fyrirbæri - sagði ég ýmislegt um vísindi í þessum stutta pistli.
Ég sagði - svo ég endurtaki mig - að þau væru ein leið til að þekkja hlutina. Þau hefðu fært okkur mikla blessun. Þau væru mannanna verk. Sannleikur þeirra væri ekki endanlegur. Hann breyttist. Þau svöruðu ýmsu en sviptu ekki hulunni af okkur í eitt skipti fyrir öll. Þau leystu ekki allt. Þau gætu hjálpað okkur við að finna hvað við þurfum en væru ekki jafn góð í að hjálpa okkur hvað við viljum.
Þetta sagði ég nú um vísindin en auðvitað er það alveg hellingur sem ég sagði ekki um þau. Ég biðst forláts á því.
Einu vil ég samt bæta við um vísindin - í ljósi niðurlagsorða síðustu athugasemdar: Það er hávísindalegt að véfengja vísindi. Ekki tel ég mig vísindamann en það veit ég þó um þau að eitt einkenna góðrar vísindamennsku er að véfengja sífellt aðferðir sínar og niðurstöður. Efast um sig. Þess vegna er það gott hjá "trúaða fólkinu" (sem Fabrizio kallar svo án skilgreiningar) að véfengja vísindin og mættu fleiri taka það sér til fyrirmyndar á því sviði.
Svavar Alfreð Jónsson, 24.8.2007 kl. 18:30
Eðlilegt er að 'sanntrúaðir' óttist vísindin og ófrægi. Enda hafa vísindauppgötvanir síðustu 700 ára lítið gert annað en að sýna hversu ólíklegar og ótrúverðugar smábarnasögur biblíunnar og annarra trúarrita.
Legg til að Svavar varpi grímunni og gangi til liðs við Ken Ham og aðra þá vestan hafs sem duglegastir eru að 'véfengja vísindin' á grundvelli biblíunnar. Þá er heiðarlegar fram komið.
Björn Friðgeir Björnsson, 24.8.2007 kl. 19:05
Ég sé á viðbrögðunum að skrif mín hafa verið tímabær. Með því að benda á að vísindin svari ekki öllum spurningum telja sumir að ég sé að "ófrægja" þau. Ég er óheiðarlegur. Þarf að varpa grímunni og koma út úr skápnum sem froðufellandi bókstafstrúarmaður.
Ef ekki má benda á takmarkanir vísinda án þess að vera genginn til liðs við Ken einhvern Ham (sem ég hef ekki hugmynd um hver er) er það auðvitað fyrst og fremst bagalegt fyrir vísindin sjálf.
Svo þykir mér lítið gert úr 700 ára starfi vísindamanna ef þeir hafa ekki haft annað við að sýsla allan þann tíma en að sýna fram á ólíkindi "smábarnasagna" Biblíunnar.
Það hlýtur þá að hafa verið ærið verkefni?
Svavar Alfreð Jónsson, 24.8.2007 kl. 21:03
Í svona stuttum pistli og svona almenns eðlis um ágæti trúar og ágæti vísinda... hvernig er hægt að finna það út að verið sé að gagnrýna vísindi sérstaklega? Í alvöru! Vísindi eru bara mannanna eitt af mannanna kerfum til að skoða heiminn, ekkert til að óttast enda var hvergi hræðst og ekkert til að ófræja... enda ekki gert.
krossgata, 24.8.2007 kl. 22:20
Ég veit ekki hvort að skoðun mín skipti neinu máli, enn mér þykir þín grein afar vel gerð, hnitmiðuð og tær ef svo má að orði komast. Það er algengur misskilningur að trúaðir hafi ekki áhuga á vísindum, þetta vissulega ekki rétt. Jæja enn hvað um það. Þakka þér fyrir.
Linda, 24.8.2007 kl. 23:02
Þessi grein er einmitt ekki góð, því miður, og dæmið þitt með Plútó er grátlega slakt. Spurningin hvort Plútó sé reikistjarna eða ekki er ekki vísindalegs eðlis, heldur snýst hún að öllu leyti um hugtök. Plútó er íshnöttur í ytra sólkerfinu, hvort sem menn ákveða að kalla hann reikistjörnu eða ekki. Það hefur aldrei verið til almennileg skilgreining á því hvað reikistjarna er fyrr en nú.
Þessi reikistjörnuskilgreining er meingölluð og mætti þess vegna svipta allar hinar reikistjörnurnar titlinum ef við fylgjum henni út í ystu æsar. Samkvæmt skilgreiningunni hættir jörðin skyndilega að vera reikistjarna eftir örfáa ármilljarða. Orðalagið er loðið og alls ekki í takt við þær kröfur sem gerðar eru í vísindum. Þess vegna eru mjög margir stjörnufræðingar mjög óánægðir með þessa skilgreiningu.
Helsti styrkur vísindanna er að þekkingin breytist - eykst - en staðreyndirnar standa eftir óhaggaðar. Vísindin leiðrétta sig sjálf. Ekkert slíkt er til staðar í trúarbrögðunum sem gerir þau að mjög lélegri leið til þess að afla þekkingar. Hvaða þekkingu á lífinu og alheiminum hafa trúarbrögðin annars veitt okkur? Það er hvergi minnst á örbylgjuklið eða DNA í biblíunni eða kóraninum.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 25.8.2007 kl. 01:11
Vísindin eru samansafn af fjölbreytilegum tólum sem við notum til þekkingaleitar, einskonar framlenging á skilningarvitum okkar. Kristni er aftur á móti, eðli sínu samkvæmt, endir þekkingarleitar á umheiminum, enda byggist hún á einu riti sem á að innihalda allan sannleik. En það rit var skrifað fyrir þúsundum ára og skilningur manna á umheiminum þá mjög takmarkaður og vildu menn fylla í allar þekkingareyðurnar með yfirnáttúrulegum fyrirbærum.
Vísindin gera ekkert fyrir þörf manna fyrir yfirnáttúruleg fyrirbæri. Mannfólk vildi gjarnan að það væri líf eftir dauðann, svo og englar, draugar, álfar, tröll og jólasveinninn, en þar sem vísindin geta ekki aðstoðað fólk við að útskýra ímyndanir þá finnst trúuðum (sem trúa á ímyndanir) eðlilegt að líta á þau sem léleg tól til að útskýra. Já, vísindin geta ekki útskýrt guð, engla, drauga eða slíkt, enda eru þau ekki fær um að útskýra og greina það sem er ekki greinanlegt, óútskýranlegt, þar sem það er ekki til.
Vísindin eru í eðli sínu til að koma í veg fyrir að órökstuddar ímyndanir stjórni athöfnum okkar. Trú er að þessu leiti andstæða vísindanna.
Magnús G. Magnússon (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 09:35
Ég held að dæmið um Plútó hafi bara verið býsna gott. Ég sé eftir ábendingar frá stjörnufræðivefnum að ef til vill var það enn betra en ég hélt. Vísindastarf snýst nefnilega alltaf að einhverju leyti um hugtök og skilgreiningar. Það ættu stjörnufræðingar að vita.
Vísindin leiðrétta sig sjálf og það gera þau vegna þess að vísindaleg hugsun er umfram allt gagnrýnin. Hún skoðar og véfengir eins og ég hef bent á. Líka það sem talið hefur verið til svokallaðra "staðreynda". Þær eru ekki undanþegnar hinni gagnrýnu hugsun vísindamannsins.
Þegar staðhæft er að ekkert slíkt sé til staðar í trúarbrögðum án útskýringa liggur beinast við að biðja um þær. Telur stjörnufræðingurinn að trúmaður sé ekki gagnrýninn?
Engum ætti að koma á óvart að ég tel trúarbrögðin eina leið af mörgum til að afla þekkingar. Ég og stjörnufræðingurinn erum sjálfsagt ekki sammála um hvað þekking sé - sem kristallast kannski í þeirri uppgötvun hans að hvergi sé minnst á örbylgjuklið eða DNA í ævafornum helgiritum (talandi um grátlega léleg dæmi).
Ég held að þekking sé fólgin í fleiru en örbylgjukliði, DNA og þvíumlíku. Þekking þarf ekkert endilega að vera vísindaleg.
Getur verið að hér örli á því sem nefnt hefur verið "vísindatrú" - þeirri trú að vísindin opni einu færu leiðina til sannleikans?
Nokkur orð til Erlings: Ég skrifaði pistilinn hér að ofan meðal annars til að sýna fram á að vísindi og trú geta vel "farið saman". Aðdróttanir þínar um að kirkjan hafi að engu rannsóknir fræðimanna á trúarritum er einfaldlega röng. Hér held ég að þú þyrftir að kynna þér málin aðeins betur.
Að lokum fær Magnús smáskammt: Hvað áttu við þegar þú segir kristni í eðli sínu endi þekkingarleitar á umheiminum? Eru kristnir menn ekki forvitnir um alheiminn og fyrirbæri hans?
Við erum sammála um að vísindin eru léleg tól við að rannsaka það sem ekki er hægt að rannsaka og útskýra það sem ekki er hægt að útskýra. (Reyndar geta vísindin verið prýðileg leið til að útskýra ímyndanir - eigi ímyndanirnar sér skýringar innan ramma vísindanna.) Þeirri spurningu er samt enn ósvarað hvort það þýði að einungis það teljist þekking sem hægt er að rannsaka og útskýra með aðferðum vísinda?
Hvað t. d. með sjálfsþekkinguna?
Svavar Alfreð Jónsson, 25.8.2007 kl. 11:41
Þú ert greinilega voða fyndinn. Það er greinilega ekki hægt að ræða við þig um þetta. Þú varst þarna að tjá þig um ákveðið málefni sem þú hefur augljóslega ekkert vit á en hefur enn ekki nægt þor til að viðurkenna það. Dæmið um Plútó sýnir ótrúlega litla innsýn í stjörnufræði og er grátlega lélegt dæmi um vísindalega þekkingu og sýnir um leið hvað þú hefur grátlega lélega þekkingu á efninu. Ég þekki biblíuna ekki nógu vel til að rífast við þig um hana og sleppi því. Ég hef þó lesið biblíuna nógu vel til að komast að því að hún inniheldur engin haldbær eða fullnægjandi svör um eitt eða neitt.
Vísindastarf snýst ekki hugtök og skilgreiningar. Við skilgreinum einungis til að einfalda okkur að rata um frumskóg þekkingarinnar. Eins og ég sagði, þá skiptir engu máli hvað við köllum ákveðið fyrirbæri því það breytir engu um þekkingu okkar á því. Þess vegna var þetta lélegt dæmi um vísindalega þekkingu. Plútó hefur ekkert breyst þótt við ákveðum að kalla hann reikistjörnu eða ekki. Hér held ég að þú þyrftir að kynna þér málin aðeins betur, svo ég noti þín eigin orð.
Mér er alveg sama þótt þú segir að ég sé vísindatrúar því ég er það alls ekki en segir mér ýmislegt um einkennilegan hugsunarhátt þinn. Þú hefur svo augljóslega rangt fyrir þér þar. Ég veit ekki til þess að vísindin hafi svör við öllu, ólíkt trúarbrögðunum þótt svörin séu oftast frekar döpur og skilar manni ekki miklu, og ég trúi því EKKI að vísindin munu nokkurn tímann hafa svör við öllu. Ég spyr aftur á móti, hvaða þekking hefur orðið til án rannsókna og athugana? Vísindin eru ekki fullkomin, en þau eru lang besta leiðin sem við eigum til að afla þekkingar. Um leið og menn geta smíðað flugfæra flugvél með trúarþekkingunni (svo grátlega lélegt dæmi sé tekið), þá skal ég endurskoða skoðun mína.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 25.8.2007 kl. 18:52
Hefur maður sem heldur því fram að vísindastarf snúist ekki um hugtök og skilgreiningar efni á því að setja sig á svona háan hest? Tala af svona dæmalausum hroka um "grátlega lélega" þekkingu, að ég sé að tjá mig um efni sem ég hafi ekkert vit á og svo framvegis?
Auðvitað snúast vísindi um hugtök og skilgreiningar. Vísindamaður gerir sér röklegar hugmyndir um viðfangsefni sín sem eru hraktar eða staðfestar með athugunum og tilraunum.
Ég held, stjörnufræðivefur góður, að þú ættir að byrja á því að lesa pistilinn minn áður en þú ferð fram í þessum ham. Hef ég haldið því fram Plútó hafi breyst? Plútó var dæmi um þekkingu okkar á þeim hlutlæga veruleika sem vísindin fást við. Þekking okkar á þeim veruleika getur breyst þótt hann breytist ekki. Þetta viðurkennir þú sjálfur þegar þú talar um að vísindin leiðrétti sig sjálf.
Ég hef aldrei gefið mig út fyrir að vera sérfræðingur í stjörnufræði en þú virðist vera það mikill sérfræðingur í Biblíunni að þú telur þig geta fullyrt að hún innihaldi "engin haldbær svör um eitt eða neitt". Skyldi þessi niðurstaða þín vera byggð á vísindalegri yfirvegun? Ekki síst í ljósi þess að þú viðurkennir að hafa þekkja ekki Biblíuna "nógu vel" til að "rífast" við mig um hana.
Ekki hef ég mikinn áhuga á að rífast við þig, hvorki um Biblíuna né stjörnufræði - og þetta átti ekki að vera fyndið.
Ef þú lest pistilinn minn sérðu að við erum sammála um að vísindin hafi ekki svör við öllu. En hver hefur sagt að trúarbrögðin hafi svör við öllu?
Auðvelt er að benda á þekkingu sem hefur orðið til án vísindalegra athugana. Í pistlinum mínum, sem þú ættir ef til vill að lesa, benti ég á sjálfsþekkinguna. Menn þurfa nefnilega hafa þekkingu til að gera fleira en að smíða flugvélar.
Svo tel ég mig þekkja konuna mína þokkalega vel án þess að hafa sett hana undir smásjána.
Svavar Alfreð Jónsson, 25.8.2007 kl. 19:44
Fyrst af öllu er mér auðvitað skylt að leiðrétta sjálfan mig "Enda hafa vísindauppgötvanir síðustu 700 ára lítið gert annað en að sýna hversu ólíklegar og ótrúverðugar smábarnasögur biblíunnar og annarra trúarrita."
Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt eins og bent var á, heldur skáldlegar ýkjur.. Þetta var bara lítill, en mikilvægur hluti. Og ærið verk var það og er enn í dag, enda berjast trúmenn blóðugri baráttu gegn vísindum. Vísindamenn hafa eingöngu nýlega vaknað til vitundar um þetta og hafið vörn. Þó að baráttan fari að mestu fram í Bandaríkjunum í dag, er fyllsta ástæða til að verjast því að vígvöllurinn færist hingað.
Grunninntakið í grein þinni og athugasemdum er þessi "Það er eitthvað til handan vísindanna". Milli línanna, en ekki annars staðar, verður að lesa: "Guð er til, ég veit það, og þá hlýtur það að vera".
"oft eru hlutirnir ekki eins og við sjáum þá eða heyrum þá". Að sjálfsögðu ekki. Til þess eru mælitæki sem mæla það sem skynfæri okkar eru ófær um. Ef þú ert að halda því fram að eitthvað utanheims sé til, þá er sterkari sönnunarbyrði á þér en svo að það nægi þér að segja að þú hafir víst rétt fyrir þér og að vísindi séu bara svo léleg.
Hvergi í grein þinni tekur þú marktæk dæmi um takmarkanir vísinda, dæmi þitt um Plútó er svo aumingjalegt að þú ættir að skammast þín. Það þarf meira að breytast en hugtök og skilgreiningar vísinda til að guð rúmist þar inni.
Hitt er annað mál að stundum breytist víðtekinn sannleikur vísindanna. Þetta er meira að segja höfuðsmerki vísindamanns, að viðurkenna að eitthvað sé réttara þegar óyggjandi sannanir liggja þar fyrir. Það er hins vegar höfuðsmerki hins sanntrúaða að engin sannindi eru meira óyggjandi en trúarrit hans, hvert svo sem það er.
"Ég skrifaði pistilinn hér að ofan meðal annars til að sýna fram á að vísindi og trú geta vel "farið saman". ". Þetta getur á engan hátt verið rétt. Augljóst er af lestri greinarinnar að hún er fálmkennd tilraun þín til að réttlæta fyrir sjálfum þér trú þína þrátt að vísindin sýni æ betur fram á það að tilvera Guðs sé svo ólíkleg sem hugsast getur. Því þarft þú að tala niður til vísinda og halda því fram að þau séu takmörkuð af því að þau hafi ekki enn sýnt fram á tilvist ósýnilegra bleikra einhyrn... fyrirgefðu, ég meina tilvist Guðs.
"það teljist þekking sem hægt er að rannsaka og útskýra með aðferðum vísinda?" Vísindi er rannsókn á raunveruleikanum. Þú ferð hér enn eins og köttur í kringum heitan graut, og passar að nefna ekki Guð á nafn.
"Þekking þarf ekkert endilega að vera vísindaleg." Guð er enn þessi heiti grautur. Taktu dæmi. Annars ertu bara að bulla. (auðvitað geturðu ekki tekið dæmi, það er svolítið ljótt að biðja þig um það)
"Telur stjörnufræðingurinn að trúmaður sé ekki gagnrýninn?" Nú er ég ekki stjörnufræðingur, en ég ætla að svara: NEI.
Stærsti strámaðurinn hér er auðvitað hugleiðingin um að 'Þekkja sjálfan sig'. Þetta kemur auðvitað megininntaki greinarinnar lítið við, en ég er ansi hræddur um að menntaðir sálfræðingar og geðlæknar telji að þau þekki nú mannshugann betur en Grikkir gerðu. Þú vilt kannske meina að "Guð í sjálfum þér" sé sá Guð sem þú leitar, en ansi er ég hræddur um að slík guðleg vera sem býr einungis í hverjum og einum sé ekki fær um þau afrek sem Guði eru kenndi.
Botnlausasta lýgin er síðan "Þau svara til dæmis engu um margt af því sem varðar manninn mestu." Fálmið verður ekki meira. Ekkert er sagt, þó að einhverju er ýjað. Það er nefnilega svo að það er ekki hægt að svara því sem ekki er sagt. Ég hef samt gert tilraunir hér.
Þegar vísindamaður gagnrýnir vísindi er það til að komast betri niðurstöðu. Þegar prestur gagnrýnir vísindi er það til að reyna að halda dauðahaldi í meintan sannleika fornrar skræðu. Eins og t.d. Ken Ham, forsvarsmaður Answers in Genesis og hins nýja sköpunarsögusafns. Og þú.
Björn Friðgeir Björnsson, 26.8.2007 kl. 08:09
Eiginlega fallast manni hendur eftir að hafa lesið þetta innlegg Björns Friðgeirs. Þvílíkur þvættingur - fyrirgefiði orðalagið. Trúir hann virkilega á "blóðuga baráttu" gegn vísindunum og hún sé að færast hingað? Heldur hann að pistillinn minn hafi verið liður í þessari baráttu?
Björn má gjarnan gagnrýna pistilinn málefnalega. En ég frábið mér að menn leggi mér eitthvað í munn sem ég hef ekki sagt. "Milli línanna en, ekki annars staðar, verður að lesa," segir Björn og segir mig vera að tala um tilvist Guðs í pistlinum. Það er ekki rétt. Pistillinn minn fjallar ekki um tilvist Guðs. Hann fjallar um vísindi og sjálfþekkingu.
Björn Friðgeir skrifar hér gegn grein sem enginn skrifaði nema þá hann sjálfur.
Og af hverju er dæmið um Plútó "aumingjalegt"? Er það ekki ágætt dæmi um hvernig þekking okkar og vísindalega skilgreiningar getur breyst?
Ég er búinn að taka mörg dæmi um þekkingu sem ekki er vísindaleg. Sjálfsþekkingin er eitt bara dæmið. Þekking geðlækna og sálfræðinga á mannshuganum er ekki sjálfsþekking. Þekking þeirra á sér sjálfum er á hinn bóginn sjálfsþekking.
Björn Fiðgeir opinberar sig held ég í lokasetningunni. "Þegar prestur gagnrýnir vísindi er það til að halda dauðahaldi í meintan sannleika fornrar skræðu."
Er þetta ekki málið? Ég held að hver sem er hefði getað skrifað þennan pistil. Einu sinni er minnst á Guð í honum - þegar vísindin eru sögð þakkarverð Guðs gjöf. Hvergi er minnst á þessa fornu skræðu hans Björns Friðgeirs, enda er hann að tala um grein sem ég skrifaði ekki - og viðurkennir það meira að segja.
En af því að ég er prestur hlýt ég að vera að meina eitthvað allt annað en ég skrifaði! Og er aftur kominn í félagsskap við þennan Ken Ham.
Svavar Alfreð Jónsson, 26.8.2007 kl. 12:23
Hefurður velt því fyrir þér Svavar hvort vandamálið sé hugsanlega skrif þín og sá dylgjustíll sem þú hefur tamið þér að nota?
Þegar þú talar niður til vísinda - þá ertu ekki að tala niður til vísinda. Þegar þú talar um að vísindum og trú sé stillt upp sem andstæðum - og notar svo restina af pistlinum til að andmæla því, ertu samt ekkert að tala um Gvuð og trú! Þegar þú talar um vantrú og siðleysi - þá ertu að sjálfsögðu ekkert að tala um trúleysi.
Ég ráðlegg þér að skrifa skýrt - segja skoðun þína og ekki fela þig undir hálfkveðnum vísum. Ég veit að þannig starfa prestar gjarnan, en betra væri að þora að standa við skoðun sína - eða a.m.k. hafa einhverja skoðun.
Matthías Ásgeirsson, 26.8.2007 kl. 14:14
"Ég veit að þannig starfa prestar gjarnan" eru auðvitað hvorki dylgjur né hálfkveðnar vísur?
Ég er alveg ófeiminn við að hafa skoðanir og tjá þær, m. a. á þessari síðu. Fólki gengur ábyggilega misvel að skilja mig. Sumir eiga mjög erfitt með það og virðast hafa þörf fyrir að gera mér upp skoðanir.
Pistilinn hér að ofan skrifaði ég um vísindi og sjálfsþekkingu. Þar bendi ég á að vísindin eigi ekki svör við öllu. Ef einhverjir vilja endilega skilja þetta þannig að þar með sé ég að tala niður til vísinda verða þeir líklega bara að fá að gera það.
Svavar Alfreð Jónsson, 26.8.2007 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.