Dyravígsla

noto_door[1]Þessi atburður átti sér nokkurn aðdraganda. Hann og sagan öll er auðvitað aðeins fyrir þá sem nenna að lesa.

Vorið 2006 festi ég kaup á forláta parketi á íbúðina. Greiddi ég góssið út í hönd, tæplega hálfa milljón króna að mig minnir.

Smiðir voru torfengnir og þegar hálft ár var liðið frá kaupunum bauðst parketsalan til að útvega einn slíkan, enda var parketið í geymslu hjá þeim. Loksins þegar sá smiður kom reyndist hann ekki hafa tíma til að taka að sér verkið. Greip ég þá til minna ráða og skrækti út smið, son vinkonu móður minnar. Sá gat sinnt parketlögnum í hjáverkum. Þegar hann hófst handa höfðum við ákveðið að sleppa að setja þetta parket á eina vistarveru. Mig vantaði aftur á móti hillur í þvottahúsið. Þær keypti hjá fyrirtækinu sem geymdi parketið. Var ákveðið að hillurnar yrðu skrifaðar á mig og ég gerði allt upp þegar ég skilaði afgangsgólfefninu. Þessi afdrifaríku viðskipti voru upp á rúmar átjánþúsund krónur.

Ekki tókst mér að ljúka parketlögnum áður en ég fór í sumarfrí og er reyndar ekki alveg búinn að því enn. Þegar ég kom úr sumarfríi beið mín bréf frá lögfræðingi í Reykjavík. Var ég krafinn um þessar 18.000 krónur ella skyldi ég hafa verra af. Ég hringdi strax í lögfræðinginn og útskýrði málið. Sá kvaðst ekkert geta gert. Benti mér að tala við búðina. Daginn eftir fór ég þangað niður eftir. Allir vildu ljúka málinu. Þær sættir tókust í málinu að ég mældi rýmið sem átti eftir að leggja á og skilaði umframparketi auk einnar hillu, sem reyndist vera ofaukið.

Ég gerði það og fékk þessa líka fínu innleggsnótu senda í pósti nokkru síðar. Hún hljóðaði upp á nánast sömu upphæð og lögfræðingurinn hafði farið fram á. Beið ég rólegur eftir því að fá nýjan reikning frá fyrirtækinu - sem hefði þó varla hljóðað nema upp á nokkur hundruð krónur. Átti ég alveg eins von á að málinu væri lokið.

Í gær tók ég mig svo til og steypti í skemmdir á útidyratröppunum hjá mér. Var ég býsna hreykinn af verkinu. Ekki spillti ánægjunni að í dag birtust óforvarindis smiðir og settu nýjar útidyr á húskofann, en þær pantaði konan mín í vor.

Er aðkoma að húsinu orðin gullglæsileg.

Þegar smiðirnir eru í þann mund að reka lokahönd á verkið gengur maður upp hinar endurbættu útidyratröppur, knýr á hinar glænýju útidyr og krefst inngöngu á heimilið. Ég fagna honum innilega en hann þakkar fyrir sig með því að birta mér stefnu. Sú er frá áðurnefndum lögfræðingi í Reykjavík. Eru krónurnar 18.000, sem ég átti reyndar inni hjá fyrirtækinu, orðnar tæplega 23.000 mér í óhag. Vandaði lögfræðingurinn mér ekki kveðjurnar.

Stefnuvotturinn var ekki lengi að ljúka sér af. Eftir stóð ég, ekki laus við óhug þegar ég hugsaði um hver hefði fyrstur gengið inn um hinar nýju dyr.

Óhugurinn rjátlaðist heldur af mér þegar ég uppgötvaði hver hefði fyrstur gengið út um þessar sömu dyr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: krossgata

Til hamingju með allt fíneríið.  Leiðinleg alltaf þessi bókhaldsmál, baunatalning og svoleiðis dót.

krossgata, 28.8.2007 kl. 22:05

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já mörg er Búmansraunin/en Guð launar fyrir Hrafnin/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 29.8.2007 kl. 00:19

3 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Þú ferð létt með að losa þig við lögfræðingskröfuna allavega ef það er bein í nefinu á verslunarstjóranum sem þú áttir samskipti við.  Taktu bara ekki mark á ef þeir segja að það sé ekki hægt að fella kröfuna niður. Ég er líkaviss um að þú færð bara skemmtilega gesti inn um dyrnar eftir þetta því fall er fararheill.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 29.8.2007 kl. 08:06

4 identicon

Sæll Svavar.

Rakst á bloggið þitt fyrir tilviljun á mbl.is Gaman að lesa það sem þú skrifar. Ég bið fyrir kærar kveðjur til Bryndísar og Björns Inga - hinna auðvitað líka :) Nú eru liðin all mörg ár síðan ég kenndi Birni Inga í 1. bekk og mikið vatn runnið til sjávar :) Ég bý austur í Flóa með mann og börn. Þið hafið e.t.v. heyrt af okkur í gegnum tíðina frá Siggu og Kalla.

Bið að heilsa norður, Kristín.

Kristin Sigurdardottir (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband